Bændur sem kusu Trump sitja nú í súpunni
Enginn deilir um það að Donald Trump vann kosningasigur í nóvember 2024 í flestum sýslum Bandaríkjanna þar sem landbúnaður er höfuðatvinnugrein. Hann fékk að jafnaði 78% atkvæða í þessum sýslum. Ákvarðanir Trumps á fyrstu mánuðum í embætti hafa aftur á móti fæstar vakið lukku meðal bændanna sem byggja þessar sýslur. Sumir þeirra spyrja sig nú hvort það hafi verið rétt að styðja forsetann, þótt enn sé stuðningurinn við Trump mikill í Miðvesturríkjunum.

Það eru ekki bara tollaævintýri Trumps sem trufla bændur heldur einnig harðari stefna hans gagnvart innfluttu vinnuafli sem bændur reiða sig á og svo niðurfelling fjölmargra verkefna og styrkja á vegum landbúnaðarráðuneytisins. Þar á meðal eru styrkir sem áttu að renna til bænda sem unnið hafa samkvæmt sjálfbærni- og loftslagsstefnu ríkisins. Bændur hafa lagt út í kostnaðarsamar aðgerðir til þess að mæta kröfum yfirvalda í þessum efnum, enda hafa styrkir staðið til boða til að mæta kostnaði. En Trump hefur nú skorið niður fjárveitingar í þessi verkefni eins og flest önnur sem lúta að umhverfisog loftslagsmálum. Margir bændur sitja eftir í skuldafeni.
Minni bændur veikari fyrir
Í umfjöllun í Motherjones.com er bent á að aðgerðir Trumps virðist koma harðar niður á litlum og nýjum bændum en stórum. Og á endanum er óttast að aðgerðirnar eigi eftir að veikja stöðu þeirra samfélaga sem byggja á landbúnaði. Þær virðist jafnvel miða að því að fækka bændum.
Biden-stjórnin hafði stutt við bændur í minni rekstri með ýmsum styrkjum sem ætlað var að ýta undir loftslagsaðgerðir, matvælaöryggi og kynþáttajafnrétti. Þessi stuðningur er ekki lengur til staðar og minni bændur eru því margir hverir í lausu lofti, einkum ungir bændur sem eru að hefja búskap og svartir bændur sem ekki eiga sér sterkt bakland.
Líklegra er að stærri býli og stórir landeigendur lifi af niðurskurð Trumps. Eftir tollastríð Trumps á fyrra kjörtímabili veitti hann bændum sem urðu fyrir skaða 28 milljarða dollara stuðning í björgunaraðgerðum sem hann gæti þurft að endurtaka nú. Almennt er þó viðurkennt að peningunum hafi verið ójafnt skipt, stærri bændum í hag.
Minni býli sem fara á hausinn eru svo iðulega keypt upp af umfangsmiklum landeigendum. Á árunum 1987 til 2017 tvöfölduðu stórbændur eignarhald sitt á ræktarlandi í Bandaríkjunum, samkvæmt upplýsingum Motherjones.com.
Óttast er að tollastríð Trumps að þessu sinni og niðurskurður á stuðningi til bænda eigi eftir að skila enn meira ræktarlandi í hendur stórfyrirtækja á sviði landbúnaðar. Fordæmin frá fyrra kjörtímabili Trumps hræða en þá jukust gjaldþrot bænda um 24% á árabilinu 2017 til 2018.
Milljarða niðurskurður
Í vor hafa greiðslur verið stöðvaðar frá landbúnaðarráðuneytinu í fimmtán verkefnastyrki til handa bændum og strjálbýlum samfélögum. Um er að ræða nokkurra milljarða króna niðurskurð án fyrirvara til verkefna sem unnið hefur verið að á undanförnum misserum og árum.
Einnig hefur eins milljarðs stuðningur við skólamötuneyti og matarbanka víða um landið verið skorinn niður en peningurinn hefur verið notaður til þess að kaupa mat af bændum.
Héraðsskrifstofum landbúnaðar - ráðuneytisins hefur einnig verið lokað en þangað hafa bændur getað sótt ráðgjöf og ýmsa aðstoð. Nú þurfa þeir að fara um lengri veg til að sækja sér aðstoð og ráðgjöf.
Eins og áður hefur komið fram hér í blaðinu hefur Trump svo sagt upp hundruðum starfsmanna á stofnunum á borð við Umhverfisverndarstofnun (Environmental Protection Agency), Orkustofnun (Department of Energy) og Sjávar- og loftslagsstofnun (National Oceanic and Atmospheric Administration), sem er helsta rannsóknamiðstöð Bandaríkjanna um loftslagsmál. Ætlun Trumps er að skera fjárveitingar til síðastnefndu stofnunarinnar niður um 25% sem myndi til dæmis draga úr getu hennar til þess að sinna veðurþjónustu sem bændur reiða sig á.
Uppsagnir á Skrifstofu endurvinnslu og landnýtingar (U.S. Bureau of Reclamation), sem sér um vatnsnýtingu, stíflur og áveitukerfi, hafa að auki verið það miklar að óttast er að yfirvöld missi stjórn á flóknu kerfi vatnsbóla, stíflna og áveitna sem sjá bændum fyrir vatni.
Ofan í kaupið hefur tollastríð Trumps haft áhrif á erlenda markaði fyrir bandarískar landbúnaðarvörur. Óstöðugleikinn hefur tekið sinn toll. Stórir kaupendur í Kína hafa til að mynda snúið viðskiptum sínum til Brasilíu og Argentínu.
Þeir stóru græða
Óttast er að niðurskurður Trumps eigi eftir að hægja á umbótum í umhverfis- og loftslagsmálum. Stórtækir ræktendur sem framleiða matvöru á markað munu hins vegar hagnast á þessari stefnu, enda minnkar aðhaldið gagnvart notkun á skordýraeitri og kemískum áburði. Framleiðsla stórfyrirtækja í landbúnaði mun því að öllum líkindum aukast í tíð Trumps. Mengun mun aukast. Í Iowa hefur verið sýnt fram á að samþjöppun í landbúnaði hafi haldist í hendur við aukna mengun.
Samþjöppunin hefur einnig áhrif á strjálbýl landsvæði. Fólki fækkar. Litlum fyrirtækjum, sem þjónusta smærri bændur, fækkar því stórbændurnir kaupa áburð og annað sem þeir þurfa hjá alþjóðlegum fyrirtækjum. Allt grefur þetta undan smærri byggðum og bæjarfélögum. Á endanum græða eigendur stóru framleiðslufyrirtækjanna mest og þeir eru ekki endilega bændur.
Bændur kæra
Þó ekki séu liðnir nema fjórir og hálfur mánuður síðan Trump sór embættiseið eru bændur því farnir að andmæla forsetanum sem þeir margir hverjir kusu yfir sig. Og þau andmæli snúast ekki aðeins um niðurfellingu styrkja heldur einnig þá stefnu Trumps að afneita hamfarahlýnun af manna völdum og draga almennt úr aðgerðum í þágu umhverfismála.
Í Guardian er sagt frá því að samband lífrænna bænda í New York-ríki hafi ásamt samtökum á borð við Earthjustice og Natural Defense Council lögsótt bandaríska landbúnaðarráðuneytið fyrir að hafa fjarlægt vefsíður ráðuneytisins sem fjallað hafa sérstaklega um loftslagsbreytingar. Í málsókninni er því haldið fram að það fari gegn lögum að loka síðunum og það grafi undan getu bænda til þess að bregðast við ógnum af völdum breytinga á loftslaginu. Lögsóknin virðist ætla að bera árangur vegna þess að yfirvöld hafa boðað að síðan verði opnuð aftur á næstu dögum.
Bændur hafa einnig kært áðurnefnda niðurfellingu Trumps á styrkjum og í einhverjum tilvikum hafa styrkirnir ratað til sinna í kjölfarið. Svo virðist sem ákvarðanir forsetans séu ekki endilega byggðar á lögum eða hefðum og reglum stjórnsýslunnar. Skaðinn er þó að einhverju leyti orðinn, ekki síst á trausti bænda til yfirvalda í Bandaríkjunum.
Óvissan er nagandi
Bændur eru enn að jafna sig eftir viðskiptastríð Trumps á fyrra kjörtímabilinu, segir í umfjöllun NPR (National Public Radio, sem Trump hótaði reyndar að hætta að styrkja í liðinni viku). Óvissan er nagandi, segja bændur, og margir óttast að tollastríðið sem nú stendur yfir eigi eftir að keyra þá í þrot.
Norðvesturríkin – Washington, Idaho, Montana og Oregon – framleiða hvað mest af hveitikorni í heiminum, meira en Bandaríkjamenn gætu nokkru sinni látið í sig sjálfir. Bændur segja að það gæti reynst þeim dýrkeypt að draga úr þessari framleiðslu og minnka eða hætta útflutningi.
Ef fram heldur sem horfir gæti bandarískur landbúnaður hafa gjörbreyst eftir eitt ár og líklega þannig að ekki verður aftur snúið. Bændur vestanhafs halda því að sér höndum þessa dagana. Þeir fjárfesta ekki, ráða ekki fólk, leggja ekki í nýrækt. Þeir bíða bara þess sem verða vill með Trump við völd.