Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Bændur skiptust á skoðunum um gerð búvörusamninga
Mynd / TB
Fréttir 4. desember 2015

Bændur skiptust á skoðunum um gerð búvörusamninga

Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Fjórir bændafundir um gerð búvörusamninga voru haldnir í vikunni sem leið. Þar gerðu forystumenn bænda grein fyrir viðræðum við ríkisvaldið um framtíðarrekstrarumhverfi landbúnaðarins. Bændur fjölmenntu til fundanna en alls voru um 420 manns sem ræddu þetta mikilvæga málefni. 

Sitt sýnist hverjum um þá stefnu sem uppi er hjá samningsaðilum en ýmsar gagnlegar athugasemdir komu fram. Bæði fyrir og eftir bændafundina var haldinn formannafundur hjá  Bændasamtökunum, fulltrúaráðsfundur hjá Landssambandi kúabænda og aukaaðalfundur hjá Landssamtökum sauðfjárbænda. Samningamálin voru að sjálfsögðu meginumfjöllunarefnið. 
 
Næstu skref í samningaferlinu verða þau að forystumenn bænda taka saman þær áherslur sem bændum eru efst í huga. Það verður veganesti inn á samningafundi með ríkisvaldinu sem hefjast á ný í næstu viku. Upphafleg markmið voru þau að klára samningagerðina fyrir jól en ljóst er að halda þarf vel á spöðunum ef það á að takast.
Til umræðu voru þær hugmyndir sem uppi hafa verið um sauðfjár-, mjólkur- og garðyrkjusamninga. Umfjöllun um rammasamning landbúnaðarins fór ekki fram þar sem sú vinna er styttra á veg komin. Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, kynnti starf samninganefndarinnar og fór stuttlega yfir þær áherslur sem mótaðar voru á Búnaðarþingi 2015 vegna nýrra búvörusamninga. Þær voru m.a. að stækka og efla íslenskan landbúnað, bæta afkomu bænda og samkeppnishæfni landbúnaðarins í heild, efla nýliðun og fjárfestingu, auka gæði búvöru og tryggja aðgengi bænda að landi. Áherslur búnaðarþings voru jafnframt að efla rannsókna- og vísindastarf, tryggja fæðuöryggi, sækja á erlenda markaði, leggja áherslu á umhverfismál og takmarka innflutning dýraafurða sem framleiddar eru við lakari aðstæður og kröfur um aðbúnað en gerðar eru til innlendrar framleiðslu. Þá var það skýr vilji búnaðarþings að tollaumhverfið yrði hluti samninganna og að sama fjármagn yrði innan sömu búgreina og áður. Þingið varaði jafnframt við greiðslum út á land en í þeim hugmyndum sem kynntar voru á bændafundunum koma þær ekki við sögu.
 
Ný stuðningsform og efling landbúnaðar og byggðar
 
Fulltrúar ríkisins mættu til samningaviðræðna við bændur í byrjun september en síðan þá hafa fundir verið tíðir. Markmið stjórnvalda hafa að nokkru leyti komið fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar landbúnaðarráðherra en við upphaf síðasta búnaðarþings boðaði hann nýja nálgun í samningamálunum. Á bændafundunum var greint frá þeim áherslum sem ríkið hefur en þær eru m.a. að stefna í átt til nýrra stuðningsforma óháð búgreinum. Í því sambandi hafa fulltrúar ríkisins nefnt aukinn stuðning við nautaeldi, lífræna ræktun, geitfjárrækt og útiræktað grænmeti ásamt fleiru. Yfirvöld vilja stuðla að aukinni og arðbærri framleiðslu búvara og efla landbúnað sem atvinnugrein í hinum dreifðu byggðum. Þá er það nefnt í markmiðum ríkisins að stuðla að sjálfbærri nýtingu og efla fæðu- og matvælaöryggi. Nýliðun í landbúnaði er ofarlega á blaði en til þess að efla hana vill ríkið sníða galla af núverandi kerfi. Stærsta krafan er að stuðningur hins opinbera við landbúnað verði hlutlausari en nú er gagnvart því hvað er framleitt og dregið verði úr eða eytt stuðningsformi sem felur í sér að nýir aðilar þurfi að kaupa sig inn í greinina. Í þessu samhengi er rætt um að leggja af kvótakerfi í sauðfjár- og mjólkurframleiðslu þar sem greiðslumark hefur haft þá tilhneigingu að eigngerast.
 
Tollasamningur olli erfiðleikum
 
Þróun viðræðna hefur að sögn forystumanna bænda mjakast í rétta átt. Þó hafi nýr tollasamningur við ESB valdið erfiðleikum en eins og lesendum er í fersku minni voru viðamiklar tollabreytingar kynntar með skömmum fyrirvara í september sl. Fram hefur komið í viðræðunum nú að breytingar verði trauðla gerðar á samningnum og jafnframt eru eldri ákvæði tollasamnings við ESB frá árinu 2007 íþyngjandi fyrir bændur. Farið hefur verið fram á breytingar þar sem svigrúm er fyrir hendi. 
 
Fljótlega í umræðuferlinu kom í ljós að ekki er uppi á borðinu að gera fleiri búgreinasamninga. Undantekning er þó að vilji er til að útfæra sérstaklega stuðning við geitfjárrækt. Sérstakar viðræður verða um fjárfestingastuðning við aðrar greinar vegna aukinna aðbúnaðarkrafna en þær eru ekki hafnar. Miklar umræður voru um landgreiðslur en ekki náðist samstaða um útfærslu á þeim og því hafa þær verið slegnar út af borðinu.
 
Samkomulag um 10 ára samning
 
Bændur lögðu upp með það í upphafi viðræðna að gera samkomulag um 10 ára samning með endurskoðunarákvæðum. Rökin fyrir svona löngum gildistíma eru þau að lagðar eru til mjög róttækar kerfisbreytingar þar sem markmiðið er m.a. að vinna sig út úr kvótakerfunum sem nú eru við lýði. Í máli framsögumanna á bændafundunum kom skýrt fram að mikil vinna sé framundan í samningagerðinni, m.a. við að efla verkefni sem nýtast eiga landbúnaðinum í heild.
 
Meginatriði breytinga
 
Í þeim hugmyndum sem kynntar voru á bændafundunum að nýjum búvörusamningum er veigamesta breytingin sú að greiðslumark sem gengur kaupum og sölum hverfur á samningstímanum. Gert er ráð fyrir tveimur endurskoðunum árin 2019 og 2023 þar sem samningsaðilum gefst færi á að meta árangurinn og stöðuna. Stuðningurinn færist í afurða- eða gripagreiðslur en beingreiðslur falla niður að ákveðnum tíma liðnum. Farið er fram á ný verkefni í sauðfjár- og mjólkursamningi, m.a. um eflingu nautakjötsframleiðslu og við að auka virði sauðfjárafurða. 
 
Í mjólkurframleiðslunni er lagt upp með að heildargreiðslumark verði fastsett í upphafi samnings árið 2017 og síðan aflagt frá og með ársbyrjun 2021. A-greiðslur fylgja lögbýli en fara lækkandi og hverfa loks árið 2025. Eftir því sem A-greiðslur fjara út er áætlað að þær flytjist á aðra liði samningsins. B- og C-greiðslum verður slegið saman í einn lið og greiddar á alla innvegna mjólk. Áætlað er að gripagreiðslur tvöfaldist á fyrsta ári samningsins. Þar verða þróuð stærðarmörk og gripagreiðslur minnka eftir fjölda gripa. Framsali greiðslumarks verður hætt frá og með ársbyrjun 2017. Fyrirhugað er að taka upp aukinn stuðning við bændur í nautaeldi og þá er ætlunin að koma á fjárfestingastuðningi.
 
Í sauðfjárræktinni er áætlað að greiðslumark verði aflagt í þrepum og fært á gæðastýringu og gripagreiðslur. Framsal ærgilda verði heimilt til 2021 og ásetningsskylda verði 0,7 á sama tíma. Frá og með 1. janúar 2021 verða viðskipti með greiðslumark stöðvuð og ásetningsskylda aflögð um leið. Þ.a.l. fá bændur beingreiðslur óháð framleiðslu sem fylgir lögbýli. Krafa bænda er að fá meira fé inn í sauðfjársamninginn sem fer að hluta til nýrra verkefna, m.a. í markaðssókn erlendis, fjárfestingastuðning og til að útfæra vöktunarkerfi til að meta beitarþol.

Meginatriði breytinga á garðyrkjusamningi felast í því að niðurgreiðslur á flutningi og dreifingu orku komi aftur inn í samninginn sjálfan. Áfram verður gert ráð fyrir beingreiðslum vegna ræktunar á gúrkum, tómötum og papriku. 
 
Fram kom í máli framsögumanna á bændafundunum að engar upphæðir hafa ennþá verið niðurnegldar en unnið er út frá þeim tölum sem eru í síðasta fjárlagafrumvarpi. 
 
Líflegar umræður
 
Óhætt er að segja að skiptar skoðanir séu á samningamálunum hjá bændum. Í Eyjafirði stóð fundurinn í tæpar 5 klukkustundir og margir tóku til máls. Bæði kom fram hörð gagnrýni og eins mikill stuðningur við ákveðin atriði í samningaviðræðunum. Fram kom eindreginn vilji flestra þeirra sem til máls tóku að þeir vildu sjá breytingar og brýn þörf væri á að stokka kerfið upp. Fáir ef nokkrir mæltu fyrir óbreyttu kerfi. Frummælendur hvöttu bændur til þess að koma fram með tillögur að nýjum leiðum sem ekki hefðu þegar verið reyndar áður – það væri þegar búið að prófa ýmislegt og agnúar væru á öllum kerfum.
Á Hellu mættu um 130 bændur en þar var fyrsti fundurinn haldinn. Sumir fundarmenn töldu að hugmyndirnar myndu hvetja til mikillar framleiðsluaukningar, bæði í sauðfé og mjólk. Töldu menn ráðlegt að horfa til sögunnar og hver staðan yrði ef offramleiðsla færi af stað. Það þýddi einfaldlega verðfall á afurðum. Einhver framleiðslustýring væri nauðsynleg þótt flestir viðurkenndu að kvótakerfið eins og það væri í dag hefði fleiri galla en kosti. Þá höfðu bændur áhyggjur af auknu eftirlitskerfi og spurðu hvernig útfærsla á gripagreiðslum gæti orðið hnökralaus. Aðrir töldu að stóra spurningin snerist um það hvort hægt væri að semja um tollamálin. Byggðastuðningur væri það sem þyrfti að útfæra vel og bændur ættu að hafa forgöngu í því hvernig hinar dreifðu byggðir þróuðust. Aðrir nefndu ótæmandi tækifæri sem blöstu við landbúnaðinum, t.d. vegna aukningar ferðamanna á Íslandi en líka vegna aukinnar eftirspurnar eftir mat í heiminum. 
Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, orðaði það svo að nú væri vilji ríkisvaldsins að semja við bændur. „Nú er lag. Það er ekki víst að sá vilji verði fyrir hendi á kosningaári. Það eru mikil tækifæri framundan í búvöruframleiðslu. Það eru 40% fleiri ferðamenn í uppsveitum Árnessýslu núna í október en í október í fyrra,“ sagði Gunnar.
 
„Erum að teikna upp miklar breytingar“
 
Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, sló botninn í fundinn á Hellu þegar hann sagði mikilvægt að það kæmi fram að samningarnir væru samvinna á milli bænda og ríkisvalds. „Við erum að gera samninga fyrir bændur framtíðarinnar. Við verðum að taka af skarið og sníða gallana af kerfunum til þess að geta horft til framtíðar.“ Hann sagði að samninganefndin hefði víða fengið ráðgjöf og verið í samstarfi við aðra hagsmunaaðila. „Við erum að teikna upp miklar breytingar en reynum samhliða að slá marga varnagla. Það eru tækifæri framundan – m.a. vegna aukningar í ferðaþjónustu og vegna mannfjöldaþróunar,“ sagði Sindri.
 
Framhaldið
 
Eins og áður segir munu fulltrúar bænda nú ræða sín á milli um þau skilaboð sem komu fram á bændafundunum. Í kjölfarið verður aftur sest að samningaborði með fulltrúum ríkisvaldsins. Ómögulegt er að segja um það hvenær samningar nást en þegar að því kemur munu samtök bænda standa fyrir ítarlegum kynningum um allt land og á netinu. Í kjölfarið fara svo samningarnir í atkvæðagreiðslu hjá bændastéttinni og til meðferðar Alþingis.
 
Glærur, sem sýndar voru á bændafundunum, eru aðgengilegar á Bændatorginu.

Myndasyrpa af bændafundunum er aðgengileg hér.
 
Hretið seinkar vorverkum
Fréttir 13. júní 2024

Hretið seinkar vorverkum

Óveðrið sem gekk yfir Norður- og Norðausturland á dögunum hafði aðallega þau áhr...

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum
Fréttir 13. júní 2024

ESA spyr um óvissuatriði breytinga á búvörulögum

Í byrjun maí sendi ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, erindi til matvælaráðuneytisins þ...

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar
Fréttir 13. júní 2024

Viðbragðshópur vegna kuldatíðar

Matvælaráðherra hefur sett á laggirnar viðbragðshóp vegna þeirra erfiðleika sem ...

Bein og langvinn áhrif á búgreinar
Fréttir 13. júní 2024

Bein og langvinn áhrif á búgreinar

Matvælaráðherra stofnaði þann 7. júní sérstakan viðbragðshóp vegna ótíðarinnar á...

Sjálfbærninám á háskólastigi
Fréttir 12. júní 2024

Sjálfbærninám á háskólastigi

Fulltrúar Háskóla Íslands (HÍ) og Hallormsstaðaskóla hafa staðfest samstarfssamn...

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar
Fréttir 11. júní 2024

Ætla að virkja sólargeisla og senda til jarðarinnar

Íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs er komið í samstarf við breska fyri...

Gjaldskráin einfölduð
Fréttir 11. júní 2024

Gjaldskráin einfölduð

Matvælaráðherra hefur undirritað nýja gjaldskrá fyrir eftirlit og önnur gjaldsky...

Staða sníkjuormasýkinga metin
Fréttir 10. júní 2024

Staða sníkjuormasýkinga metin

Kortleggja á stöðu sníkjuormasýkinga hjá íslenskum nautgripum á næstu misserum.