Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ánamaðkar eru bestu vinir garðeigandans.
Ánamaðkar eru bestu vinir garðeigandans.
Á faglegum nótum 16. mars 2018

Besta mold sem völ er á

Höfundur: Vilmundur Hansen

Áhugi á jarðgerð hefur aukist mikið og margir garð- og sumarhúsalóðaeigendur eru með safnhaug í þeim tilgangi að nýta lífrænan úrgang sem fellur til úr eldhúsinu og garðinum.

Góð safnhaugamold er besta mold sem hægt er að fá og fólk ætti hiklaust að stunda jarðgerð ef það hefur aðstöðu til.

Ýmsar aðferðir eru þekktar þegar kemur að jarðgerð og mismunandi hver þeirra hentar á hverjum stað. Algengast er að garðeigendur komi sér upp einum eða fleiri kössum fyrir lífrænan úrgang og hann sé látinn jarðgerast í þeim. Hægt er að velja á milli þess að kassinn sé einfaldur, eða lokaður og einangraður.

Jarðgerð í einföldum kassa kallast köld jarðgerð en heit í lokuðum og einangruðum kassa og gengur sú mun hraðar fyrir sig.

Einföld jarðgerðartunna úr plasti. 

Staðsetning jarðgerðar

Staðsetning safnkassa ræðst af skipulagi garðsins en koma þarf kassanum fyrir á hlýjum og skjólgóðum stað þar sem auðvelt er að komast að honum. Kassinn þarf að standa á möl eða moldarjarðvegi og gott er að setja greinar í botninn þannig að jarðvegsdýr eigi auðveldan aðgang upp í hann.

Hvað má og má ekki fara í kassann?

Til jarðgerðar í opnum kassa má nota flest sem fellur til úr garðinum, fyrir utan rótarillgresi eins og húsapunt, skriðsóley og túnfífil, eða illgresi eins og krossfífil og dúnurtir sem hæglega geta þroskað fræ í safnhaugnum. Nýslegið gras, ekki meira en 20%, lauf, smáar greinar, barr, visnuð blóm og þurrt hey má allt fara í safnhauginn.

Lokuð jarðgerðartunna hentar betur fyrir úrgang úr eldhúsinu í tunnuna má setja salat og kál, rótargrænmeti, hýði af ávöxtum og kartöflum, eggjaskurn, brauð, te- og kaffikorg, eldhúspappír, fisk- og kjötafganga. Varast skal að setja fisk- og kjötafganga í opinn safnhaug þar sem slíkt getur laðað að sér óæskileg nagdýr.

Best að blanda öllu saman

Þegar lagt er af stað með jarðgerð er gott að setja um 15 sentímetra lag af misgrófum greinum í botninn á kassanum og mikið af þurru efni, til dæmis heyi, í neðsta lagið. Best er að hafa úrganginn sem fer í kassann sem smágerðastan og hræra öllu vel saman. Ef ekki er hægt að hræra í kassanum þarf að fylla á hann í þunnum lögum og gott er að setja mold eða þurran garðaúrgang á milli laga.

Þriggja hólfa opin jarðgerð.

Auka má loftun í kassanum með því að stinga í hann með stungugaffli af og til. Til að flýta fyrir jarðgerðinni er gott að sáldra gamalli, fíngerðri moltu eða þurru hænsnadriti á milli laga.

Þumalfingursreglan segir að ef sett sé í kassann ein fata af grænmeti skuli setja með 1/3 af þurru efni, til dæmis heyi. Komi sterk rotnunarlykt úr kassanum er efnið í honum líklega of blautt. Yfirleitt er nóg að blanda þurru heyi eða sagi í innihald hans til að laga þetta.

Við aðstæður sem þessar ætti jarðgerðin að taka 8 til 10 mánuði í lokuðum einangruðum kassa en nokkrum mánuðum lengur í einföldum óeinangruðum kassa eða tunnu.

Lífið í jarðgerðinni

Til þess að jarðgerðin eigi sér stað er þrennt sem þarf að koma til. Vatn, súrefni og hiti. Örverurnar sem umbreyta efninu í kassanum í jarðveg þurfa vatn svo að lífsstarfsemi þeirra sé eðlileg. Of mikið vatn getur aftur á móti hægt á starfseminni þar sem það dregur úr súrefni sem er einnig nauðsynlegt svo að niðurbrot geti átt sér stað. Við jarðgerðina myndast hiti og hann örvar niðurbrotið enn frekar.

Hæfilegt rakastig í kassanum er þegar efnið er eins og blautur svampur viðkomu eða með 50 til 60% raka. Fari rakastigið niður fyrir 30% stöðvast starfsemi örveranna og jarðgerðin hættir.

Ef vel tekst til við jarðgerðina safnast í kassann ógrynni af jarðvegslífverum,  ánamaðkar, járnsmiðir, þúsundfætlur og grápöddur sem aðstoða við og flýta fyrir niðurbrotinu.

Vel heppnuð safnhaugamold er besta mold sem hægt er að hugsa sér. Hún er iðandi af lífi, full af næringarefnum og lífrænum efnum á mismunandi stigi  moltnunar. Nota má safnhaugamold til að auka frjósemi garðsins með því að dreifa henni yfir beð eða grasflötina í þunnu lagi. Hún er einnig tilvalin með þegar settar eru niður hvers konar plöntur. Í öllum tilvikum verður að blanda moltu eða safnhaugamold saman við moldina sem fyrir er.

Trékassi með garðaúrgangi.

Skylt efni: Jarðgerð | safnhaugur

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...