Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Í mörgum löndum er hunangs­framleiðsla með býflugum forn búgrein og umsvifamikil og nær saga hunangsnýtingar yfir átta þúsund ár, að því að talið er.
Í mörgum löndum er hunangs­framleiðsla með býflugum forn búgrein og umsvifamikil og nær saga hunangsnýtingar yfir átta þúsund ár, að því að talið er.
Fréttir 22. maí 2015

Býflugnarækt er stórbúskapur

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Hunangsframleiðsla og búskapur með býflugur hér á landi á sér ekki langa hefð og er í raun enn að stíga sín fyrstu spor en hérlendis eru um 80 býræktendur og vafalítið fjölgar jafnt og þétt í hópi þeirra á hverju ári. 
 
Í mörgum löndum er hunangs­framleiðsla með býflugum hins vegar forn búgrein og umsvifamikil og í raun má tala um býflugnabúskap sem stórbúgrein enda nær saga hunangsnýtingar yfir átta þúsund ár, að því að talið er.
 
Heimsframleiðslan 1,7 milljónir tonna
 
Árið 2013 nam heimsframleiðsla á náttúrulegu hunangi, samkvæmt Alþjóðlegu matvælastofnuninni FAO, 1,7 milljónum tonna. Heimsframleiðslan skiptist þannig niður á milli heimsálfa að Asía bar af með 45,7% en þar á eftir kom Evrópa með 22,4% og Ameríka með 20%.
 
Sé horft til einstakra landa er Kína með yfirburðastöðu með tæplega 200 þúsund tonna framleiðslu á ári en skammt undan eru lönd Evrópusambandsins með um 180 þúsund tonna framleiðslu. Þar utan eru svo einstök lönd með mikla framleiðslu eins og Tyrkland, Úkraína, Argentína og Bandaríkin en hunangsframleiðsla þessara landa er á bilinu 60–80 þúsund tonn á ári.
 
Hunang ekki bara hunang
 
Það eru til ótal gerðir af hunangi og er oft munur á milli landa hvernig hunangið er. Þetta skýrist af efnasamsetningu þess en í hunangi hafa fundist um 180 mismunandi efni og er hlutfall efnanna ólíkt eftir þeim nektar sem býflugurnar ná í og hafa að vinna úr. Þannig verður t.d. hunang frá nektar repjunnar oft frekar þykkt þar sem það kristallast auðveldlega á meðan hunang frá nektar margra villiblóma er oft meira fljótandi. Þá breytist einnig samsetning hunangsins eftir því hvaða hluta ársins er um að ræða svo hver hunangsbóndi getur framleitt margar gerðir af hunangi þó bú hans standi á sama stað allt sumarið.
Hundruð milljarða
 
Hunang gengur eðlilega kaupum og sölum og stærstu framleiðslulöndin eru jafnframt stórir útflytjendur. Um gríðarleg viðskipti er að ræða en þau nema hundruðum milljarða. Stærstu útflytjendurnir eru kínverskir bændur með um 12% markaðshlutdeild en þar á eftir koma kollegar þeirra í Þýska-landi með um 9%. Það sem þó er merkilegt með heimsviðskiptin er að vörurnar fara fram og til baka og stærsti einstaki innflytjandinn á hunangi er einmitt Þýskaland, en um fjórðungur alls hunangs í heimsviðskiptum fer þangað.
 
Allar býflugur með skilgreint hlutverk
 
Býflugnabúskapur er flóknari en margur heldur en bæði þarf nokkuð sérhæfðan búnað til meðhöndlunar og vinnu við hunangið sjálft og svo að sjálfsögðu þarf býflugnabúið sjálft. 
 
Oftast eru notaðir sérstakir kassar fyrir hvert bú en í hverjum þeirra er ein drottning sem er eina verpandi flugan í búinu. Henni sinna svo allt að eitt þúsund karldýr sem kallast á íslensku druntar. Þá tilheyra búi drottningarinnar u.þ.b. 25 þúsund sk. eldri þernur, en þeirra hlutverk er aðallega að sinna söfnun á nektar. Í búinu starfa svo álíka margar ungar þernur, sem eru aðallega vinnuflugur og sjá um að sinna uppeldisstörfum í búinu, þ.e. að passa upp á eggin sem eru um sex þúsund, sjá um að fóðra ungar lirfur sem geta verið í kringum níu þúsund og svo að passa eldri lirfurnar sem eru í kringum 20 þúsund og eru í lokuðum vaxtarhólfum í býflugnabúunum.
 
Hafa góð áhrif á fræmyndun
 
Erlendis má víða sjá að búið er að koma fyrir mörgum býflugnabúum í útjöðrum akra, sér í lagi repjuakra og annarra sem byggja á blómframleiðslu. Oft er um að ræða samstarf bænda þar sem býflugnabóndinn kemur með bú sín og setur þau niður við útjaðar akurs þar sem eru mörg blóm. Býflugurnar fara þá að „vinna“ við viðkomandi akur og hjálpa eðlilega til við frjóvgun plantnanna. Sænskar rannsóknir hafa sýnt að þar sem býflugur eru hafðar í nánd við repjuakra eykst uppskera repjufræja um allt að 20% vegna stórbættrar frjóvgunar, sér í lagi á svæðum þar sem ekki er mjög vindasamt. Þá skipta býflugur höfuðmáli fyrir bændur sem framleiða hvítsmárafræ en dönsk rannsókn sýnir að þar eykst uppskera fræs um allt að 85% séu býflugur hafðar í nánd við akurinn.
 
Býflugum þarf að sinna
 
Þeim sem ekki þekkja til þessarar búgreinar kann að finnast sérstakt að það þurfi að sinna býflugunum sjálfum, fyrir utan að ná í hunangið en það er tilfellið og því betur sem hlúð er að búskapnum, því meiri líkur eru að á árangurinn verði góður. Þannig þarf t.d. hver býflugnabóndi að vera vakandi yfir því að alltaf sé til nóg af nektar í nærumhverfi býflugnanna og ef ekki er nóg af blómstrandi plöntum þá þarf að „fóðra“ býflugurnar með sykurvatni. Enn fremur þurfa íbúar búanna töluvert af vatni og því þarf að brynna býflugum og er það nokkuð magnað að sjá býflugur raða sér á vatnsdalla við bú sín að kveldi og drekka. Enn fremur þarf bóndinn alltaf að vera vakandi yfir því að ekki sé verið að eitra í nágrenni búsins og að býflugurnar séu heilbrigðar og í góðu ástandi.
 
Kynbótastarf
 
Það skiptir auðvitað miklu máli að býflugurnar séu iðnar við að safna nektar í bú sitt, séu ratvissar og heimsæknar sem og að þær séu til friðs og ekki að stinga fólk eða búfénað. Það er því stunduð umfangsmikil kynbótastarfsemi með býflugur og snúa ræktunarmarkmiðin að hefðbundnum gildum líkt og bæði í nautgripa- og sauðfjárrækt, þ.e. að bæta frjósemi, framleiðslueiginleika, heilbrigði og sér í lagi gott atferli. Skemmtilega líkt því sem margir þekkja til innan hinna hefðbundnu búgreina. 
Í Danmörku, þar sem greinar­höfundur starfar, eru 23 kynbótastöðvar fyrir býflugur. Þær eru staðsettar á litlum eyjum til þess að minnka líkurnar á því að býflugurnar blandist öðrum og að unnt sé að stjórna því með hvaða einstaklingum pörunin fer fram. Býflugnabændur geta svo keypt frjóvgaðar drottningar frá þessum búum og endurnýjað þannig erfðaefnið reglulega og hlúð þannig að hunangsframleiðslu sinni.
 
Hrun í býflugnastofnum
 
Undanfarin ár hafa orðið mikil áföll í mörgum löndum vegna hruns í býflugnastofnum landanna. Þetta hefur lýst sér þannig að býflugurnar hafa hreinlega ekki lifað af veturinn og vilja margir kenna um nútíma búskaparháttum s.s. notkun á eitri en aðrir benda á snýkjudýr sem herja á býflugur eða vírusa sem hafa valdið þessu. Hvað sem veldur er ljóst að mörg lönd hafa lent í áfalli og t.d. varð mikill samdráttur í Frakklandi á síðasta ári þegar ársframleiðsla hunangs nam um 10.000 tonnum, sem er helmingi minna en árið 2011. Mörg önnur lönd hafa gengið í gegnum álíka hörmungar sem hefur gert það að verkum að töluverðu púðri er nú varið í rannsóknir á býflugum til þess að finna lausn á þessum vanda.
 
Byflugur.is
 
Það er til gríðarlega mikið og fjölbreytt fræðsluefni um býflugnarækt og hunangsframleiðslu en líklega er einna besta íslenska samantektin um þetta efni á heimasíðu Félags býræktenda hér á landi. Heimasíða félagsins heitir einfaldlega www.byflugur.is og þar má finna yfirgripsmikla samantekt um býflugnarækt og framleiðslu á hunangi sem óhætt er að mæla með lestri á, hafi efni þessarar greinar vakið áhuga á þessari fornu búgrein.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Ráðgjafi hjá SEGES P/S í Danmörku

3 myndir:

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...