Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Inn í val á búgreinum innan landsvæða eða t.d. við nýliðun í héraði eða við fækkun/stækkun búa á að horfa til í hvaða ástandi jarðvegur og gróður telst vera, hvaða burðargetu svæði hefur, til hvers landgæðin henta best og um leið hvernig svæðið er í sveit
Inn í val á búgreinum innan landsvæða eða t.d. við nýliðun í héraði eða við fækkun/stækkun búa á að horfa til í hvaða ástandi jarðvegur og gróður telst vera, hvaða burðargetu svæði hefur, til hvers landgæðin henta best og um leið hvernig svæðið er í sveit
Mynd / HKr.
Fréttir 25. janúar 2016

Ástand og eðli lands – val á búgreinum

Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
I
Hugtakið jarðvegur hefur ólíka merkingu eftir notanda. Fyrir einum merkir það laus jarðlög en öðrum ákveðna gerð lausra jarðlaga, einkum með lífrænum leifum, og þá einmitt hina brúnu mold sem landbúnaðurinn byggir á. Meginhluti íslensks jarðvegs af þeirri gerð flokkast sem andosol-eldfjallajörð. Hún er ágætlega frjósöm en fremur rofgjörn út af fremur litlu leirinnihaldi en háu hlutfalli eldfjallagjósku (mest basaltgler). Er mest um hana innan eldvirka beltsins (um fjórðungur landsins) og næst því. Hlutfall lífrænna leifa og næringarefna er mishátt og eins er þykkt bruna jarðvegsins ólík eftir landsvæðum og hæð yfir sjó. Á stærstu flatlendum og í dalbotnum getur hún numið mörgum metrum, fáeinum metrum á lágheiðum og aðeins nokkrum sentimetrum eða tugum sentimetra ofarlega í fjallhlíðum og á hálendum heiðum. Víða er ásýnd lands án slíks jarðvegs og samfelldrar gróðurhulu með öllu eðlileg. Moldríkur jarðvegur hefur safnast upp. m.a. vegna áfoks, öskufalls og lífrænna leifa, á um 11.000 árum eða skemmri tíma. Í jarðvegssniðum sést hvernig því vindur fram og hvernig þykknunarhraðinn breyttist eftir landnám manna, landbúnað þeirra og aðrar athafnir sem breyttu yfirbragði gróins lands. Mikið af jarðvegi tók að færast úr stað og skýrist það að hluta af vind- og vatnsrofi sem tók fljótlega mikinn kipp.
 
II
Skipta má jarðvegi í nokkrar gerðir innan flokkanna votlendis og þurrlendis, en það verður látið ógert hér. Í stað þess verður hugað að ástandi jarðvegs á landinu öllu. Heildarmat á því er orðið næstum 20 ára gamalt (RaLa og Landgræðslan) en gera má ráð fyrir að það gefi enn sæmilega vísbendingu um stöðuna. Niðurstöður heildarútektarinnar sýndu umtalsvert eða alvarlegt jarðvegsrof á 40% landsins, eða 52% landsins þegar hæstu fjöll, jöklar, ár og vötn eru undanskilin. Um 18.000 ferkm voru (1997) með hæstu rofeinkunn, 4 og 5. Innan þessa hluta eru náttúrulegar auðnir og sjávarsandar, jafnt sem örfoka land sem áður bar jarðveg og gróður. Talsvert rof sást á um 25.000 ferkm (rofeinkunn 3). Ekkert eða lítið rof (rofeinkunn 0,1 og 2) var á um 38.000 ferkm. Taka verður tillit til þess að gæðum jarðvegs hefur sums staðar hnignað. Jarðvegur myndaður eftir landnám er víða með meira af áfoksefnum, grófkornóttari og með minni samloðun og lífrænu efni en eldri jarðvegur. Rofeinkunnir segja ekkert til um hvers konar gróður er að finna á svæðum né um ástand hans. Nú er það mat Landgræðslunnar að rof og veðrun jarðvegs vinni ekki lengur á, eftir um aldalanga viðspyrnu og endurheimtur. Héðan af höfum við vinninginn ef áfram er haldið sem fyrr og bætt í að auki.
 
III
Mikil umskipti hafa einnig orðið í gróðurfari grænna svæða og vistkerfin hafa breyst. Tré hverfa og gróðursamsetning breytist þegar flatarmál birkiskóga og kjarrs minnkar úr u.þ.b. 25% af landsinu í um 1%. Votlendi grær upp eða myndast eða er ræst fram. Jarðvegur hverfur alveg af sumum svæðum og harðgerðar landnámsjurtir birtast. Beit breytir tegundasamsetningu á grónu landi með útbreiðslu jurta sem verjast vel búfjárbeit. Á meðan ýmis svæði hafa verið grædd upp eða ræktuð og vistkerfin styrkt er landhningnun staðreynd. Samkvæmt gagnagrunni Landbúnaðarháskólas (Nytjaland) má ætlað að hennar gæti á allt að 30.000 ferkm. Athafnir manna og mannvirkjagerð raska líka vistkerfum landsins. Má þar nefna vegagerð, jarðvinnslunámur, virkjanir og raflínur, ferðamennsku og akstur utan vega.
 
IV
Eins og öðru fagfólki er lagið hljóta bændur að meta þá auðlind sem að þeim snýr. Landgæði og nýtingarmöguleikar, sem landsvæði fela í sér, ráða hvað mestu um hvers konar landbúnaður þar er stundaður. Sem leikmaður giska ég á að þetta eigi við sauðfjárrækt, kúabúskap, skógrækt, kornrækt, grænfóðursræktun, grænmetisræktun, repjuræktun til eldsneytisgerðar, búskap með „frjálsar“ hænur og „frjáls“ svín í bland við hefðbundna eggja-, kjúklingakjöts- og svínakjötsframleiðslu svo einhver dæmi séu nefnd. Að sjálfsögðu hefur landsvæðabundin nýting einkennt landbúnað að nokkru marki. Engu að síður mætti það gerast oftar og víðar og þá sem hluti af þeirri hægfara endurskipulagningu greinarinnar sem hófst með kvótasetningu í mjólkurframleiðslu, tæknibyltingu og nýjum viðhorfum fyrir 20–30 árum. Inn í val á búgreinum innan landsvæða eða t.d. við nýliðun í héraði eða við fækkun/stækkun búa á að horfa til í hvaða ástandi jarðvegur og gróður telst vera, hvaða burðargetu svæði hefur, til hvers landgæðin henta best og um leið hvernig svæðið er í sveit sett með þjónustu, jafnt afurðastöðva sem samgangna.
 
V
Ef á að hafa landgæði í huga við val á búgreinum og skipulagningu landbúnaðar þarf jafn góðan ramma og er í sjávarútvegi. Með því er átt við rannsóknir, upplýsingagjöf og aðstoð, jafnt sérfræðinga sem fjármálastofnana og ríkisins. Vinna þarf nýja úttekt á ástandi jarðvegs (nýtt rofkort), uppfæra verkefnið Nytjaland (gróðurkortaþáttinn), ef þess er þörf, og ljúka því, eins og til stóð. Síðan væri sérstök úttekt á landinu unnin. Hún gæti falist í að nota upplýsingar um landgæðin til þess að útbúa, í samvinnu sérfræðinga, sveitarfélaga og bænda, reitaskipt landshlutakort er gefa vísbendingar um hvaða hlutar hvers landsvæðis henta undir ólíkar tegundir búskapar. Sennilega þarf um leið að endurskoða kjötframleiðslu sauðfjár. Á hún að fullnægja innanlandsmarkaði einum eða arðbærum útflutningi að auki? Ef fiskveiðar eiga að vera stundaðar með ólíkum aðferðum og til veiða á ólíkum fisktegundum á þar til ákvörðuðum, mismunandi hafsvæðum, og samkvæmt úthugsuðum kvóta, gildir ekki eitthvað svipað um landbúnað? Þegar þetta er skrifað hefur starfshópur  um landnotkun í dreifbýli og sjálfbæra landnýtingu að skilað skýrslu og tillögum til ráðherra:
(http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/sk150817_landnotkun-og-sjalfbaer-landnyting.pdf). Verður spennandi að sjá hvað úr verður og hve fljótt.
Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa
Fréttir 31. janúar 2023

Enn versnar rekstrarafkoma skuldsettra kúabúa

Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) hefur lokið við greiningu á rekstri 154 kú...

Skordýr sem fóður og fæða
Fréttir 31. janúar 2023

Skordýr sem fóður og fæða

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnið verkefni sem snýr að því að koma upp sko...

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia
Fréttir 30. janúar 2023

Arabískt fyrirtæki fjárfestir í Atmonia

Efnafyrirtækið Sabic Agri-Nutrients hefur keypt einkarétt á notkun tækni Atmonia...

35 kindur drápust í bruna
Fréttir 30. janúar 2023

35 kindur drápust í bruna

„Aðkoman var óhugnanleg og þetta er mikið áfall,“ segir Guðjón Björnsson, bóndi ...

Innflutningur erfðaefnis skilar góðum árangri
Fréttir 27. janúar 2023

Innflutningur erfðaefnis skilar góðum árangri

Samkvæmt niðurstöðum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) úr skýrsluhaldi na...

Verðskrá Skeljungs og Fóðurblöndunnar
Fréttir 27. janúar 2023

Verðskrá Skeljungs og Fóðurblöndunnar

Skeljungur og Fóðurblandan hafa birt verðskrá fyrir þær tegundir af áburði sem f...

Ekkert veiðibann á döfinni
Fréttir 26. janúar 2023

Ekkert veiðibann á döfinni

Veiðibann á grágæs hefur ekki tekið gildi á Íslandi og ekki stendur til að banna...

Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt
Fréttir 26. janúar 2023

Stakkhamar 2 skýst upp á toppinn yfir afurðahæstu kúabúin miðað við meðalnyt

Stakkhamar 2 í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi hefur skotist á toppinn ...