Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson.
Mynd / HKr.
Fréttir 12. október 2020

Bændur, takið Birni Bjarnasyni vel

Höfundur: Guðni Ágústsson

Nýlega skipaði landbúnaðarráðherra tveggja manna nefnd um framtíð landbúnaðarins. Þetta gerir hann án samráðs við bændaforystuna. Fyrir liði fer margreyndur maður, Björn Bjarnason fyrrv. ráðherra, en með honum er í nefndinni Hlédís Sveinsdóttir.  Björn hefur víða komið að málum en hvergi að landbúnaði svo ég muni. Björn hefur ýmsa kosti. Hann er einarður maður, ótal-hlýðinn og gerir það eitt er hann telur réttast. 

Sagt er að hann hafi gert aðeins eina kröfu, að hann hefði Sigurgeir Þorgeirsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands og ráðuneytisstjóra, að baki sér.  Sigurgeir þekkir landbúnaðinn út og inn og veit manna best hvar skórinn kreppir og hvað hefur farið úrskeiðis á síðustu árum. Halldóri Blöndal landbúnaðarráðherra var hann slíkur aðstoðarmaður að ráðherrann sagði gjarnan: – „Við Sigurgeir höfum ákveðið“ og vissu þá allir að vel var ráðið. 

Umgjörð íslenska landbúnaðarins hefur verið umturnað

Að baki Birni gnæfa tveir jarlar í pólitík, þeir Bjarni Benediktsson, faðir hans og forsætisráðherra, og Ingólfur Jónsson á Hellu, sem Bjarni treysti best fyrir málefnum bænda og telst enn fremstur meðal jafningja sem landbúnaðarráðherra.  Björn var menntamálaráðherra lengi og því mun hann átta sig fljótt á að umgjörð ráðgjafar og vísinda hefur verið brotin á bak aftur gagnvart landbúnaðinum. Hann mun átta sig á að það verður að byggja upp landbúnaðarráðuneytið og heimta stofnanir landbúnaðarins heim á ný. Allri umgjörð íslenska landbúnaðarins hefur verið umturnað. Þar bera aðrir meiri sök en Kristján ráðherra, en Kristján hinn, ráðuneytisstjóri,  hefur staðið vondu vaktina innan dyra allan tímann.  

Ekki hlustað á bændaforystuna

Á meðan heldur hinn ríki og stóri sjávarútvegur öllu sínu hjá ríkinu. Ríkið borgar Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu og Landhelgisgæsluna. Þegar ráðherrann sami og fer með landbúnaðinn ætlaði að fara með sjávarútveginn eins og landbúnaðinn, útgerðin ætti að borga rannsóknir og eftirlit og þar með nýtt hafrannsóknaskip, þá sögðu foringjar útgerðarinnarinnar „éttu hann sjálfur,“ og þar við sat. Á bændaforystuna hefur ekki verið hlustað í mörg ár og tillögur hennar og faglegar athugasemdir að engu hafðar. Ríkisstjórnir staglast á matvælum og leggja fram peninga, en með hinni hendinni eru leiðirnar opnaðar erlendis frá til að svelta bændur og blekkja neytendur. 

Íslenski fjölskyldubúskapurinn einn sá besti í veröldinni

Nú vill svo til að ný forysta Bændasamtakanna virðist öflugri en fyrr, og er vís til að berja í borðið hvað líður. Mín áskorun til hennar og bænda er þessi: Safnið liði og öllum gögnum um hverju verður að breyta bæði í stjórnkerfi landbúnaðarins og gagnvart bændum og búgreinunum. Dragið fram mynd af t.d. norskum landbúnaði. Sparið ekki kraftana að upplýsa og marka nýja sýn, það plagg verður ykkar kröfugerð til ríkisstjórnar ef Björnsnefndin strandar á blindskeri.  Birni er ætlað óvinnandi verk að ná sátt jafnt við Bændasamtökin og fjandaflokka eins og heildsalana Ólaf Stephensen og Andrés og enn logar mýrarljós Samfylkingar og Viðreisnar um ESB-aðild. Svo veit ég að Björn hefur ekki skap til að liggja yfir einhverju sviðsmyndarugli, heldur vill marka mikilvægum atvinnuvegi tækifæri. Hann mun vonandi fara að eins og Jón Loftsson í Odda forðum, þegar ruglið dynur á honum, frjálshyggjan og fláræðið: „Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að halda hann að engu.“ Því staðreyndin er sú að á öllum sviðum erum við Íslendingar í góðri stöðu með fjölskyldubúskapinn, einn þann besta í veröldinni að mati fólksins í landinu, lækna og matreiðslumanna í allri Evrópu og eigum einstaka Móður jörð.   

Verð til sauðfjárbænda fallið um 40–50%

Ein grein innan landbúnaðarins er komin að hruni, það er sauðfjárbúskapurinn. Því bið ég Björn Bjarnason að taka stöðu sauðfjárbænda til sérstakrar afgreiðslu strax og gera tillögur um aðgerðir til að bæta lífsafkomu sauðfjárbænda, þar liggur og sérgrein Sigurgeirs sem ann meir feitum hrútum en makríl.   Engum vafa er það undirorpið að sauðfjárbændur hafa búið við erfiðleika nú í nokkur ár. Afurðaverð féll fyrir 3–4 árum um 40–50%, sem gerir afkomu þeirra af búskapnum rýra. Nú er fullyrt að eitt lægsta afurðaverð til bænda sé á íslenska lambakjötinu í Evrópu, á einni bestu náttúruafurð heimsins, lambinu okkar. Slíkt er óboðlegt og reynir þessi vonda staða mest á ungt fólk í greininni sem verður dæmt til að tapa eignum sínum og ætluðu lífsstarfi. 

Sauðfjárbyggðum blæðir út, verði ekkert að hafst. Og þá munu þeir kumpánar óáreittir flytja lambakjöt yfir hálfan hnöttinn eins og gerðist fyrir ári síðan.

Guðni Ágústsson.

Nesbú með nýtt lífrænt hænsnahús í Flóanum fyrir 18 þúsund fugla
Fréttir 16. maí 2022

Nesbú með nýtt lífrænt hænsnahús í Flóanum fyrir 18 þúsund fugla

Nesbú á Vatnsleysuströnd er þessa dagana að taka í notkun nýtt og glæsilegt lífr...

Kolvetnasnauðu Queen Anne kartöflurnar fá góðar viðtökur
Fréttir 16. maí 2022

Kolvetnasnauðu Queen Anne kartöflurnar fá góðar viðtökur

Nýverið kom á markað kartaflan Queen Anne frá Þórustaða Kartöflum sem hefur mun ...

Arfgerðin T137 finnst á Botnum og reynist útbreidd á Árskógsströndinni
Fréttir 16. maí 2022

Arfgerðin T137 finnst á Botnum og reynist útbreidd á Árskógsströndinni

Arfgerðar­greiningar á príon­próteini (PrP) kinda eru nú í fullum gangi. Að sögn...

„Ég hef lagt niður vopnin“
Fréttir 13. maí 2022

„Ég hef lagt niður vopnin“

Sigríður Jónsdóttir bóndi og fjölskyldan í Arnarholti í Biskups­tungum ætla að h...

Kúabændur misvel í stakk búnir til að bregðast við versnandi rekstrarhorfum
Fréttir 13. maí 2022

Kúabændur misvel í stakk búnir til að bregðast við versnandi rekstrarhorfum

Herdís Magna Gunnarsdóttir, bóndi á Egilsstöðum á Fljóts­dalshéraði, var kjörin ...

Verndandi arfgerðir gegn riðu nokkuð algengar í íslensku fé á Grænlandi
Fréttir 13. maí 2022

Verndandi arfgerðir gegn riðu nokkuð algengar í íslensku fé á Grænlandi

Sandkoli og hryggleysingjar
Fréttir 13. maí 2022

Sandkoli og hryggleysingjar

Atvinnuveganefnd hefur til umfjöllunar frumvarp þar sem fjallað er um veiðistjór...

Tryggir félagslegan stuðning við bændur
Fréttir 12. maí 2022

Tryggir félagslegan stuðning við bændur

Tryggir félagslegan stuðning við bændur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og ...