Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ekki er vitað til þess að síld hafi verið nýtt hér á landi til forna en minnst er á síldveiðar Skallagríms í Noregi í upphafi Egils sögu. Myndin hér að ofan sýnir hins vegar síldveiðar í Eyrarsundi og er tréskurðarmynd úr riti Olavus Magnus frá árinu 1555
Ekki er vitað til þess að síld hafi verið nýtt hér á landi til forna en minnst er á síldveiðar Skallagríms í Noregi í upphafi Egils sögu. Myndin hér að ofan sýnir hins vegar síldveiðar í Eyrarsundi og er tréskurðarmynd úr riti Olavus Magnus frá árinu 1555
Á faglegum nótum 19. júní 2019

Bogið járn er menn kalla öngul

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Hetjur hafsins fá ekki mikið rúm í Íslendingasögunum eða öðrum fornritum. Sögurnar fjalla sem kunnugt er að mestu um þær hetjur sem vega mann og annan en ekki sjómenn sem draga björg í bú.

Fyrstu aldir Íslandsbyggðar var sjávarútvegur ekki útflutningsgrein en það átti eftir að breytast. Líklegt er að norrænir menn hafi sótt til Íslands fyrir eiginlegt landnám til að nýta rostungstennur og tennur hvala sem voru gersemar. Heimildir eru um að rostungstennur gátu hugsanlega einnig verið uppspretta auðs á þjóðveldisöld.

Mynd af handfæraveiðum úr Jónsbókarhandriti frá fyrri hluta 14. aldar, felld inn í upphafsstafinn Þ. Mynd / Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík / Jóhanna Ólafsdóttir.

Þótt fornritin séu fáorð um sjávarútveg er þó í þeim að finna stöku frásagnir þar sem vikið er að fiskveiðum og sjávarfangi. Mest er það þó í almennum orðum. Einnig má sjá báta í myndskreytingum í fornum ritum, bæði litla fiskibáta og einkum og sér í lagi báta sem voru í förum milli landa. Hins vegar eru teljandi á fingrum annarrar handar myndir og frásagnir sem lýsa því að einhverju gagni hvernig fiskveiðar fóru fram. Hér á eftir verður meðal annars staldrað við tvær skemmtilegar myndskreytingar í fornritum af handfæraveiðum og eina kostulega frásögn af því hvernig menn báru sig að við þessar veiðar. Einnig verður lítillega vikið að sögu sjávarútvegs á Íslandi á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.

Með færin úti og fiskar undir

Fyrri myndin sem hér um ræðir er í Jónsbókarhandriti frá öndverðri 14. öld og sýnir veiðar með handfæri á opnum báti. Jónsbók var lögbók Íslendinga og myndin er skreyting í upphafsstafi í kafla sem fjallar um reka. Báturinn er með rásegl og um borð eru tveir menn með hettur. Annar heldur um ár en hinn er með tvö færi úti og tveir fiskar hafa bitið á önglana. Ekki er hægt að greina hvaða fiskar þetta eru en ekki er ólíklegt að annar fiskurinn eigi að vera þorskur.

Síðari myndin er í Íslensku teiknibókinni, sem svo er kölluð, en hún er frá þriðja áratug 14. aldar og fram á 17. öld. Í henni er að finna myndefni sem notað var sem vinnubók og safn fyrirmynda fyrir listamenn. Á myndinni ægir mörgu saman. Í forgrunni er teikning af heilögum Georg drepa drekann. Á miðri myndinni er smámynd af fiskibáti á sjó og fiskar undir. Um borð í bátnum er maður sem rennir út tveim færum.

Bylting í atvinnuháttum á 14. öld

Fiskveiðar hófust hér við land strax við landnám. Alla landnáms- og þjóðveldisöld þjónuðu fiskveiðar Íslendinga fyrst og fremst þeim tilgangi að afla matar til neyslu innanlands. Væntanlega hafa fiskveiðar vegið sérstaklega þungt við öflun matvæla á fyrstu árum Íslandsbyggðar þegar menn voru að byggja upp bústofn.

Á landnáms- og þjóðveldisöld voru fiskveiðar jafnan mestar á vorin. Þannig féll sjávarútvegur best að landbúnaði. Útræði var mest stundað frá verstöðum á suðvestan- og vestanverðu landinu. Fiskurinn var þurrkaður en fyrst er getið um skreið í íslenskum heimildum um 1200. Skreiðin var lítið flutt út á fyrstu öldum Íslandsbyggðar en viðskipti með skreið voru töluverð innanlands. Útvegsbændur keyptu landvöru af sveitabændum í skiptum fyrir skreið.

Allt fram undir 1300 var sjávarútvegur ekki mikil útflutningsgrein. Vaðmál og svokallaðir vararfeldir voru aðalútflutningsvara Íslendinga fyrstu aldirnar. Á 14. og 15. öld verða miklar breytingar á atvinnulífi Íslendinga sem helst má líkja við byltingu. Við tekur fiskveiðiöld þar sem skreið verður aðalútflutningsvara þjóðarinnar. Á 14. öld hækkaði skreið mikið í verði og fiskveiðar gátu orðið uppspretta auðs eins og síðar verður vikið að.

50 fisktegundir í Snorra-Eddu

Algengustu sjófiskar voru væntanlega þorskur, ýsa, steinbítur, lúða og koli. Í fiskiþulu í Skáldskaparmálum Snorra Eddu eru taldar upp um 50 tegundir fiska en óvíst er hvort þær hafi allar verið nýttar. Ekki er vitað til þess að síld hafi verið veidd hér við land til forna en minnst er á síldveiðar í Noregi í upphafi Egils sögu þegar Skallagrímur „fór og oft um vetrum í síldfiski með lagnarskútu og með honum húskarlar margir“.

Íslendingar notuðu einungis handfæri til fiskveiða á sjó fyrstu aldirnar. Línuveiðar komu til sögunnar löngu seinna. Getið er um öngla í vísu í kafla í Bárðar sögu Snæfellsáss sem segir frá hrakningarferð Ingjalds nokkurs:

Út reri einn á báti
Ingjaldr í skinnfeldi.
Týndi átján önglum
Ingjaldr í skinnfeldi
og fertugu færi
Ingjaldr í skinnfeldi.
Aftr komi aldrei síðan
Ingjaldr í skinnfeldi.

Net þekktust vart nema þau sem voru lögð frá landi til að veiða sel, eða við vötn þar sem lax- og silungsveiðar voru stundaðar. Grettir Ásmundarson fór til dæmis upp á Arnarvatnsheiði og „fékk sér net og bát og veiddi fiska til matar sér“.

Menn virðast jafnvel hafa gert tilraun með fiskeldi á landnámsöld samanber Gull-Þóris sögu sem gerist á Vestfjörðum: „Þeir tóku fiska úr vatninu og báru í læk þann er þar er nær og fæddust þeir þar. Sá heitir nú Alifiskalækur. Þar varð í veiður mikil...“

Bátar og bátasmíð

Fiskibátar Íslendinga voru flestir litlir, hinir minnstu eins manns för en stærstu bátar voru tólfæringar. Væntanlega hafa menn notað eftirbáta í fyrstu til fiskveiða, en svo hétu þeir bátar sem landnámsmenn drógu með sér. Einnig hafa bátar verið smíðaðir sérstaklega til sjósóknar. Í Íslendingasögum segir fátt af skipasmíðum og efniviði til skipa en ætla má að þau hafi að miklu leyti verið smíðuð úr rekaviði.

Skallagrímur Kveldúlfsson var skipasmiður mikill og lét flytja til sín rekavið. Gísli Súrsson smíðaði skip þá er hann var í Hergilsey. Mikið er látið af leikni Króka-Refs sem skipasmiðs í sögu hans.

Öreigar verða fullríkir

Í lokin verður hér tilfærð elsta lýsing á handfærum og handfæraveiðum í fornum sögum. Textinn er nokkuð spaugilegur í augum manna nú til dags. Hann er að finna í Guðmundar sögu biskups sem Arngrímur Brandsson, ábóti á Þingeyrum, skrifaði um 1350. Þar segir: „…menn róa út á víðan sjá, og setjast þar, sem fjallasýn landsins merkir, eftir gömlum vana, að fiskurinn hafi stöðu tekið; þess háttar sjóreita kalla þeir mið; skal þá renna léttri línu út af borðveginum niður í djúpið ok festa stein með neðra enda að hann leiti grunns; þar með skal fylgja bogið járn; er menn kalla öngul, ok þar á skal vera agnið til blekkingar fiskinum; ok þann tíma sem hann leitar sér matfanga, ok yfir gín beituna, grefur oddhvasst og uppreitt járnið hans kjaft, síðan fiskimaðurinn kennir hans viðkomu og kippir að sér vaðinum, dregur hann svo að borði ok upp í skip; er þessi fjárafli svo guðgefinn, að hans tilferð er ei greiðari en nú var greind, og þó allt eins verður svo mikið megn þessarar orku, að öreigar verða fullríkir, má og öll landsbyggð síst missa þessarar gjafar, því að þurr sjófiskur kaupist og dreifist um öll héruð.“

Margt er merkilegt við þessa frásögn, sérstaklega það að öreigar eru sagðir verða fullríkir af fiskveiðum. Það er tímanna tákn og er hún staðfesting á því hvað sjávarútvegur var orðinn mikilvægur um miðja 14. öldina.

Heimildir:
Við samningu þessarar greinar hefur verið stuðst við Íslenska sjávarhætti, eftir Lúðvík Kristjánsson, Sögu Íslands IV bindi, rit Guðbjargar Kristjánsdóttur um Íslensku teiknibókina, Sögu sjávarútvegs á Íslandi eftir Jón Þ. Þór og fróðleik af vef Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...