Breytingar á reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt drög að breytingu á reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs í samráðsgátt stjórnvalda. Með reglugerðinni er ætlað að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins um umbúðir og umbúðaúrgang og tryggja að þess háttar úrgangur hafi sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið.
Meðal þeirra breytinga sem lagt er fram er skylda til lágmarkshlutfalls endurunnins plasts í einstaka plastflöskum; það verður 25% frá og með 1. janúar 2026 og yrði hækkað í 30 prósent í janúar 2030. Sett verða 77% söfnunarviðmið fyrir einnota plastflöskur og 90% fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir fyrir lok árs 2025. Hlutfallið skal hafa náð 90% fyrir árið 2029 fyrir báðar tegundir umbúða. Skilagjald þykir hafa borið góðan árangur hér á landi og er skilahlutfall fyrir slíkar umbúðir nú þegar í kringum 90%.
Í reglugerðinni er einnig kveðið á um endurvinnslumarkmið fyrir umbúðaúrgang. Sértæk markmið verða fyrir ólíkar úrgangstegundir. 50% af plasti, 25% af viði, 70% af járnríkum málmum, 50% af áli, 70% af gleri og 75% af pappír og pappa skulu að lágmarki vera endurunnin. Fyrir 31. desember 2030 hækka þessi viðmið um 5–10% eftir flokkum. Fyrir umbúðaúrgang í heild er kveðið á um að eigi síðar en 31. desember 2025 skuli að lágmarki 65% alls umbúðaúrgangs, miðað við þyngd, endurunninn. Lágmarksviðmið verður síðan hækkað í 70% fyrir 31. desember 2030.
Frestur til þess að senda umsögn í samráðsgátt um breytingarnar er til og með 7. júlí næstkomandi.
