Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Brenna sorpið eða urða?
Skoðun 26. júní 2019

Brenna sorpið eða urða?

Sorp hefur fylgt manninum frá örófi alda. Í fyrndinni var þetta ekkert vandamál, því náttúran sá um að gera jarðveg úr öllum leifum mannsins á tiltölulega stuttum tíma. Þetta breyttist ekki fyrr en maðurinn fór að finna upp á því að gera muni úr málmum og löngu síðar úr ýmsum gerviefnum. 
 
Nú er svo komið að drjúgur hluti af úrgangi frá mannkyninu er í formi efna sem brotna ekki svo glatt niður. Gott dæmi er ýmis plastúrgangur þar sem niðurbrot tekur áratugi eða jafnvel árhundruð með tilheyrandi smiti í jarðveg og grunnvatn og endar oft með banvænum hætti í lífverum.
 
Ríflega 140 þús. tonn urðuð árlega hér á landi
 
Hér á landi hefur úrgangur farið vaxandi síðustu ár. Árið 2016 nam úrgangur sem féll til yfir milljón tonn. Í ársskýrslu Umhverfisstofnunar árið 2017 kemur fram að hver landsmaður skilur eftir sig um 660 kg af heimilisúrgangi á ári. Hluti þess fer til endurvinnslu en það sem eftir stendur er að mestu urðað víðs vegar um landið, m.a. í Álfsnesi, í Fíflholti á Mýrum og við Blönduós, ásamt öðrum úrgangi. Á Álfsnesi voru á árinu 2018 urðuð rúm 140 þús. tonn, í Fíflholti rúm 15 þús. tonn og í landi Sölvabakka við Blönduós tæp 22 þús. tonn. Urðun úrgangs getur valdið grunnvatnsmengun um langa framtíð og eitrað jarðveg auk þess sem mikið landrými fer undir landfyllingar. Nýlega hafa því komið upp hugmyndir um að sigla með sorp til Svíþjóðar til brennslu í svokölluðum hátæknisorpbrennslustöðvum, en hagkvæmni þess er helst fólgin í hærra orkuverði erlendis.
 
Brennsla sorps
 
Nokkrir úrgangsflokkar eiga enga aðra meðhöndlunarleið en brennslu. Dæmi um slíka flokka er plast, hjólbarðar og litað timbur. Nú eru flestar sorpbrennslustöðvar útbúnar sérstökum tækni- og hreinsibúnaði til að brenna úrgang og hægt er að nýta varmann sem myndast við brennsluna. Árið 2016 voru starfræktar 2.200 slíkar sorpbrennslustöðvar í heiminum. Allmargar þessara sorpbrennslustöðva eru í Evrópu. Á Íslandi er nú ein sorpeyðingarstöð sem hefur leyfi til sorpbrennslu, en það er móttöku-, flokkunar- og eyðingarstöðin Kalka í Reykjanesbæ. Stöðin getur brennt allt að 12.300 tonnum á ári og er útbúin hreinsunarbúnaði sem heldur mengun í lágmarki. Í dag er í Kölku mestöllu sjúkrahússorpi af landinu brennt og töluverðu af spilliefnasorpi. Unnt er að framleiða orku úr sorpinu, en rafmagnsframleiðsla í Kölku hefur legið niðri um árabil.
 
Urðun bönnuð
 
Evrópusambandið stefnir að því að banna urðun sorps í kringum árið 2030 og tekin hefur verið upp sú stefna í mörgum löndum Evrópu að brenna fremur sorpi en að urða það. Samkvæmt landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013–2024 er stefnt að því að bæta nýtingu úrgangs og draga úr urðun. Þar kemur m.a. fram að urðun er algengasta förgunarleið úrgangs hér á landi en urðunarstöðum hefur þó fækkað töluvert á síðustu árum, m.a. vegna hertra krafna um mengunarvarnir. Í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir árin 2009–2020 kemur m.a. fram að stjórnir sorpsamlaganna hafa ákveðið að hætta urðun lífræns og brennanlegs úrgangs eigi síðar en árið 2020. Stefnt er að því að draga úr myndun úrgangs en meðhöndla lífrænan úrgang með gas- og jarðgerðarstöðvum eins og fært er.
 
Kostir hátækni við sorpbrennslu
 
Hátæknisorpbrennslustöðvum fylgja fjölmargir kostir. Með því að brenna sorp í hátæknibrennslustöð er sorpinu breytt í nýtanlega orku, raforku og hitaorku. Þá skila nýjustu hátæknisorpbrennslustöðvarnar tiltölulega lítilli loftmengun, langt innan þeirra marka sem leyfileg eru. Minna land fer til spillis og grunnvatn mengast síður. Rannsóknir sýna að kolefnisspor frá brennslu í háþróuðum sorpbrennslustöðvum reynist minna en af sorpi sem hlaðið er upp í landfyllingum.
 
Amagerstöðin
 
Ný hátæknisorpbrennslustöð á Amager í Kaupmannahöfn tók til starfa 2017. Gert er ráð fyrir að stöðin meðhöndli um 400 þús. tonn af úrgangi árlega sem stafar frá um 600 þús. íbúum og um 46 þús. fyrirtækjum. Úr úrganginum er unnið rafmagn og hiti til um 150 þús. heimila. Árið 2018 voru brennd 443 þús. tonn af sorpi í stöðinni sem gáfu af sér rúmlega eina milljón MWst. af hita og 169 GWst. af rafmagni. Hitinn við brennsluna er yfir 1000°C sem dregur úr mengun. Til marks um hversu mengunarlítil stöðin á Amager er hafa útveggir brennslunnar verið útbúnir sem klifurveggir og af þakinu munu liggja skíðabrekkur.
 
Verum ekki sóðar
 
Mikilvægt er að Íslendingar stígi skref í þá átt að endurvinna sem mest af því sorpi sem hér fellur til og eyða því sem eftir stendur með þeim hætti sem frekast er fallinn til að vernda náttúru og umhverfi. Þannig verði stuðlað að verndun náttúrunnar fyrir komandi kynslóðir og sýnt í verki að Íslendingar taki ábyrgð á að farga eigin sorpi með eins lítilli mengun fyrir umhverfið og nokkur kostur er.
 
Ráðherra láti kanna hagkvæmni brennslustöðvar
 
Greinarhöfundur hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar að umhverfisráðherra verði falið að kanna möguleika og hagkvæmni þess að reisa hátæknisorpbrennslustöð hér á landi. Slík stöð gæti meðhöndlað brennanlegt sorp frá landinu öllu. Í könnuninni yrði lagt mat á hvaða aðili (ríki, sveitarfélögin eða aðrir aðilar) stæði að byggingu og rekstri slíkrar stöðvar, hversu stór hún þyrfti að vera og hvar hagkvæmt væri að reisa hana, m.a. með hliðsjón af flutningi sorps milli landshluta. Við þessa könnun kæmi einnig til skoðunar hvort staðsetning á svokölluðum köldum svæðum væri hagkvæm eða þar sem raforkuframleiðsla inn á dreifikerfið gæti skipt miklu á svæðinu. Mikilvægt er í upphafi að kanna samstarfsvilja allra sveitarfélaga til verkefnisins. Jafnframt þarf að kanna hvaða verð væri unnt að bjóða fyrir förgun úrgangs. Þannig yrðu kannaðir kostir og gallar við byggingu og rekstur slíkrar stöðvar, með tilliti til förgunarkosta sem nú eru nýttir og ráðgert er að nýta. Gert er ráð fyrir að ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar fyrir 1. desember 2019.
 
Karl Gauti Hjaltason
Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi
kgauti@althingi.is 

Skylt efni: sorpbrennsla | sorpurðun | sorp

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...