Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Fyrsta tölublað Bændablaðsins í eigu Bændasamtaka Íslands kom út 14. mars 1995.
Fyrsta tölublað Bændablaðsins í eigu Bændasamtaka Íslands kom út 14. mars 1995.
Fréttir 18. mars 2015

Bændablaðið í tuttugu ár

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Bændablaðið kom fyrst út undir merkjum nýstofnaðra Bændasamtaka Íslands hinn 14. mars árið 1995. Á blaðið því 20 ára afmæli á þessu ári.

Síðan eru komin út 438 tölublöð og nýjasta afurðin er nýtt Tímarit Bændablaðsins sem gefið var út af þessu tilefni og í tengslum við setningu Búnaðarþings í Hörpunni.

Nafn Bændablaðsins á sér þó lengri forsögu. Það var snemmsumars 1987 að nokkrir bændasynir á mölinni með Bjarna Harðarson í fararbroddi komu sér saman um að stofna til blaðaútgáfu fyrir bændur landsins. Blaðið var nefnt Bændablaðið en á bak við það stóð félagið Bændasynir hf. Blað þetta kom út í tæplega 8 ár og skapaði þegar best var 2 - 3 störf á ritstjórn sem fyrst var til húsa á Skúlagötu í Reykjavík en flutti síðar austur að bænum Einarshöfn á Eyrarbakka. Síðasta árið var blaðið gefið út af Jóni Daníelssyni á Tannstöðum í Hrútafirði sem seldi Bændasamtökum Íslands nafnið í árslok 1994.

Tímarit við setningu Búnaðarþings

Útgáfudagur tímaritsins er stílaður á 1. mars eða um leið og setning Búnaðarþings 2015 fer fram. Það er von aðstandenda þessa rits að útkoma þess geti orðið árlegur viðburður.

Markmið Bændasamtakanna með Bændablaðinu í upphafi var að gefa út blað sem skyldi sent út til allra bænda og vera upplýsandi um málefni stéttarinnar. Því var líka ætlað að kynna fyrir öðrum stefnu Bændasamtakanna og veita gagnlegar upplýsingar um stöðu landbúnaðarins. Jón Helgason, formaður Búnaðarfélags Íslands, sagði í fyrsta leiðara að með slíku kynningarstarfi sköpuðust auknir möguleikar á að hafa áhrif á umræðu um landbúnað og gera hana jákvæðari, eins og hann orðaði það. Svo sagði Jón:

„Sérstaklega er það þó eins og staðan er um þessar mundir, þegar afkoma margra bænda er erfiðari en verið hefur um áratuga skeið. Fram undan er því lífróður fyrir bændastéttina til að komast í gegnum þessa erfiðleika og fá aðstöðu til að nýta á árangursríkan hátt þá mörgu kosti, sem landið býður. Bændablaðinu er ætlað að vera öflugt tæki stéttarinnar í þeirri baráttu.“

Þessi orð Jóns Helgasonar eiga enn við í dag þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því Bændablaðið kom fyrst út. Blaðsíðufjöldi hefur aukist og á síðustu árum hefur tölublöðum fjölgað yfir árið, síðast 2013 þegar sumarhlé var aflagt og kemur það nú út 24 sinnum á ári. Samhliða þessu hefur upplag blaðsins aukist jafnt og þétt á 20 árum, eða úr 6.000 eintökum hvert tölublað í 32.000 eintök.

Nú er blaðinu dreift með markvissum hætti án endurgjalds í matvöruverslanir um allt land, á sundstaði, í sjoppur og bensínstöðvar og víðar þar sem fólk er á ferðinni. Þrátt fyrir að blaðinu sé dreift ókeypis víða um land fær töluverður hópur blaðið sent til sín í áskrift. Þá er einnig ákveðinn hópur á erlendri grundu sem fær blaðið sent til sín í pósti.

Eins og í upphafi útgáfunnar fá allir bændur sem búa á lögbýlum blaðið sent heim á hlað endurgjaldslaust, en þeir eru samtals um 5.500.

Bændablaðið í rafrænu formi

Árið 2007 var vef Bændablaðsins, bbl.is, hleypt af stokkunum. Þar er hægt að nálgast PDF-útgáfu af blaðinu frá árinu 2003 en við þau tímamót er 400. tölublaðið kom út 1. ágúst 2013 var blaðið frá upphafi útgáfunnar gert aðgengilegt á timarit.is. 

Á síðasta ári var enn bætt um betur og ný endurhönnuð vefsíða tekin í gagnið. Er hún miðuð að breyttri tækni í fjölmiðlun með snjallsíma og spjaldtölvur í huga. Er blaðið þannig orðið mun aðgengilegra en áður var bæði í prentuðu og rafrænu formi.

Auglýsendur hafa sýnt blaðinu mikla tryggð og traust í gegnum árin, en tekjugrundvöllur blaðsins byggist á auglýsingasölu að mestu leyti. Starfsfólk hefur ætíð lagt hart að sér við útgáfuna og margir pennar lagt ritstjórninni lið. Bændur og aðrir lesendur hafa ekki síst verið góðir bandamenn og verið í miklum samskiptum við ritstjórn.

Mikill útbreiðsla staðfest

Með aukinni útbreiðslu hefur vægi blaðsins fyrir auglýsendur aukist mikið. Til að staðreyna áhrifamátt blaðsins var á árinu 2012 ákveðið að blaðið tæki þátt í lestrarkönnun Capacent Gallup. Varð það þar í spurningarvagni með stærstu prentmiðlum landsins og voru niðurstöður birtar 24. janúar 2013. Óhætt er að segja að þessi fyrsta lesendakönnun hafi komið mörgum mjög á óvart. Þar var staðfest að Bændablaðið var með yfirburði í meðallestri prentmiðla á landsbyggðinni. Var það þá í fjórða sæti á landsvísu ef höfuðborgarsvæðið var tekið með, eða rétt á eftir Morgunblaðinu og þar innan skekkjumarka.

Bændablaðið tók aftur þátt í sams konar könnun sem fram fór á síðasta ársfjórðungi 2013. Skemmst er frá að segja að sama sterka staða blaðsins var þar staðfest, þrátt fyrir að allir prentmiðlar döluðu aðeins í lestri.

Í lestrarkönnun Capacent Gallup á síðasta ársfjórðungi 2014 kom síðan í ljós að Bændablaðið var orðið þriðji stærsti prentmiðillinn yfir allt landið á eftir Fréttablaðinu og Fréttatímanum og komið marktækt upp fyrir Morgunblaðið í fyrsta sinn.

Öflugasti prentmiðillinn á landsbyggðinni

Á landsbyggðinni ber Bændablaðið höfuð og herðar yfir aðra prentmiðla með 45,32% meðallestur. Næst kemur Fréttablaðið með 33,86%, Morgunblaðið með 27,84% lestur og Fréttatíminn er í fjórða sæti með 19,41% meðallestur.  Jafnframt var Bændablaðið eini prentmiðillinn sem gat státað af auknum lestri á meðan allir hinir prentmiðlarnir í könnuninni voru heldur að dala í lestri á milli ára.

Þessi sterka staða Bændablaðsins er afar ánægjuleg og hefur einungis náðst með þrotlausri vinnu starfsfólks og í náinni og ánægjulegri samvinnu við bændur og lesendur. Fyrir þetta ber að þakka og það er von ritstjóra að blaðinu auðnist að halda áfram nánum samskiptum við bændur og almenning um allt land en þar má vissulega alltaf gera betur. Það er líka afar mikilvægt í hörðum fjölmiðlaheimi að Bændablaðinu auðnist að halda landsmönnum vel upplýstum um mikilvægi allra búgreina fyrir land og þjóð.

Allar okkar búgreinar eru afar viðkvæmar fyrir utanaðkomandi áhrifum sökum legu landsins. Landbúnaður verður trauðla rekinn á Íslandi nema með velvilja ráðamanna og íbúa landsins. Þá skiptir líka máli að menn átti sig á mikilvægi landbúnaðar til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Þótt mörgum finnist þau rök kannski léttvæg þá er fæðuöryggi samt rauði þráðurinn í málflutningi fjölmargra vísindamanna sem hingað hafa komið og horfa á lífsafkomu á jörðunni til framtíðar í víðu samhengi. Allir leggja þeir mikla áherslu á mikilvægi þess að Íslendingar geti fætt sig sjálfir ef eitthvað bjáti á. Því eins og máltækið segir; enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...

Ullarvika á Suðurlandi
Fréttir 10. júlí 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. o...

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði
Fréttir 10. júlí 2024

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði

Hamingja íbúa í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði mælist mest á landinu í n...

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Svín og korn
12. júlí 2024

Svín og korn

Hundrað hesta setningarathöfn
12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn