Búseta í sveit
Búseta í sveit heitir verkefni sem hefur verið unnið hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins undanfarið ár. Verkefnið er í umsjá Guðnýjar Harðardóttur og var unnið með styrkveitingu frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins.

Meginmarkmið verkefnisins var að þróa ráðgjöf vegna ættliðaskipta og upphafs búrekstrar. Auknar kröfur stjórnsýslunnar ásamt stækkandi búum hefur leitt til þess að eftirspurn eftir slíkri ráðgjöf og þjónustu hefur aukist til muna. Sú vegferð að hefja búrekstur er ekki einfalt mál, sama hvort um ræðir ættliðaskipti eða kaup á almennum markaði.
Á Búnaðarþingi árið 2013 var m.a. ályktað um þessi mál í þá veru að efla skyldi ráðgjöf varðandi ábúendaskipti á bújörðum. Í kjölfarið var farið af stað með það verkefni sem nú er komið til framkvæmda í formi fræðsluefnis á vef RML auk beinnar ráðgjafar.
Eins og gefur að skilja er verkefnið umfangsmikið en afurðirnar margvíslegar. Í fyrsta lagi varð til efni sem er aðgengilegt á vef RML í formi rafrænna bæklinga sem allir geta nálgast. Í öðru lagi urðu til ítarlegri bæklingar sem nefnast rafrænir vegvísar og fást þeir hjá næsta ráðunaut. Þeim er ætlað að vísa leiðina við upphaf búskapar ásamt því að þeim fylgir klukkustundar ráðgjöf/þjónusta frá ráðunaut. Gjaldið er vægt eða 10 þúsund krónur.
Síðast en ekki síst var unnið að því að gera ráðgjöf vegna ættliðaskipta og upphafs búskapar markvissari. Mikil vinna var lögð í efni tengt málefninu og er það efni aðgengilegt starfsmönnum RML. Lögð var áhersla á þær fjölmörgu spurningar sem koma upp og nauðsynlegt er að fá svör við þegar ættliðaskipti eiga í hlut. Aðstæður eru misjafnar í hvert og eitt skipti og því ólík úrræði sem henta hverju sinni. Ráðunautar eru nú mun betur undirbúnir fyrir slíka ráðgjöf og þjónustu.
Verkefninu er ekki lokið þótt það hafi gefið af sér afurðir og eru menn hvattir til að skoða það efni sem er aðgengilegt á vef RML. Það sem er aðgengilegt þar eru bæklingar sem eru gagnlegir í upphafi þeirrar vegferðar að hefja búrekstur. Þeir vísa m.a. á nytsamlegar vefsíður sem veita ítarlegar upplýsingar. Þeir bera heitin Ættliðaskipti, Kaup á almennum markaði og Starfsemi – hvað svo?
Ljóst er að fleiri bæklingar eiga eftir að líta dagsins ljós og hlakka starfsmenn RML til að takast á við þessi verkefni með þeim sem á þurfa að halda.
- Rafrænir vegvísar og 1 klst. ráðgjöf/þjónusta ráðunautar:
- Að hefja sauðfjárbúskap
- Að hefja mjólkurframleiðslu/nautgriparækt
- Ættliðaskipti á búi - vinnublöð
- Rekstrar-/viðskiptaáætlun
- Samningagerð
- Aðstoð við umsóknir