Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Hæst dæmda hross mótsins, Bjartmar fra Nedre Sveen er undan tveimur hrossum fæddum á Íslandi. Knapi er Agnar Snorri Stefánsson.
Hæst dæmda hross mótsins, Bjartmar fra Nedre Sveen er undan tveimur hrossum fæddum á Íslandi. Knapi er Agnar Snorri Stefánsson.
Mynd / Marius MacKenzie
Fréttir 29. ágúst 2017

Athyglisverður árangur Noregs

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Þótt fulltrúar Íslands hafi ekki staðið efstir í öllum flokkum á kynbótasýningu heimsmeistaramótsins bar niðurstaða dóma kynbótastarfi á Íslandi gott vitni, því að baki efstu hrossa liggja oftar en ekki foreldrar sem fæddir eru á Íslandi. 
 
Góður rómur var gerður að kynbótasýningu heimsmeistaramóts íslenska hestsins í Hollandi enda umgjörðin glæsileg. Fyrsti dagur mótsins var helgaður byggingardómum kynbótahrossa en þeim var stillt upp á sviði fyrir framan allt að 300 gesti sem fylgdust með dómurum meta og kveða upp dóm á þeim.
 
Umgjörð byggingardóma var hin glæsilegasta. Hér er Þórálfur frá Prestsbæ sem varð í 2. sæti í elsta flokki stóðhesta með 8,68 í aðaleinkunn. Sýnandi hans er Þórarinn Eymundsson.
 
Hrossin voru svo sýnd í reið næstu daga, fyrst í fordómi og síðar á yfirliti, sem skar úr um lokaniðurstöðu kynbótadómsins. Kynbótahrossin komu frá tíu löndum og endurspegluðu þau stöðu kynbótastarfs í hverju landi fyrir sig.
 
Kleifakynið skrefmikla
 
Það er eftirtektarvert að fulltrúar Noregs eiga hæst dæmdu hross í tveimur flokkum. Ræktunarstarfið í Noregi er lítið, þar hafa fæðst á bilinu 200–500 folöld á ári síðustu 7 ár. Til samanburðar telur árgangur 2015 í Noregi 231 hross, 733 í Svíþjóð, 1.275 í Danmörku og 2.263 í Þýskalandi. Á meðan fæddust tæp 6.000 hross á Íslandi árið 2015.
 
Hæst dæmda kynbótahross mótsins var stóðhesturinn Bjartmar fra Nedre Sveen en hann hlaut 8,72 í aðaleinkunn, 8,29 fyrir sköpulag og 9,00 fyrir kosti. Mun þetta vera hæst dæmda kynbótahross Noregs frá upphafi. Bjartmar hlaut meðal annars 9,5 fyrir skeið, og vilja og geðslag, 9 fyrir tölt og merka 10 fyrir fet. Báðir foreldrar Bjarts eru fæddir á Íslandi. Móðir hans er Löpp frá Akurgerði undan Brenni frá Kirkjubæ og Láru frá Ási 1. Faðir hans er Bjartur frá Leirulæk, undan Kletti frá Hvammi og Birtingu frá Stangarholti og tengist Bjartur því inn í Kleifakyn, en það kemur víða inn bak við góða gæðinga. Má þar helst nefna Álfadís frá Selfossi og hennar afkomendur. Eitt af einkennum þessara hrossa er mikið skref og frábært fet.
 
Terna frá Kleiva mun eflaust láta á sér bera í keppni eins og faðir hennar Tígull frá Kleiva, sem tók þátt í íþróttakeppni mótsins. Knapi er Erlingur Erlingsson.
Terna frá Kleiva mun eflaust láta á sér bera í keppni eins og faðir hennar Tígull frá Kleiva, sem tók þátt í íþróttakeppni mótsins. Knapi er Erlingur Erlingsson.
 
Þá hlaut hin norskfædda Terna frá Kleiva hæstu einkunn 5 vetra hryssna, 8,44. Hún fékk 8,57 fyrir sköpulag og 8,35 fyrir kosti. Terna er efnilegur töltari, hlaut einkunnina 9 fyrir tölt, hægt tölt og fegurð í reið, og á því eflaust eftir að taka sig vel út á keppnisbrautinni líkt og faðir hennar, Tígull frá Kleiva.
 
Tveir íslenskir sigrar
 
Fulltrúar Íslands hlutu flest lægri einkunn en á vorsýningum. Þrátt fyrir það urðu tvö þeirra efst í sínum flokki. Grani frá Torfunesi sigraði flokk 5 vetra stóðhesta með 8,36 í aðaleinkunn. 
 
Hann hélt sinni 9,5 fyrir öruggt og skrefmikið skeið og hlaut 9 fyrir vilja og geðslag og fet. Grani er undan heiðursverðlaunahryssunni Röst frá Torfunesi og Korgi frá Ingólfshvoli, sem var einmitt meðal keppenda á mótinu með góðum árangri.
 
Hervör frá Hamarsey varð hæst 6 vetra hryssna. Hún hlaut m.a. 10 fyrir bak og lend, 8,61 fyrir byggingu og 8,43 fyrir kosti. Sýnandi hennar er Vignir Jónasson.
 
Þá varð Hervör frá Hamarsey efst 6 vetra hryssa með 8,50 í aðaleinkunn. Hún hækkaði fyrir byggingu og hlaut m.a. einkunnina 10 fyrir bak og lend sem er sjaldséður dómur. Hervör er undan Héðni frá Feti og Keilisdóttur, Hrund frá Árbæ.
 
Gæðingafaðirinn Depill
 
Hæst dæmda hryssa sýningarinnar, og sigurvegari í elsta flokki, var Glódís vom Kronshof frá Þýskalandi. Hún hlaut 8,60 í aðaleinkunn, 8,61 fyrir byggingu og 8,59 fyrir kosti. Hún er afar jafnvíg á öllum gangtegundum og hefur verið að slá í gegn í keppni undir stjórn ræktanda síns, Frauke Schenzel. 
 
Glódís vom Kronshof er hér á fljúgandi skeiði. Hún er undan Depil frá Votmúla og Næpu vom Kronshof. Ræktandi og knapi er Frauke Schenzel.
 
Móðir Glódísar er hestagullið Næpa vom Kronshof sem er ein aðalræktunarhryssa Þýskalands um þessar mundir. Hún átti annað afkvæmi á kynbótasýningunni, Jódísi vom Kronshof, sem varð í 2. sæti í 5 vetra flokki. 
 
Faðir Glódísar er Baldurs­sonurinn Depill frá Votmúla 1 sem hefur reynst mikill gæðingafaðir. Hann hefur nú skilað 41 fyrstu verðlauna afkvæmum og fjöldanum öllum af keppnishrossum, þá sér í lagi góðum fimmgangshrossum. Er þar nærtækast að nefna sigurvegara fimmgangs á mótinu, Gust vom Kronshof. Depill fór ungur til Þýskalands og á hann því enga afkomendur á Íslandi.  
 
Mjölnir vom Lipperthof var efstur 6 vetra stóðhesta. Hann fékk 8,59 fyrir byggingu og 8,46 fyrir hæfileika þar af 9 fyrir skeið. Sýnandi hans er Árni Björn Pálsson.
 
Mjölnir vom Lipperthof frá Þýskalandi hlaut hæstu einkunn 6 vetra stóðhesta með 8,51 í aðaleinkunn. 
Foreldrar hans eru báðir íslenskir, Randver frá Nýjabæ og Ísól frá Efri-Rauðalæk, hryssa sem hlaut 10 fyrir skeið á sínum tíma.
 
Hróður från Gröna Gången er afar efnilegur foli. Hann er undan Arði frá Brautarholti og Hrímu frá Hofi. Knapi er Erlingur Erlingsson.
 
Buna Spunadóttir frá Skrúð stóð sig vel í flokki 5 vetra hryssna og hlaut m.a. 9 fyrir tölt og vilja og geðslag. Knapi er Björn Haukur Einarsson.
 
Skinfaxi fra Lysholm var fulltrúi Danmerkur en hann fór út í móðurkviði. Faðir hans er Kiljan frá Steinnesi en móðirin Sæla frá Þóreyjargnúpi sem sigraði í 100 metra skeiði á mótinu. Knapi er Søren Madsen
Erfðabreytt búfé
Fréttir 6. desember 2021

Erfðabreytt búfé

Erfðafræðingar binda vonir við að með aðstoð erfðatækni megi koma í veg fyrir al...

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda
Fréttir 6. desember 2021

Íbúar hópfjármagna byrjun framkvæmda

„Undanfarin ár hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra lagt áherslu á að framkvæmdu...

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði
Fréttir 6. desember 2021

Óviðunandi vetrarþjónusta við vinsæla ferðamannastaði

Það er til mikils að vinna að koma á bættri vetrarferðaþjónustu á Norðurlandi. E...

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng
Fréttir 6. desember 2021

Erlendir ferðamenn hafa greitt um 30 milljónir fyrir ferðir um Vaðlaheiðargöng

Erlendir ferðamenn sem farið hafa um Vaðlaheiðargöng á þessu ári hafa greitt fyr...

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn
Fréttir 6. desember 2021

Nýtt 450 íbúða hverfi byggt í Þorlákshöfn

Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu fyrsta áfanga Móabyggðar, nýs 450 íbúða h...

Rökstuddur grunur um blóðþorra
Fréttir 3. desember 2021

Rökstuddur grunur um blóðþorra

Veira sem getur valdið sjúkdómnum blóðþorra í laxi, Infectious salmon anaemia, h...

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi
Fréttir 3. desember 2021

Nýsköpunar- og þróunarsetur verði byggt upp á Vesturlandi

Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst hafa tekið höndum saman um að ...

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði
Fréttir 3. desember 2021

Ísland er enn í sérflokki þegar kemur að lítilli notkun sýklalyfja í landbúnaði

Samkvæmt skýrslu European Medicine Agency, sem kom út í síðustu viku, er sýklaly...