Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Atvinnuveganefnd Alþingis fundar um breytingatillögur vegna búvörusamninga
Mynd / BBL
Fréttir 10. ágúst 2016

Atvinnuveganefnd Alþingis fundar um breytingatillögur vegna búvörusamninga

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fulltrúar stjórnarmeirihlutans í atvinnuveganefnd Alþingis hafa í sumar unnið að tillögum um breytingar á frumvarpi sem fylgir búvörusamningunum sem lagðar verða fyrir þingið fljótlega eftir setningu þess. Reiknað er með að samningarnir verði samþykktir fyrir kosningar sem fyrirhugaðar eru í haust. Alþingi kemur aftur saman eftir sumarhlé 15. ágúst.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og annar varaformaður atvinnu­veganefndar, sagði í samtali við Bændablaðið að vinna við breytingatillögur nefndarinnar stæðu enn yfir og því erfitt að tjá sig mikið um þær.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar, tekur í sama streng og segir að unnið hafi verið að breytingatillögum í nefndinni í allt sumar. „Málið er á viðkvæmu stigi og nefndin hittist í fyrsta sinn í dag, miðvikudag, með formlegum hætti til að ræða um það. Á fundinum verður farið yfir stöðu málsins og eftir það verður fundað með þingflokkunum um tillögur nefndarinnar.“
Hann á ekki von á öðru en að búvörusamningarnir verði samþykktir á Alþingi fyrir kosningar í haust.

Tillögurnar ekki tilbúnar

Haraldur segir að fundað hafi verið hjá stjórnarmeirihlutanum í nefndinni og tillögurnar ræddar. „Vinna við málið hefur staðið yfir í allt sumar og gengið vonum framar að mínu mati og við teljum okkur geta lokið þeirri vinnu á næstu dögum og innan þess ramma sem bændur hafa samþykkt.
Ég get þó sagt að málið hefur tekið breytingum í meðferð nefndarinnar en ekki hversu miklar þær breytingar eru. Meðal þess sem unnið hefur verið að er lengd samningstímans og opnunin á breytingar sem eru skrifaðar inn í samninginn.

Markmið okkar er að ná niðurstöðu sem gerir það að verkum að hér ríki meiri sátt um landbúnaðinn í landinu um langan tíma og að endurskoðunin sem á að fara fyrst fram árið 2019 verði víðtæk og vel undirbúin með góðum greiningum og samtölum á milli hagsmunaaðila. Þrátt fyrir það vil ég taka fram að samningagerðin sjálf verður alltaf á hendi bænda og stjórnvalda.“

Haraldur segir að nefndin sé einnig búin að vinna mikið í tollamálunum, umhverfis- og loftslagsmálum og nefndin sé með ákveðnar tillögur tengdar þeim málum.

„Starf nefndarinnar hefur sem sagt fyrst og fremst legið í því að fara yfir umsagnirnar sem henni hafa borist vegna búvörusamninga og vinna að meiri sátt um þá, bregðast við ábendingum og umsögnum. Slíkt mun kosta breytingar en vonandi ekki það miklar að það verði að fara fram ný atkvæðagreiðsla meðal bænda um samninginn.

Ég á ekki von á öðru en að samningurinn verði samþykktur. Búvörusamningurinn og tolla­samningurinn haldast í hendur og hvorugur verður samþykktur án hins,“ segir Haraldur Benediksson.

Stjórnarandstaðan ekki með

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, og fulltrúar í atvinnuveganefnd sögðu í samtali við Bændablaðið að þau gætu ekki sagt mikið um starf nefndarinnar í sumar hvað varðar búvörusamninginn þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar hefðu ekki verið kallaðir á þá fundi.

„Við í stjórnarandstöðunni höfum ekki komið að málinu með formlegum hætti í sumar og höfum ekkert frétt af vinnu hennar, né vitum hvað hefur verið rætt um.

Fyrr í sumar lagði stjórnar­andstaðan áherslu á í minnisblaði til nefndarinnar um samninginn að fjallað yrði um mál eins og hraða skerðingu á beingreiðslum, sauðfjárbúskap á jaðarsvæðum og að fleiri umdeilanleg mál í búvörusamningunum yrðu tekin fyrir á fundum hennar ásamt áhrifum tollasamningsins á landbúnaðinn. Ég geri ráð fyrir að stjórnarmeirihlutinn hafi rætt þessi mál í sumar og sé ekki á byrjunarreit hvað þau varðar þegar við komum saman.

Mín skoðun er að stjórnarliðar séu ekki einir á báti þegar kemur að lausn þessa máls og að þeir teldu sér hag í að vinna með stjórnarandstöðunni á uppbyggilegan hátt að úrlausn þess. Ég er vongóð um að svo megi verða,“ segir Lilja Rafney.

Kristján L. Möller sagðist ekki hafa setið neina fundi í nefndinni í sumar vegna búvörusamningsins fyrir utan einn sem var haldinn skömmu eftir að þingi lauk. „Hafi atvinnuveganefnd komið saman í sumar til að funda um búvörusamninginn hafa þeir fundir einungis verið á vegum stjórnarmeirihlutans,“ segir Kristján.

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...