Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Dr. Med. Jóhannes Kári Kristinsson hefur framkvæmt þúsundir laser-aðgerða á Íslendingum frá árinu 2000. Hann varar fólk þó við að gera sér of miklar væntingar um að slíkar aðgerðir séu allsherjarlausn á öllum sjónvandamálum þess. Hann segir að það sé held
Dr. Med. Jóhannes Kári Kristinsson hefur framkvæmt þúsundir laser-aðgerða á Íslendingum frá árinu 2000. Hann varar fólk þó við að gera sér of miklar væntingar um að slíkar aðgerðir séu allsherjarlausn á öllum sjónvandamálum þess. Hann segir að það sé held
Mynd / /HKr.
Viðtal 22. maí 2014

Augnaðgerðir færast í vöxt hér á landi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur er spakmæli sem fólki kemur helst í huga þegar það verður fyrir áföllum af einhverjum toga. Fólk með góða sjón hugsar sjálfsagt ekki mikið um þetta dags daglega, en þeim mun mikilvægara er fyrir það fólk að passa vel upp á að augun verði ekki fyrir hnjaski. Það á ekki síður við um bændur en aðrar stéttir. Við höfum aðeins tvö augu og ef þau skemmast varanlega er ekki hægt að fá ný augu.
Dr. Med. Jóhannes Kári Kristinsson augnlæknir tekur undir þetta og segir að aldrei megi vanmeta forvarnir þegar sjónin er annars vegar. Allt of margir verði fyrir skaða á auga vegna þess að farið sé óvarlega og ekki notuð hlífðargleraugu við vinnu. Jóhannes segist líka hafa fengið til sín iðnaðarmenn sem eyðilagt hafa í sér auga eftir að hafa fengið verkfæri í sjóngleraugu sem brotnuðu og ollu því að glerbrot skárust inn í auga.

Mikilvægt að hugsa vel um augun

„Ég ráðlegg fólki að hugsa um augun eins og það hugsar um verðmæta hluti eins og bílinn sinn og helst betur. Almenningur þarf líka að fara reglulega í augnskoðanir. Yngra fólk þarf að fara á fjögurra til fimm ára fresti. Eftir fertugt þarf að fara á þriggja ára fresti og síðan á tveggja ára fresti eftir sextugt. Þetta er vegna þess að við hækkandi aldur fara að koma í ljós sjúkdómar sem eru óalgengir hjá þeim sem yngri eru. Við þeim þarf að bregðast en þarna getur verið um að ræða ský á augasteini, gláku og hrörnun í augnbotnum sem er erfiðasti sjúkdómurinn að eiga við. Mikilvægt er að greina sjúkdómana á réttum tíma svo hægt sé að meðhöndla þá.“
Jóhannes segir að það sé augljóslega mikill kostur, ekki síst fyrir iðnaðarmenn, bændur og sjómenn, að þurfa ekki að nota sjóngleraugu í daglegu starfi. Það geti skipt sköpum varðandi öryggi viðkomandi við erfiðar vinnuaðstæður. Í mörgum tilfellum sé hægt að laga sjón með laser-aðgerð þannig að fólk þurfi ekki á gleraugum að halda við flestar athafnir. Til að forvitnast frekar um laser-aðgerðir og hvort slíkar aðgerðir henti öllum leitaði Bændablaðið til Jóhannesar, sem er einmitt sérmenntaður á þessu sviði.

Sérmenntaðan hornhimnusérfræðingur

Jóhannes Kári er sérmenntaður hornhimnusérfræðingur og sérfræðingur í öllu er varðar ytra augað. Þá er hann sérfræðingur í sjónlagslækningum með laser og hefur í gegnum tíðina framkvæmt þúsundir laser-aðgerða á hornhimnu fólks. Hann útskrifaðist sem læknir frá Háskóla Íslands árið 1996 og lauk doktorsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1996 og fjallaði ritgerð hans um sykursýkisskemmdir í sjónhimnu. Hann útskrifaðist sem augnlæknir frá augndeild Duke-háskólans í Norður-Karólínu árið 2000 og lauk síðan sérnámi í sjónlagsaðgerðum með laser- og hornhimnulækningum ári síðar.

Hann framkvæmdi sína fyrstu „LASIK-aðgerð“, sem er algengasta tegund laser-aðgerða, í byrjun árs 2000. Árið 2001 stofnaði hann augnlæknastöðina Sjónlag. Síðan þá hefur hann framkvæmt um 8.000 laser-aðgerðir, auk þess sem hann var fyrstur til að framkvæma innsetningu á ICL-linsu í auga hér á landi árið 2006 og framkvæma krosstengslameðferð (e. corneal crosslinking) við keiluglæru (keratoconus) árið 2007. Árið 2012 stofnaði hann síðan Augljós laser augnlækningastöð, þar sem hann starfar í dag.

Laser-meðferð er alls ekki fyrir alla

– Nú eru laser-aðgerðir mikið í tísku og oft er talað um þetta sem allra meina bót hvað sjónina varðar, en er það fyrir alla að fara í slíka aðgerð?
„Nei, það er alls ekki fyrir alla. Ef fólk er á annað borð að hugsa um þetta er mikilvægt að það fari í forskoðun. Slík skoðun er mjög vönduð augnskoðun sem nýtist þá einstaklingnum burtséð frá því hvort hann fer í framhaldinu í laser-aðgerð eða ekki,“ segir Jóhannes.

„Það er ekkert óalgengt að í slíkri skoðun uppgötvist kvillar hjá fólki sem ekki var vitað um áður. Við höfum uppgötvað gláku, sjónhimnulos, ský á augasteini og ýmsa aðra sjúkdóma við slíka forskoðun.
Skoðun er því fyrsta skrefið og þá er hægt að komast að því hvort viðkomandi er kandídat fyrir laser-aðgerð eða ekki. Um 20-30% manna eru ekki kandídatar í slíka aðgerð.“

Jóhannes segir að þeir sem ekki teljist hæfir sem kandídatar í laseraðgerð séu með augu sem séu þannig byggð að þau henta ekki til aðgerðar. Hornhimnan sem unnið er með í aðgerðinni geti t.d. verið of kúpt eða of þunn eða að um einhverja augnsjúkdóma sé að ræða. Þar eru menn ekki að tala um neinar tommur til eða frá, heldur míkrómetra. Hornhimnan er t.d. ekki nema 500 míkrón eða hálfur millimetri að þykkt og flipinn sem gera þarf í aðgerðinni er ekki nema 120 míkrón eða 12% af millimetra. Segir Jóhannes að tilkoma smásjár í augnlæknisfræði upp úr 1950 hafi orðið algjör bylting. Fram að þeim tíma var ekki um annað en stækkunargler eða lúpur að ræða við aðgerðir á augum.

Fólk er of með of miklar væntingar

„Það geta verið of miklar væntingar um bata hjá fólki. Viðkomandi vill þá geta séð skírt algjörlega án gleraugna, bæði mjög nálægt og langt frá sér. Enn sem komið er ekki hægt að ná slíkum árangri. Fólk sem komið er yfir miðjan aldur fær ekki aftur sjón eins og unglingur.“
Getur hentað vel sjómönnum, bændum og iðnaðarmönnum

„Hagræðið sem ég sé fyrst og fremst við laser-aðgerðina er að með henni er hægt að veita fólki frelsi til að geta stundað útivist og auðveldað því vinnu þar sem erfitt getur reynst að vera með gleraugu. Ég nefni sjómenn, bændur, pípulagningamenn og smiði. Það eru vissar starfsstéttir að vinna við slíkar aðstæður að mjög erfitt getur verið að vera með gleraugu við vinnu og jafnvel hættulegt. Fyrir fólk í slíkum starfsstéttum tel ég tilvalið að láta kanna hvort það sé hæft til að fara í laser-aðgerð.

Þetta getur líka átt við margvíslegar tómstundir. Þar má nefna ýmiss konar útiveru, fjallamennsku, reiðmennsku og íþróttir þar sem mikill fengur getur verið að losna við hjálpartæki eins og gleraugu.
Fyrir marga skiptir það þó ekki miklu máli hvort þeir eru með gleraugu eða ekki og þá er kannski engin ástæða til að fara í slíka aðgerð sem kostar um 260 þúsund krónur.“

Jóhannes segir að hægt sé að hjálpa fjölmörgum einstaklingum sem eru mjög háðir gleraugum og með svolitla fjarsýni. Það sé hægt þannig að þeir verði nánast óháðir gleraugum. Þeir geti t.d. lesið matseðla og á vörur úti í búð, en þurfi aðeins gleraugu til að lesa smæsta letur.

Áhættan hverfandi

– En er ekki einhver hætta sem fylgir því að fara í laser-aðgerð?
„Mistök eru auðvitað til en þau eru afar sjaldgæf. Og jafnvel þó að allt sé gert í aðgerðinni eins og á að gera getur auðvitað eitthvað farið úrskeiðis. Ef slíkt gerist er í flestum tilvikum hægt að lagfæra það. Áhættan er því mjög lítil, en eins og með öll önnur mannanna verk er hún til staðar.

Sjálfur fór ég í slíka aðgerð fyrir tíu árum og tók þá mun meiri áhættu en ég þyrfti að gera í dag. Nú er aðgerðin orðin mun öruggari og tækjabúnaður betri þó að hann hafi verið góður áður.“

Linsur geta verið hættulegar

„Ef menn eru á annað borð að tala um áhættu í þessu sambandi verða menn líka að gera sér grein fyrir áhættunni á víðara sviði. Það er líka áhætta að vera með gleraugu og ekki síður augnlinsur. Það er meira að segja til rannsókn sem sýnir að linsur séu hættulegri en áhættan af því að fara í laser-aðgerð. Það er út af hættu á sýkingum í augum við notkun á linsum. Í sumum tilvikum geta slíkar sýkingar eyðilagt augu. Ég hef séð fólk verða blint út af linsum og einnig út af gleraugum. Það hefur hins vegar enginn orðið blindur við að fara í laser-aðgerð. Ég hef aldrei orðið vitni að slíku og hvergi séð skýrslur um slíkt.

Ég hef líka bent á það að ég hef talað við mann sem ók vélsleða fram af snjóhengju og lamaðist. Hann var með gleraugu og kennir því um að hann hafi ekki séð að hverju stefndi vegna móðu á gleraugunum. Félagar hans sem ekki voru með gleraugu sáu hins vegar hengjuna og gátu forðað sér frá slysi.

Nú er ég búinn að gera laser-aðgerðir í ellefu ár og ég finn að það hefur aldrei verið auðveldara og einfaldara. Þetta er samt alls ekki fyrir alla og fólk verður að gera sér fulla grein fyrir hvað það er að fara út í. Þá er líka mikilvægt að fólk sé ekki að gera sér allt of miklar væntingar um hvað þá fái út úr aðgerðinni,“ segir Jóhannes.
Jóhannes er kvæntur Ragnýju Þóru Guðjohnsen, lögfræðingi og doktorsnema í uppeldis- og menntunarfræðum, og eiga þau þrjú börn, Jón Magnús (1992) læknanema, Árnýju (1995) menntaskólanema og Margréti (2000) grunnskólanema. Í tómstundum hefur Jóhannes gaman af hlaupum, tónsmíðum og ljósmyndun.

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...