Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Annars flokks borgarar
Skoðun 6. desember 2017

Annars flokks borgarar

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Menntun er forsenda bættra lífskjara. Við eflum menntun fyrir atvinnulífið með áherslu á iðn-, verk- og tækninám, segir í stefnu Samtaka iðnaðarins. Þrátt fyrir augljóst mikilvægi þessara greina fyrir samfélagið hefur lítill skilningur verið fyrir því á Alþingi áratugum saman.
 
Klúður og vanhæfni Alþingis í þessum málum kom berlega í ljós nýverið þegar í ljós kom að Útlendingastofnun tók ákvörðun um að vísa matreiðslunemanum Choung Lei Bui úr landi með 15 daga fyrirvara. Hún hafði sótt um landvistarleyfi og var í matreiðslunámi við Menntaskólann í Kópavogi og var jafnframt í starfsnámi á veitingastað. Ástæða brottvísunarinnar var ekki sú að manneskjan væri hættuleg landi og þjóð, heldur var ástæðan sú að ekki var um háskólanám að ræða heldur iðnnám. Hvort það á að kalla þetta menntahroka háskólafólks í íslenskri pólitík eða eitthvað annað, þá sýnir þetta vel þann þankagang sem hefur verið undirliggjandi í mótun íslenskrar menntastefnu áratugum saman. Þar hefur höfuðáherslan verið lögð á menntaskóla og háskóla á kostnað iðn- og tækniskóla. Íslendingar hafa verið að súpa seyðið af þessari arfavitlausu stefnu á undanförnum árum. Iðnmenntað fólk er nú vandfundið hér á landi og Íslendingar orðnir mjög ósjálfbjarga sem þjóð á því sviði.
 
Í marga áratugi hafa þrautseigir baráttumenn fyrir iðnmenntun hér á landi þurft að heyja harða baráttu til að halda lífi í iðn- og tæknimenntun. Oft hafa þar verið á ferð miklir hugsjónamenn sem jafnvel  lögðu eigin efnahag undir í baráttunni við   þvergirðingslegt opinbert menntakerfi. 
 
Í máli matreiðslunemans var Útlendingastofnun samt einfaldlega að fara að lögum númer 80 um útlendinga sem samþykkt voru á Alþingi 2016. Þau lög áttu að vera endurbætur á fyrri lögum. Við breytingarnar, sem mikill meirihluti þingmanna samþykkti með galopnum augum, var allt sem heitir iðnmenntun í fyrri lögum strikað út. Í staðinn var sett klausa sem segir:
 
„Samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“
 
Er hægt að hafa þetta mikið skýrara? Mikill meirihluti þingmanna samþykkti þetta væntanlega vitandi vits og var um leið að gjaldfella allt iðn- og tæknimenntað fólk á Íslandi og skilgreina háskólanám sem eina „alvöru“ framhaldsnámið. Það má svo sem segja að þetta sé eðlileg niðurstaða og alveg í takt við þá menntastefnu sem hér hefur verið rekin í áratugi. 
 
Útlendingastofnun var fljót að átta sig á þessari breytingu og ákvað að framlengja ekki námsmannadvalarleyfi matreiðslunema sem er félagsmaður hjá MATVÍS og ákvað að vísa nemanum úr landi. Málið var kært til úrskurðarnefndar sem komst að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.
Enginn þingmaður á Alþingi Íslendinga greiddi atkvæði á móti þessu, en tveir sátu hjá. Þeir sem ábyrgðina bera á lagasetningu voru 46 alþingismenn:
 
Er til of mikils mælst að iðn- og tæknimenntað fólk á Íslandi verði beðið afsökunar ef þingmennirnir 46 telja að um mistök hafi verið að ræða við lagasetninguna? Ef ekki, þá er það bara komið á hreint og er um leið eins og blaut tuska í andlit þessara mikilvægu starfskrafta í íslensku samfélagi, að Alþingi Íslendinga skilgreinir það í lögum sem annars flokks borgara.  
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...