Búist við metuppskeru í Svíðþjóð
Búist er við gríðarlegri kornuppskeru í Svíþjóð í sumar að því er fram kemur á vefsíðu Lantmännen. Reiknað er með að uppskeran skili að minnsta kosti 5,75 milljónum tonna af korni. Mun þetta þýða verulega aukinn útflutning á korni frá Svíþjóð og að hann muni aukast úr 900 þúsund tonnum í 1,3 milljónir tonna.
Helstu kaupendur á sænsku hveiti og öðru korni eru í Norður-Evrópu og Norður-Afríku. Búist er við að hveitiuppskeran verði meiri en nokkru sinni áður og að hún aukist um 40% frá 2013.
Þykir ástandið í sænskum landbúnaði nokkuð sérstakt, þar sem mikil spretta nú einskorðast ekki við einstök landsvæði heldur allt landið frá lengst í norðri til syðsta hluta Svíþjóðar. Mest er aukningin þó í Mälardalen. Eins og fyrr segir er búist við að uppskeran nemi 5,75 milljónum tonna, en hún nam rúmum 5,43 milljónum tonna í fyrra. Síðast var met slegið árið 2009, en þá var uppskeran 5,58 milljónir tonna.