Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Búnaðarbálkur hinn nýi
Lesendarýni 10. júní 2016

Búnaðarbálkur hinn nýi

Höfundur: Andri Snær Magnason
Við höfum gengið gegnum gríðarlegar samfélagsbreytingar á síðustu árum og byggðamál eru stærstu málin sem þjóðin þarf að glíma við næstu árin. Hvort sem það snertir brottflutning af landsbyggðinni eða brottflutning frá Íslandi. 
 
Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að tíminn muni vinna með landsbyggðinni til lengri tíma litið. Margt af því sem hefur verið talið til vankosta eða óhagkvæmni er að verða sjaldgæft, eftirsótt og sérstakt, ekki aðeins innanlands heldur alþjóðlega. Ég hef verið á þeirri skoðun all lengi, að í þeim 6.000 lögbýlum sem við eigum hérlendis séu miklu fleiri tækifæri heldur en almennt er haldið á lofti.
 
Í Draumalandinu skrifaði ég heilan kafla um landbúnað. Þá hafði stjórnmálamaður lýst því yfir að engin tækifæri væru til staðar í sauðfjárrækt. En sem ungur maður sem ákvað að helga sig ljóðagerð og barnabókaskrifum í landi með aðeins 4.000 börnum í árgangi þá hef ég einlægan áhuga á því að finna tækifæri þar sem aðrir sjá þau ekki. Ég er ekki sveitabarn sjálfur, ég er bara strákur úr Árbænum, en við erum ekki alvitlausir, Sindri, formaður Bændasamtakanna, ólst upp í næstu götu.
 
Í Draumalandinu lýsi ég tengslum neytanda á mölinni við íslenskan landbúnað eins og þau gátu verið fyrir áratug:
 
,,Svona gerist það: Maður fer í Bónus, finnur bleikan hrygg sem liggur í haug ofan í frystikistu í þykkum KS-plastpoka. Á miðanum stendur: „Hryggur í poka“. Áhugalaus unglingur rennir honum gegnum geislann. Maður eldar hann eða gleymir í frystikistunni. Hryggurinn er kannski ágætur en honum fylgir engin saga. Hryggnum fylgir engin merking, engin mynd af fjalli, héraði, manni eða menningu og þar af leiðandi glatast verðmætar tengingar og þræðir, tækifæri til að hafa einu sinni örlítið gegnsæi í veröldinni. Örlítinn þráð sem tengir mann við mann. Bær sem vörumerki hljómar kannski markaðslega en án vörumerkja hefur dýpri sérviska og matarmenning ekki fengið að þróast. Flestir þekkja muninn á kóki og pepsí, diet kóki og pepsí max en það er erfiðara að þekkja muninn á Vestfjarðalambi og Austfjarðalambi, fjallalambi, fjörubeit eða sauðakjöti.“
 
Þetta var skrifað fyrir áratug. Margt hefur gerst síðan þá. Áhugi neytenda hefur vaxið og nýjar dreifingarleiðir orðið til. Víða hefur einmitt komist á samband milli bænda og neytenda. Beint frá býli virkar vel, fjölmargar sveitir hafa mótað sér ímynd og gera út á sérkenni sín. Með lítilli fyrirhöfn geta neytendur um allt land valið um það hvort lambið sem þeir kaupa hefur eytt sínu eina sumri á austfirskum heiðum eða vestfirskum fjöllum; við getum valið um nautakjöt undan Jökli, af Mýrunum eða úr Kjósinni svo dæmi séu tekin og metnaðarfullir framleiðendur bjóða upp á kjöt af kjúklingum og svínum sem hafa búið við gott atlæti og vandað, lífrænt fóður. Upprunamerkingum á grænmeti og kornmeti hefur líka fleygt fram.
 
Ólíkt því sem var fyrir tíu árum er nú hægðarleikur að elda veislumáltíð úr íslensku hráefni, einungis með vörum sem við vitum nákvæmlega hvaðan koma. Bygg, repjuolía og fjölbreytt úrval af kryddvörum og sælkeravarningi hefur bæst í innkaupakörfur landsmanna og við vitum hver sáði korninu og uppskar það, hver pressaði olíuna, hver markaði lambið að vori, fylgdi því á afrétt snemmsumars og sótti aftur að hausti.
 
Nýbreytni í landbúnaði einskorðast ekki við hráefnisframleiðslu. Margir kúabændur framleiða heimagerðan ís, hver með sínum sérkennum – ísinn frá Holtsseli er ekki eins og ísinn frá Erpsstöðum. Drykki og krydd með bragði úr ýmsum byggðarlögum má nú nálgast víða, sumt er kunnuglegt eins og saft úr rabarbara og berjum, annað nýstárlegra eins og birki- og fíflasíróp.
 
Bændur og sveitafólk þekkja landið, hafa búið á því og með því. Langflestir bændur eru sér meðvitaðir um hvernig eigi að umgangast það, hvað þurfi að gera til þess að sambúðin við það verði sjálfbær. Neytendur verða sífellt meðvitaðri um afleiðingar neyslu sinnar á umhverfið, bæði sitt nánasta umhverfi og jörðina alla. Hagsmunir þessara hópa fara saman, og það þarf að gefa þeim fleiri tækifæri til að tala saman og nálgast hver annan. Ferðamenn eru líka neytendur og ferðamannaflóðið auðveldar nýja markaðssókn bænda og stofnar til nýrra kynna.
 
Dýravelferð og ábyrg landnýting eru lykilþættir í að byggja upp trausta ímynd landbúnaðar framtíðarinnar. Það hefur margt gerst á áratug, en við erum rétt að byrja, möguleikarnir eru ótæmandi.
 
Andri Snær Magnason
Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...