Aukinn útflutningur á reiðhestum
Útflutningur á hrossum sveiflast nokkuð milli ára en samkvæmt gögnum Hagstofunnar fjórfaldaðist útflutningur á reiðhestum frá 2017 til 2021 en útflutningur minnkaði síðan um helming árið þar á eftir. Samtals voru flutt út tæplega 1500 hross árið 2024 og þar af hátt í 700 reiðhestar.
Samkvæmt greiningu Hagstofunnar hefur mest verið flutt út af hestum til undaneldis undanfarin ár en þó hefur útflutningur á reiðhestum aukist hlutfallslega meira. Þannig voru flutt út tæplega 1700 reiðhestar árið 2021 en 1330 hestar til undaneldis. Árin þar á eftir er hlutfallið nokkuð svipað en árið 2024 voru flutt inn 669 reiðhross og 707 hestar til undaneldis.
Langflest hross eru flutt út til Þýskalands og á það bæði við um hesta til undaneldis sem og reiðhesta. Þannig voru rétt innan við helmingur reiðhesta fluttir út til Þýskalands árið 2024. Ríflega 20% reiðhesta voru fluttir út til Norðurlandanna, þ.e. Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs, 9% til Sviss, 7% til Austurríkis og 3% til Hollands. En einnig voru 4% reiðhesta fluttir út til Bandaríkjanna.
Uppgefið útflutningsvirði á hrossum samkvæmt gögnum Hagstofunnar er nokkuð mismunandi eftir löndum. Fyrir árið 2024 var meðalútflutningsverð (fob) á hestum til undaneldis um 1.100.000 kr. og 866.000 kr. á reiðhestum. Sé hins vegar horft til einstakra landa, þá var meðalútflutningsverð á reiðhestum hæst til Noregs um 1.800.000 kr. og um 1.600.000 kr. til Bandaríkjanna. Meðalútflutningsverð á reiðhestum var hins vegar mun lægra t.d. til Danmerkur eða um 710.000 kr. og 660.000 kr. til Austurríkis.
