Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Síðsumarkvöld á Bessastöðum.
Síðsumarkvöld á Bessastöðum.
Mynd / HKr.
Fræðsluhornið 28. júní 2016

Bessastaðir − stærsta jörðin á nesinu

Höfundur: Ólafur Rúnar Dýrmundsson
Nú líður að forsetakosningum og  er við hæfi að minnast þess að forseti Íslands hefur frá upphafi setið ágæta bújörð á Álftanesi, þá stærstu þar, nú í sveitarfélaginu Garðabæ. 
 
Þá er vert að hafa í huga að ekki er langt liðið síðan veruleg sjósókn og landbúnaður einkenndu Álftanesið en síðustu áratugina hefur þéttbýlismyndun tekið yfir og ásýnd nessins hefur gjörbreyst. 
 
Nábýli við konungsvaldið
 
Um aldir voru Álftnesingar í nábýli við konungsvaldið eða allt til 1804. Lengi voru á Bessastöðum hirðstjórar, höfuðsmenn og fógetar en síðar amtmenn og  landfógetar.
 
Flestir voru þessir fulltrúar Danakonungs danskir eða norskir. Þeir voru misvel látnir, sumir hinir mætustu menn sem sinntu ýmsum framfaramálum þeirra tíma, en nokkrir voru til vandræða, þótt ekki sé meira sagt. Lengi vel var húsakostur lélegur, mest úr timbri en að hluta úr torfi. Fyrst mun hafa verið byggt á Bessastöðum hús úr steini upp úr miðri 18. öld og steinkirkja var reist þar skömmu síðar. Öll gripahús voru úr torfi, grjóti og timbri fram á öndverða 20. öld, líkt og annars staðar á landinu.
 
Tengsl við Bessastaðaskóla
 
Á Álftanesi voru mikil tengsl við Bessastaðaskóla sem stóð þar frá 1805–1846 og var forveri Menntaskólans í Reykjavík.
 
Í Bessastaðaskóla var kennt á íslensku en ekki latínu eins og áður var venjan, og bjuggu flestir kennararnir á jörðum þar á nesinu, sumir blómlegum búskap. Í Bessastaðaskóla voru í læri ýmsir þeirra sem urðu síðar þekktir í þjóðarsögunni, svo sem Jónas Hallgrímsson, Konráð Gíslason, Tómas Sæmundsson og Benedikt Gröndal. Að minnsta kosti einhver hluti matarins sem skólasveinar neyttu kom af nesinu, bæði frá Bessastöðum og öðrum jörðum, sennilega mest kjöt, mjólk og fiskur en grænmetis er ekki mikið getið þótt á Bessastöðum og öðrum jörðum á Álftanesi hafi verið töluverð garðrækt  á seinni hluta 18. aldar.  Sagan segir að í Bessastaðaskóla hafi sýra verið vinsæll svaladrykkur enda vatnsból ekki gott, en vín var sjaldan um hönd haft og sælgæti lítið.
 
Landgæði á Álftanesi
 
Miðað við landgæði í Gullbringu­sýslu töldust þau ágæt á Álftanesi, ekki síst á Bessastöðum sem er landnámsjörð. Jörðunum þar mætti lýsa, í sem fæstum orðum, sem láglendum sjávarjörðum með all vel gróið land, mest valllendi en þó einnig nokkurt mýrlendi, þar sem saman fór ágæt land- og fjörubeit á öllum árstímum enda snjólétt í flestum vetrum.  Sauðfé varð þó aldrei margt á nesinu.
 
Afréttanot komu áður að gagni í hraunum og fjalllendi ofan Garðabæjar og Hafnarfjarðar.  Álftanesið hefur nú verið fjárlaust um skeið en hefur beitarrétt í girðingarhólfi í Krýsuvík. Heildarstærð nessins er tæplega 600 hektarar, jarðir eru fremur landlitlar, en Bessastaðir eru og voru þeirra stærst, um 170 hektarar, sem getur talist meðaljörð á íslenskan mælikvarða. Mikil tún- og garðrækt var á Álftanesi en stærsta túnið var á Bessastöðum, 50 hektarar. Þá má ekki gleyma verulegum hlunnindum svo sem eggjatöku og æðarvarpi, sérstaklega í Bessastaðanesi.
 
Sjósókn  frá Álftanesi
 
Á meðal framfara í atvinnuháttum á Álftanesi var sjósókn, sem var orðin veruleg á seinni hluta 18. aldar og efldist mjög á 19. öld. Var svo komið að fiskveiðar voru orðnar undirstaða hagsældar á nesinu fram undir aldamótin 1900. Þá urðu þáttaskil þegar ofveiði innlendra sem erlendra sjómanna á Faxaflóa leiddi til þess að sjósókn lagðist nær alveg af á Álftanesi og landbúnaður, einkum mjólkurframleiðsla og garðrækt, tók við. Þar voru  lengi vel sannkallaðir útvegsbændur. Einn þeirrra var dr. Grímur Thomsen, sem var ásamt konu sinni, Jakobínu Jónsdóttur, með ágætan blandaðan búskap á Bessastöðum 1868–1896 en jörðina hafði hann keypt eftir þrjátíu ára dvöl í Danmörku við nám og embættisstörf. Hann lét fiskveiðimálin til sín taka og skrifaði m.a. í blöð um fiskveiðisamþykktir fyrir Faxaflóasvæðið.
 
Eignarhald og búseta á Bessastöðum
 
Allt frá  1868–1941 voru Bessastaðir í einkaeign. Er eigendasaga Bessa­staða merkur þáttur í sögu jarðarinnar.
 
Smám saman var verið að rækta land og bæta húsakost á öllu þessu tímabili. Þar komu við sögu, auk dr. Gríms Thomsen, þeir Skúli Thoroddsen ritstjóri, Jón H. Þorbergsson, bóndi og sauðfjárræktarráðunautur, Björgúlfur Ólafsson læknir og Sigurður Jónasson forstjóri sem gaf ríkinu jörðina vorið 1941, þá talin til höfuðbóla. Urðu Bessastaðir þá bústaður Sveins Björnssonar, ríkisstjóra og fyrsta forseta frá lýðveldisstofnun 1944. Þannig var forsetum lýðveldisins ekki í kot vísað. Í hugum nútímafólks eru Bessastaðir því fyrst og fremst embættisbústaður forsetanna fremur en bújörð. Líkt og á Álftanesinu í heild var þó mikill búskapur á Bessastöðum, einkum nautgripa- og hænsnarækt, allt fram á síðustu áratugi 20. aldar.
 
Breyting úr sveit í þéttbýli 
 
Óvíða á landinu hefur sveitarbyggð breyst jafn hratt í þéttbýlissamfélag og Álftanes, mest um og upp úr síðustu aldamótum. Jafnframt hefur íbúafjöldinn margfaldast. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var skráð samtals  21 jörð á Álftanesi og í Jarðatali 1940 er gefin heyuppskera á 21 jörð, þó ekki á öllum þeim sömu og 1703.
 
Í meðfylgjandi töflu eru taldar upp í stafrófsröð helstu jarðirnar þar sem enn var stundaður venjulegur sveitabúskapur fram eftir 20. öldinni og á sumum fram yfir síðustu aldamót. Sem dæmi um þróunina má geta þess að samkvæmt forðagæsluskýrslum Búnaðarfélags Íslands voru árið 1965 samtals 647 vetrarfóðraðar kindur á Álftanesi. Þrjátíu árum síðar voru þær aðeins 33 og upp úr aldamótunum var orðið fjárlaust. Skömmu áður fóru síðustu kýrnar og var Sviðholt síðasta býlið með mjólkursölu og fjárbúskap á nesinu.  Hrossaeign fór aftur á móti vaxandi á þessum árum og hefur sérstakt hesthúsahverfi verið á Álftanesi um margra ára skeið. Dálítið er um hænsni til heimilisnota en ekki er mikið eftir af túnum til að heyja, nema á Bessastöðum. Þar hefur búskapur í raun aldrei lagst af því að tún eru heyjuð, úthagabeit er leigð fyrir reiðhesta og æðarvarp er nytjað sem fyrr.
 
Á meðal fróðlegra rita um sögulega þróun á Álftanesi er vert að benda á bók sem heitir Álftnesinga saga, Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir, eftir Önnu Ólafsdóttur Björnsson sagnfræðing sem Bókaútgáfan Þjóðsaga gaf út 1996.
 
Höfundur:
Dr. Ólafur Rúnar Dýrmundsson,
fyrrverandi landsráðunautur hjá Bænda­samtökum Íslands, nú sjálfstætt starfandi búvísindamaður, oldyrm@gmail.com).

3 myndir:

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...