Bændur þurfa að skrá sig sem heyútflytjendur
Sagt var frá því á dögunum að útflutningur á heyi frá Íslandi til Noregs falli undir ákvæði um frjálst flæði vöru innan Evrópska efnahagssvæðisins. Vegna þess þyrfti ekki að gefa út heilbrigðisvottorð við útflutning og því væri aðkoma Matvælastofnunar á Íslandi óþörf. Það er hins vegar ekki alls kostar rétt. Í tilkynningu frá Mast segir að þeir sem framleiða og selja hey til Noregs skuli vera skráðir hjá Matvælastofnun að kröfu Mattilsynet í Noregi.
Bændur sem hyggjast selja hey frá sínum búum þurfa að fylla út eyðublað 1.03 sem er að finna í þjónustugátt Mast.
Allar nánari upplýsingar um útflutning á heyi og kröfur sem gerðar eru er að finna á vef Matvælastofnunar, www.mast.is