Búvélasali nýr formaður FA
Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri og eigandi Aflvéla og Burstagerðarinnar, var kjörinn formaður Félags atvinnurekenda á aðalfundi félagsins í síðustu viku.
Hann stofnaði Aflvélar árið 2004, sem sérhæfði sig fyrst í sölu og þjónustu á vinnuvélum til snjóruðnings og vegahreinsunar, ásamt hreinsunar innanhúss.
Aflvélar keyptu þrotabú Jötun véla árið 2020 og hafa verið stór aðili í innflutningi og þjónustu á búvélum síðan þá. Aflvélar, og systurfyrirtæki þess, Búvélar, flytja inn vinsæl vörumerki eins og Valtra og Massey Ferguson.
Friðrik er með MBA-próf frá Háskólanum í Reykjavík og flugstjórnarpróf. Hann sat í stjórn FA sem meðstjórnandi frá 2010 til 2014 og aftur frá 2019 til 2025. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu á vef FA.