Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Bændur verndaðir gegn óréttmætum viðskiptaháttum
Lesendarýni 12. september 2018

Bændur verndaðir gegn óréttmætum viðskiptaháttum

Höfundur: Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi
Þegar ég starfaði fyrir stjórnar­svið landbúnaðarmála og dreif­býlisþróunar hjá fram­kvæmdas­tjórn Evrópu­sam­bandsins á árunum 2004 til 2010 kröfðust margir bændur, einkum kúabændur, þess að njóta verndar gegn því sem þeir töldu vera óréttmæta viðskiptahætti. 
 
Bændunum, sem gjarnan voru einyrkjar eða störfuðu í litlum samvinnufélögum, fannst þeir fara halloka gagnvart stóru smásölukeðjunum og efndu til mótmæla til að vekja athygli á ástandinu.
 
Á meðal þeirra aðgerða sem Mariann Fischer Boel, yfirmaður landbúnaðarmála hjá framkvæmdastjórninni, greip til var að setja á fót samstarfsvettvang til að rannsaka það sem betur mætti fara í matvælakeðjunni. Þetta starf leiddi til þess að lagðar voru fram siðareglur á vegum SCI (Supply Chain Initiative), framtaksverkefnis evrópskra hagsmunasamtaka í matvælaiðnaði þar sem fulltrúar matvælageirans, merkjavöruframleiðenda, smásala, lítilla og meðalstórra fyrirtækja og aðila í landbúnaði eiga fulltrúa.  
 
Markmiðið með reglunum er að stuðla að sanngjörnum viðskiptaháttum í matvælakeðjunni. SCI vill enn fremur tryggja að fyrirtæki útkljái deilur á sanngjarnan og gagnsæjan máta og án þess að umkvartendur þurfi að óttast hefndaraðgerðir.
 
Þetta framtak einkageirans hefur borið nokkurn árangur, en nú orðið tímabært að bæta um betur með því að setja lagareglur og gefa landsyfirvöldum færi á að grípa til refsiaðgerða gegn þeim sem gerast brotlegir við reglur.   
 
Markaðurinn klikkar stundum
 
Nýlegar skoðanakannanir sýna að almenningur er sammála um að bændur skuli fá sanngjarna greiðslu fyrir afurðir sínar, að neytendur eigi að greiða sanngjarnt verð og að smásalar eigi sömuleiðis að njóta sanngjarnrar hlutdeildar. Bændur geta þá haldið áfram að fjárfesta í nýsköpun og framleiða afurðir sem uppfylla kröfur neytenda hvað varðar gæði og siðlega framleiðsluhætti. 
 
Því miður er það stundum svo að markaðurinn getur ekki skapað sanngjarnt viðskiptaumhverfi vegna þess að einn aðilinn er svo miklu öflugri en hinir. Og ef markaðurinn getur ekki tryggt bændum sanngjarnt verð, hvernig er þá hægt að betrumbæta markaðinn þannig að landbúnaður verði áfram arðbær og gefi kost á nýsköpun? 
 
Valdaójafnvægi verslunar og bænda
 
Í evrópska matvælageiranum eru skýr merki um valdaójafnvægi á milli aðila í matvælakeðjunni. Ég veit að þessi mál hafa einnig verið til skoðunar á Íslandi. Evrópusambandið hefur nú ákveðið að grípa til markvissra aðgerða til að finna viðeigandi lausnir.
 
Í matvælakeðjunni eru það gjarnan sjálfstæðir bændur sem eru einkar berskjaldaðir gagnvart óréttmætum viðskiptaháttum þar sem þeir eiga oft ekki annarra kosta völ en að reiða sig á stórar smásölukeðjur eða heildsala til að koma vörum sínum til neytenda. 
 
Þessir smásalar verða sífellt stærri, færri og valdameiri. Framleiðendur og birgjar eru hins vegar enn af öllum stærðum og gerðum, allt frá einyrkjum og fjölskyldubýlum til alþjóðlegra stórfyrirtækja. Mikill meirihluti evrópskra framleiðenda eru litlir eða meðalstórir og það ætti að vera pláss á markaði fyrir alla slíka birgja, burtséð frá stærð þeirra eða samningsstyrk. Á heilbrigðum markaði gætu framleiðendur valið úr fjölda kaupenda.
 
Aðgerðir ESB
 
Það hefur reynst erfitt að setja reglur um óréttmæta viðskiptahætti þar sem samkeppnisréttur tekur ekki endilega til þess hvað sé „sanngjarnt“ eða „óréttmæt“ heldur til aðstæðna þar sem einn eða fáir aðilar eru ráðandi á markaði. 
 
Phil Hogan, núverandi yfirmaður landbúnaðarmála hjá ESB, lagði nýlega til löggjöf til að styrkja stöðu bænda í matvælakeðjunni og berjast gegn óréttmætum viðskiptaháttum í Evrópu. Á meðal þess sem lagt er til að banna er dráttur á greiðslum fyrir vörur sem hætt er við skemmdum, afpantanir á síðustu stundu, einhliða eða afturvirkar samningsbreytingar og kvöð á birgjum til að greiða smásölum fyrir óseldar vörur eða þær sem hafa rýrnað. 
 
Aðrir viðskiptahættir verða einungis heimilaðir ef til staðar er skýrt samkomulag milli aðila, t.d. um skil á óseldum matvörum til birgja eða framleiðenda, greiðslur framleiðenda til smásala til að tryggja eða viðhalda birgðasamningum og greiðslu framleiðanda eða birgis fyrir kynningu á þeim matvælum sem verslunin selur.
 
Samkvæmt löggjöfinni yrði öllum Evrópulöndunum skylt að útnefna eftirlitsstofnun sem sér um að framfylgja nýju reglunum og getur gripið til viðeigandi refsiaðgerða eftir atvikum. Þetta mun tryggja bæði skilvirkni og sanngirni og að tekið sé á vandamálum í landinu þar sem þau koma upp. Auk þess geta ESB-ríkin sjálf gengið lengra en þessar lágmarksreglur segja til um. 
 
Bóndinn beri ekki byrðina einn
 
Í nútímasamfélagi er ætlast til þess að bændur lagi sig stöðugt að óskum neytenda, sem leggja síauknar kröfur á herðar þeirra um gæði, uppruna, lífrænar afurðir og sjáfbærni. Um leið eru gerðar sífellt meiri kröfur til bænda um að halda verði niðri. Bændur geta þó ekki einir borið allan kostnað af þróun og nýsköpun.
 
Síðustu átta árin hefur framkvæmdastjórn Evrópu­sambandsins unnið að því að bæta starfsumhverfi bænda. Nú í desember var samþykkt að auðvelda bændum að gera sameiginlega kjarasamninga til að bæta stöðu sína í matvælakeðjunni. Næsta skref verður að berjast gegn óréttmætum viðskiptaháttum, eins og ég minntist á hér að ofan, en þriðja skrefið, átak til að auka gagnsæi, fylgir í kjölfarið síðar í ár.
 
Þessar aðgerðir koma til með að styrkja stöðu bænda í matvælakeðjunni og skapa sanngjarnara og gagnsærra viðskiptaumhverfi, bændum, neytendum og samfélaginu öllu til hagsbóta.
 
Michael Mann,
sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi
Forvarnir gegn hófsperru verði hluti af ábyrgu hestahaldi
Fréttir 20. júní 2025

Forvarnir gegn hófsperru verði hluti af ábyrgu hestahaldi

Hófsperra er kvalafullur sjúkdómur í hrossum sem sífellt er að verða algengari h...

Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum
Fréttir 20. júní 2025

Eyjalín sópaði að sér verðlaunum á Skeifudeginum

Skeifudagurinn fór fram í blíðskaparveðri sumardaginn fyrsta á Hvanneyri þar sem...

Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili
Fréttir 19. júní 2025

Lítill vöxtur í kjötframleiðslu á tólf mánaða tímabili

Samkvæmt nýlegum gögnum Hagstofu Íslands var heildarkjötframleiðsla nú í apríl á...

Spornar gegn dvöl fólks á hættusvæðum ofanflóða
Fréttir 19. júní 2025

Spornar gegn dvöl fólks á hættusvæðum ofanflóða

Næsta haust mun Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra, mæ...

Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið
Fréttir 19. júní 2025

Pikkoló færir kaupmanninn aftur á hornið

Á fimm stöðum á höfuðborgarsvæðinu má sjá lítil viðarhús merkt Pikkoló sem er ís...

Einkunnamet slegin á vorsýningum
Fréttir 19. júní 2025

Einkunnamet slegin á vorsýningum

Glæsileg kynbótahross hafa hlotið háar einkunnir og eftirtekt fyrir framgöngu sí...

Nóg af heitu vatni til að kynda öll hús
Fréttir 19. júní 2025

Nóg af heitu vatni til að kynda öll hús

Í maí 2024 fannst heitt vatn í Tungudal við Ísafjörð, aðeins um þremur kílómetru...

Spornað við útrýmingu
Fréttir 19. júní 2025

Spornað við útrýmingu

Nýlega var stofnað Fagráð um geitfjárrækt. Er það talið nauðsynlegt til að stuðl...