Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Horft af Hellisheiði eystri yfir Héraðsflóa á heiðskírum sumardegi.
Horft af Hellisheiði eystri yfir Héraðsflóa á heiðskírum sumardegi.
Mynd / HKr.
Skoðun 27. apríl 2017

Búseta og nærsamfélagið

Höfundur: Eiríkur Blöndal Í stjórn Bændasamtaka Íslands
Vaxandi fjöldi ferðamanna sækir landið heim. Það er jákvætt og landsmenn keppast við að þjónusta gesti okkar sem best. Ég hef sem stjórnarmaður í Framleiðnisjóði fengið innsýn í margar góðar og metnaðarfullar hugmyndir tengdar ferðaþjónustu sem verða margar brátt að veruleika og munu auðga atvinnulíf til sveita víða um land.
 
En það eru líka vaxtarverkir. Húsnæði er eftirsóttara nú en áður og sumt af því er ekki til ráðstöfunar til búsetu vegna þess að það er leigt til ferðamanna. Sennilega er þetta eitt af því sem veldur þenslu á húsnæðismarkaði, ekki síst í höfuðborginni. 
 
Eitt af meginverkefnum Bændasamtaka Íslands er að fjalla um hagsmuni íbúa með fasta búsetu í sveitum. Um þetta vitna til dæmis samþykktir Búnaðarþings mörg undangengin ár. Það er ekki laust við að íbúar í dreifbýli kannist við þá umræðu sem nú er uppi um búsetuaðstæður í höfuðborginni. Í raun snýst umræðan um sömu hlutina og hjá okkur, möguleika fólks til að koma sér þaki yfir höfuðið, að innviðir nærri heimilinu séu í lagi, svo sem skólar, heilbrigðisþjónusta, samgöngur og fjarskipti og að þeir sem fjalla um framtíð nærsamfélagsins hafi skýra framtíðarsýn. 
 
Sveitarfélög fara með skipulagsvaldið
 
Sveitarfélög ráða nú sem áður miklu um ýmislegt í nærsamfélaginu. Þau geta ráðist í aðgerðir  til þess að bæta búsetuaðstæður. Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið, þ.e. það er þeirra að setja skilyrði um landnotkun og heimila eða banna tiltekna notkun á húsnæði eða landi. Enn fremur er það í valdi sveitarfélaganna að beita skattalegum úrræðum, svo sem fasteignagjöldum til þess að tryggja hagsmuni þeirra sem í raun mynda samfélagið á hverjum stað. Í sveitum hefur, líkt og í höfuðborginni, vandamálið víða verið gisnari búseta. Ástæðurnar eru margar, en ekki síst að aðrir hagsmunir en búseta eru mikils metnir.
 
Skiptir það máli hverjir fara með eignirnar?
 
Önnur hlið þessarar sömu umræðu er uppkaup á eignum. Í raun er hún hliðstæð í þéttbýli og dreifbýli. Umræðan snýst oftar en ekki um ríkisfang kaupanda, sem oftar en ekki er einhvers konar félag með óljóst og breytilegt eignarhald og tilgang eftir hentugleika. Það er skrítið. Landsbankinn tók m.a. þátt í þessum leik um tíma. Það er því miður þannig að lítil stoð er í jarða- og ábúðarlögum þegar fjallað er um þau mál. Ástæðan er sú að þessir lagabálkar eru orðnir mjög veikir vegna lagabreytinga og lítils vilja til að framfylgja markmiðum þeirra.
 
Ástæða er til þess nú sem fyrr að styrkja þetta lagaumhverfi og framkvæmd þess.  Sveitarfélögin, það er að segja ef fólkið þar hefur áhuga á, hafa hins vegar alla burði og heimildir til að skipuleggja landnýtingu og skattlagningu þannig að hagsmunir nærsamfélagsins séu ekki fyrir borð bornir. Það er engin ástæða til að halda að kaupendur jarða eða íbúða vilji brjóta niður nærsamfélögin. Þvert á móti lýsa þessir aðilar yfir, oft með opinberum hætti, að þeir vilji þvert á móti styrkja þau. Sveitarfélögin þurfa hins vegar að standa sig í að skapa þeim stuðningi hentugan farveg.
 
Svo eru það ríkisjarðirnar. Réttilega hefur verið bent á að ríkið þarf að taka betur á málum þar. Samt verður að viðurkennast að ríkið er hvorki betri né verri landeigandi en aðrir þegar kemur að því að styrkja nærsamfélögin. Á vissum svæðum, eins og bent hefur verið á, á ríkið vissulega sóknarfæri.
 
Gisnari búseta brýtur niður nærsamfélögin. Hún veldur því að fólk þarf að eyða meginhluta tíma síns og orku í að berjast fyrir sjálfsögðum hlutum. Samfélögin verða þannig verr í stakk búin til að takast á við breytilegar aðstæður sem t.d. veðurfar eða markaðir skapa okkur.
 
Til að breyta þessu þarf aðeins eitt, það er að við íbúar nærsamfélaganna metum gildi eigin búsetu og eigin samfélaga að verðleikum.
Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.