Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Mynd / TB
Fréttir 20. september 2017

Bændur vilja 650 milljónir króna vegna kjaraskerðingar

Höfundur: TB

Fulltrúar aðildarfélaga Landssamtaka sauðfjárbænda komu saman í Bændahöllinni í gær og funduðu um aðgerðir vegna vanda sauðfjárræktarinnar. Fyrir fundinum lá að bregðast við tillögum landbúnaðarráðherra og leggja fram ályktun um framhaldið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fráfarandi landbúnaðarráðherra, mætti á fundinn og hélt ræðu þar sem hún fór yfir atburðarás síðustu mánaða og rökstuddi tillögur sínar.

Fram kom í máli hennar að ýmsir agnúar hefðu verið sniðnir af fyrri tillögum, m.a. er vörðuðu greiðslur til þeirra sem vildu hætta sauðfjárframleiðslu með öllu. Síðar á fundinum var tillögunum dreift. Forysta sauðfjárbænda mat það hins vegar sem svo að ráðherra hefði ekki pólitískt bakland til þess að koma málinu áfram og því voru tillögur Þorgerðar Katrínar aldrei teknar til efnislegrar umfjöllunar eða afgreiðslu á fundinum. Þess í stað samþykkti fundurinn tillögur um aðgerðir í átta liðum. Ljóst er að til þess að þær nái fram að ganga þarf nánara samtal við þau stjórnvöld sem taka við að loknum alþingiskosningum. Það er því ekkert í hendi ennþá um lausnir og ekkert hægt að segja um mótvægisaðgerðir, t.d. vegna mögulegrar fækkunar sauðfjár. Bændur eru þannig enn um sinn í lausu lofti um hvað verða skal.


Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Greiðslur vegna kjaraskerðingar

Fundurinn leggur til að bændur eigi kost á greiðslum sem miðist við innlögð kíló dilkakjöts árið 2017. Markmið aðgerðanna eru að koma í veg fyrir hrun í greininni og stórfellda byggðaröskun. Skilyrði fyrir þessum greiðslum verði m.a. að viðkomandi framleiðandi búi á lögbýli og hafi fleiri en 100 vetrarfóðraðar kindur samkvæmt skráningu Matvælastofnunar haustið 2016. Þetta yrði einsskiptisaðgerð og hugsuð til að bæta að hluta kjaraskerðingu sem er tilkomin vegna lækkunar á afurðaverði haustsins 2017. Aðgerðin verði fjármögnuð með sérstöku 650 m.kr. framlagi ríkisins.

Úttekt á virðiskeðjunni

Sauðfjárbændur vilja að atvinnuvegaráðuneytið láti vinna vandaða úttekt á allri virðiskeðjunni í sauðfjárrækt frá bónda til neytenda. Óska þeir eftir samstarfi við undirbúning verkefnisins og leggja áherslu á að hrinda því í framkvæmd sem fyrst. Niðurstöður úttektarinnar eiga að nýtast við endurskoðun búvörusamninganna.

Aðgerðir vegna skuldamála

Lagt er til að Byggðastofnun kanni þörf á endurfjármögnun eða lengingu lána skuldsettra bænda, einkum þeirra sem hafa nýlega hafið sauðfjárbúskap. Stofnunin geri tillögur að aðgerðum og kostnaðarmeti þær. Markmið þessarar aðgerðar er að forðast gjaldþrot eða brottfall yngri bænda úr greininni.

Birgðir og markaðir

Stjórnvöld beiti sér fyrir að fram fari úttekt á birgðum sauðfjárafurða svo sem um samsetningu þeirra, líklegt verðmæti og eignarhald. Slík úttekt er gerð í því skyni að fá fyllri upplýsingar um stöðuna á kjötmarkaði og meta líklegan árangur af þeim aðgerðum sem ríkið og sauðfjárbændur hafa og munu sammælast um. Skoðuð verði þróun á verðmyndun sauðfjárafurða. Gripið verði til aðgerða sem tryggja bændum eðlilega hlutdeild í verðmyndun afurða.

Kolefnisverkefni

Fundur sauðfjárbænda leggur til að ráðist verði í sérstakt kolefnisbindingarátak í samvinnu sauðfjárbænda og stjórnvalda. Markmiðið er að nýta krafta bænda til að vinna að markmiðum Íslands í loftslagsmálum með samdrætti í losun og aukinni bindingu með uppgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis og öðrum aðgerðum. Fyrir liggur að stjórnvöld þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir verulegar fjárhæðir á komandi árum og þetta verkefni gefur færi á að nýta þá fjármuni hér innanlands. Um endanlega útfærslu verði samið við umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Sveiflujöfnun á markaði

Miklar umræður fóru fram á fundinum um útflutningsskyldu en bændur og sláturleyfishafar hafa óskað eftir að stjórnvöld fari þá leið til þess að vinna á birgðavandanum. Skoðað verði að lögleiða heimild til landbúnaðarráðherra til íhlutunar í lambakjötsmarkaðinn þegar óeðlilegar sveiflur eiga sér stað. Þá verði hægt að nýta slíka heimild til að tryggja nægt framboð lambakjöts á innanlandsmarkaði ef skilyrði til útflutnings eru góð og forðast þannig skortsástand sem gæti leitt til mikillar hækkunar á verði til neytenda. Leitast verði við að setja inn mælikvarða með því sjónarmiði að þessar aðgerðir verði almennar við fyrirfram skilgreindar aðstæður.

Vöruþróun og vöruframboð sauðfjárafurða

Fundurinn felur stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda að koma á samráðshópi sem ynni að vöruþróun og vöruframboði sauðfjárafurða, bændum og neytendum til heilla. Lagt er til að hópinn skipi fulltrúar bænda, sláturleyfishafa, verslunar og neytenda.

Tillögum landbúnaðarráðherra hafnað

Eins og áður sagði hafnaði forysta sauðfjárbænda tillögum ráðherra. Fundurinn telur ljóst að framkomnar tillögur landbúnaðarráðherra til að taka á vanda sauðfjárbænda muni ekki ná fram að ganga fyrir kosningar en hvetur stjórnir LS og BÍ að vinna áfram að framgangi þessara mála með stjórnvöldum. Fram kom í ályktun fundarins að æskilegt væri að niðurstaða fengist í málið fyrir lok árs 2017. 

Fundurinn ályktaði um fleira

Auk tillagna um aðgerðir til lausnar rekstrarvanda sauðfjárbænda var ályktað um afurðaverð, um niðurtröppun beingreiðslna, útflutning og um skýrslu Byggðastofnunar.

Telja ekki forsendu fyrir 35% afurðaverðslækkun

Fundurinn skoraði á sláturleyfishafa að endurskoða afurðaverð til bænda nú þegar. Í ljósi nýrra upplýsinga um birgðir telur fundurinn ekki ástæðu fyrir allt að 35% afurðaverðslækkun. Framkomið afurðaverð sé algjör forsendubrestur fyrir rekstri sauðfjárbúa.

Ályktun um stöðvun á niðurtröppun beingreiðslna var tilkomin vegna þess að sýnt þykir að markmið sem sett voru í sauðfjársamning munu ekki nást. Að óbreyttu myndu beingreiðslur lækka um næstu áramót sem fundurinn telur ekki raunhæft miðað við núverandi aðstæður og auka enn á vanda margra bænda.

Fundurinn ályktaði að auki um fyrirkomulag útflutnings á sauðfjárafurðum. Lagt var til að sláturleyfishafar störfuðu miðlægt að útflutningi í samstarfi við Icelandic lamb. Mikilvægt væri að vinna við markaðssetningu á erlenda markaði væri skilvirk og með langtímamarkmið í huga. Þar yrði fyrst og fremst horft til stöðugri velborgandi markaða sem byggja á uppruna og heilnæmi vörunnar.

Að lokum ályktaði fundurinn um skýrslu Byggðastofnunar um stöðu sauðfjárræktarinnar þar sem hvatt var til þess að stjórn LS og BÍ hafi hana til hliðsjónar í komandi viðræðum við stjórnvöld.

Ítarefni: Uppfærðar tillögur stjórnvalda
Þungt var yfir fulltrúum sauðfjárbænda á aukafundi LS. Í umræðum leyndu áhyggjur þeirra sér ekki. Það væri ekki í boði „að gera ekki neitt“ en tillögur stjórnvalda um aðgerðir væru alltof seint fram komnar. 
 

Svínaflensa í Rússlandi
Fréttir 27. september 2022

Svínaflensa í Rússlandi

Afríska svínaflensan greindist á stóru rússnesku svínabúi í lok sumars. ...

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið
Fréttir 30. ágúst 2022

Hækkun upp á 35,5 prósent að meðaltali fyrir dilka yfir landið

Uppfærslur á verðskrám sláturleyfishafa, vegna sauðfjárslátrunar 2022, halda áfr...

Fjár- og stóðréttir 2022
Fréttir 25. ágúst 2022

Fjár- og stóðréttir 2022

Fjár- og stóðréttir verða nú með hefðbundnum brag, en tvö síðustu haust hafa ver...

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...