Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Blikur á lofti
Skoðun 3. ágúst 2017

Blikur á lofti

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Eins og fram kemur hér í blaðinu eru þung ský yfir sauðfjárræktinni núna. Stærsti einstaki sláturleyfishafinn er að boða 35% lækkun á afurðaverði í haust þó að endanleg niðurstaða verði mögulega eitthvað skárri. Lækkun sem þessi þýðir að verð til bænda er að fara niður á það stig sem það var fyrir áratug. Verðið verður lægra en algengt afurðaverð til bænda á Nýja-Sjálandi eins og það er núna og það á núverandi gengi. 
 
Enginn launamaður í landinu myndi sætta sig við ef allt í einu væri tilkynnt með innan við mánaðar fyrirvara að nú ætti að fara að borga eftir tíu ára gömlum taxta. Neytendur hafa reyndar hagnast verulega á sama tíma. Það má sjá í gögnum Hagstofu Íslands að sá sem keypti lambakjöt fyrir andvirði klukkustundarvinnu árið 2008 er nú aðeins 37 mínútur að vinna fyrir sama magni. Það er sannarlega veruleg kjarabót – fyrir þá.
 
Greiðslum seinkar og Samkeppniseftirlitið hafnar samstarfi sláturleyfishafa
 
En þetta er ekki það eina. Jafnframt er boðað að greiðslum seinki. Síðustu ár hafa bændur almennt fengið sauðfjárinnlegg greitt í vikunni eftir sláturviku – innan við 14 dögum eftir að slátrað er. Það er ekki síður alvarlegt mál að það breytist. Sauðfjárbændur semja margir hverjir um að greiða afborganir lána strax í kjölfar greiðslu innleggs og/eða aðrar háar búrekstrartengdar greiðslur, svo sem áburð. Nú er það skyndilega allt í uppnámi og menn eru settir í þá stöðu að vera neyddir til að að leita ásjár sinna birgja eða viðskiptabanka fyrirvaralítið. Ekki nóg með að stefni í að greiðslan verði þriðjungi lægri – heldur kemur hún líka seinna og kallar á aukinn fjármagnskostnað. Það er ekki nokkur leið að sjá sólarglætu í þessari stöðu.
 
Á sama tíma hafnar Samkeppniseftirlitið að heimila að sláturleyfishafar starfi saman að útflutningi. Í undanþágubeiðni Markaðsráðs kindakjöts var lagt upp með ákveðnar en tímabundnar forsendur fyrir samstarfi. Því er hafnað og ekki horft til annars en beinharðrar frjálshyggju. Ég geri mér fulla grein fyrir því að til eru margir hér á landi sem vilja að markaðurinn ráði öllu – hvaða afleiðingar sem það hefur og hvað það kostar í raun, en við erum samt samfélag og rekum mörg verkefni sem ólíklegt er að markaðurinn myndi sinna. Það er örugglega einfalt fyrir Þórólf Matthíasson og félaga að reikna út að Ísland sé óhagkvæm rekstrareining – en það gera þeir ekki því þeir vita sem er að við viljum búa hér og við viljum reka hér samfélag. En Samkeppniseftirlitið heimilar enga samvinnu til að reyna að vernda hagsmuni heildarinnar – skítt með afleiðingarnar.
 
Bændur hafa átt í viðræðum við stjórnvöld um þennan vanda í marga mánuði.  Hann var fyrirsjáanlegur eins og ítarlega hefur verið fjallað um. Fátt hefur hefur komið fram af hendi stjórnvalda og engar efnislegar tillögur. Aðeins það að leggja til að sótt yrði um undanþágu til útflutningssamstarfs sem nú hefur verið hafnað. Ég er ekki viss um stjórnvöld skilji alvarleika málsins. Sauðfjárræktin er uppistaðan í mörgum viðkvæmustu byggðum landsins og ef ríkisstjórninni er ekki sama um þær líka, þá veit hún að vandinn hverfur ekki þó ekki sé brugðist við. Hann verður miklu stærri byggða- og samfélagsvandi.
 
Færustu vísindamenn hafa varað sterklega við innflutningi á hráu kjöti
 
Félag atvinnurekenda, sem er að stórum hluta hagsmunafélag heildsala í landinu, hefur róið að því öllum árum að opna fyrir innflutning á hráu kjöti og öðrum búvörum eins og ferskum eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Þrátt fyrir mótrök fjölda aðila úr heilbrigðisgeiranum, bænda og búvísindamanna o.fl. sem vara við óheftum innflutningi þá heldur sami málflutningur áfram, nú síðast með útgáfu skýrslu sem gerir lítið úr sérstöðu landbúnaðarframleiðslu hérlendis.
 
Það má spyrja hvort að það sé markmið FA að tala niður íslenska matvælaframleiðslu og störf bænda? Meira að segja gerir félagið lítið úr því sem er óumdeilanlega vel gert í íslenskum landbúnaði sem er til dæmis lítil sýklalyfjanotkun. Niðurstaða þeirra virðist vera að vegna þess að þeir telji að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af ýmsum öðrum þáttum en sýklalyfjum í landbúnaði, þegar kemur að sýklalyfjaóþoli í mönnum, þurfum við ekkert að spá í sýklalyfjanotkun þar. Í þeim löndum þar sem notkunin í landbúnaði er mest er hún mörgum tugum sinnum meiri en hér. Bændur trúa því ekki að Íslendingar hafi áhuga á því að flytja inn kjöt frá löndum þar sem sýklalyfjanotkun er uppi í skýjunum og framleiðsluaðstæður og dýravelferð ólík því sem hér tíðkast og við sættum okkur við.
 
Prófessor ósammála skýrsluhöfundum
 
Eftir útgáfu skýrslu FA steig Karl G. Kristinsson fram, en hann er prófessor í sýklafræði við læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir Sýklafræðideildar Landspítalans. Hann var í stuttu máli ósammála meginályktunum höfunda skýrslu Félags atvinnurekenda. Hann furðaði sig á því að ekki hefði verið leitað til sérfræðinga í smitsjúkdómum og sýklavörnum við gerð skýrslunnar. Hann sagði það ótvírætt að sýklalyfjaónæmar bakteríur geti borist með matvælum – það er óumdeilt. Hann hefur einnig sagt að aukinn innflutningur muni fjölga sýkingum í mönnum og auka líkurnar á því að nær alónæmar bakteríur nái hér fótfestu.
 
Hér er einangrun búfjárkynja og þar með lág mótefnastaða gegn sjúkdómum, jafnvel sjúkdómum sem valda litlum eða engum einkennum í öðrum búfjárkynjum á meginlandinu. Hætta er á að alvarleg skörð verði höggvin í íslensku búfjárkynin og þar með verði líffræðilegum fjölbreytileika ógnað sem og þeim menningararfi sem felst í íslensku búfjárkynjunum. Það er spurning hvort Félag atvinnurekenda eða þeirra félagsmenn myndu vilja bera ábyrgð á slíku á okkar tímum. Hver kæmi til með að standa uppi með tjónið?  Hér er enginn tryggingarsjóður til að bæta slíkt eins og til er sumstaðar erlendis.
 
Í skýrslunni er því haldið fram að frystiskylda á innfluttu kjöti eigi ekki við vísindaleg rök að styðjast og að afnám hennar hefði óveruleg áhrif á dýraheilbrigði og lýðheilsu á Íslandi. Karl G. Kristinsson segir frystiskylduna þvert á móti hafa mikilvæg áhrif og bendir m.a. á að Ísland sé með lægstu tíðni kampýlóbakter í Evrópu. Það liggur í augum uppi að innflutningur á t.d. ferskum kjúklingi myndi væntanlega auka neyslu á innfluttum kjúklingum. Það þarf engar vísindalegar aðferðir til að sanna það að aukning á neyslu á kampýlóbaktermenguðum kjúklingi muni fjölga matarsýkingum í mönnum. Það yrði dýrkeypt fyrir okkur og það er engin ástæða til að taka óþarfa áhættu.
Aspir og wasabi ræktuð samhliða
Fréttir 24. maí 2024

Aspir og wasabi ræktuð samhliða

Nordic Wasabi er um þessar mundir að setja á innanlandsmarkað frostþurrkað wasab...

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“
Fréttir 24. maí 2024

„Bjart fram undan og afurðaverð á uppleið“

Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatnssýslu, er bjarts...

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu
Fréttir 24. maí 2024

Fóðra mjölorma til fóður- og matvælaframleiðslu

Í samstarfsverkefni Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnið að því a...

Samdráttur samfélags
Fréttir 23. maí 2024

Samdráttur samfélags

Póstþjónusta landsmanna hefur verið hitamál svo lengi sem menn muna og ekki síst...

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal
Fréttir 22. maí 2024

Fleiri kostir, meiri sveigjanleiki og bætt nýtni það sem koma skal

Út er komin skýrslan Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar. Hún hefur að...

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu
Fréttir 22. maí 2024

Bændur ársins í Norður-Þingeyjarsýslu

Ábúendurnir í Hafrafellstungu í Öxarfirði fengu nafnbótina Bændur ársins 2023 í ...

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur
Fréttir 22. maí 2024

Mikilvægt að bæta merkingar fyrir neytendur

Herdís Magna Gunnarsdóttir, nautgripabóndi á Egilsstöðum og stjórnarmaður í Bænd...

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva
Fréttir 22. maí 2024

Verður milliliður milli ræktenda og kornstöðva

Starfsemi Kornræktarfélags Suðurlands var endurvakin á fundi kornbænda í Gunnars...