Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Alúð og kærleikur í hverju verki
Mynd / HKr.
Líf&Starf 14. desember 2015

Alúð og kærleikur í hverju verki

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Á handverkstæðinu Ásgarði í Álafosskvosinni verður haldinn veglegur jólamarkaður laugardaginn 5. desember. Þar gefst fólki kostur á að kaupa vandaða smíðagripi sem smíðaðir eru af mikilli alúð af starfsfólki staðarins. Unnið er úr náttúrulegum efnivið og eingöngu er notaður íslenskur trjáviður.  
 
Frá upphafi hafa starfsmenn Ásgarðs lagt áherslu á að hanna og þróa einföld, sterk og skemmtileg leikföng sem eiga sér samsvörun í íslenskum þjóðháttum. Hvort sem um er að ræða sjávarútveg, landbúnað, þjóðsögur eða ævintýri. Eingöngu er unnið með náttúrulegan efnivið.
 
Heimir Þór Tryggva­son er forstöðu­maður Ásgarðs. Hann hóf þar störf 1998 en tók við sem forstöðumaður árið 2001. Hann sagði blaðamanni Bændablaðsins að mun farsælla væri að fá upplýsingar um starfsemina hjá Óskari Albertssyni enda með mun meiri reynslu. Óskar hefur starfað í Ásgarði frá stofnun 1993 og er ötull talsmaður vinnustaðarins. 
 
Ásgarður Handverkstæði var stofnað 1993 sem sjálfseignarstofnun og hefur starfsleyfi frá velferðarráðuneyti sem verndaður vinnustaður. Þar starfa um 40 manns, þar af  7 verkstjórar eða leiðbeinendur.
 
Byggt á hugmyndafræði Rudolfs Steiners 
 
Starfsemin í Ásgarði byggist á hugmyndafræði Austurríkismannsins Rudolf Steiner (1861–1925). Hann lærði náttúruvísindi og heimspeki í Vín, en átti erfitt með að sætta sig við efnishyggju náttúruvísindanna sem afneituðu sálarlegum og andlegum þáttum mannsins. Fram að fertugsaldri þróaði hann kenningar sínar um sambandið milli efnis og anda, og fór eftir það að miðla þeim til annarra. Fræði sín nefndi hann mannspeki (antroposofi). Eftir Steiner liggja 350  bækur. Þar af eru 42 skrifaðar af honum sjálfum, og um 300 eru endurritaðir fyrirlestrar. 
 
Waldorf-uppeldisfræðin, sem útbreidd er um allan heim, er frá honum komin, einnig lífræn (lífelfd) ræktun, byggingarlist, hreyfilist og þroskauppeldisfræði (lägepedagogik á sænsku), sem fjallar um uppeldi þroskahamlaðra barna. 
 
Fötlun ekki vandamál
 
Hugmyndafræði Steiners felst m.a. í því að ekki er litið á fötlun sem vandamál, heldur sem möguleika og að í hverri manneskju sé heilbrigður kjarni sem hægt sé að vinna með. Þannig er reynt að aðstoða fatlaðan einstakling við að vinna með fötlun sína, til að hæfileikar hans njóti sín sem best. 
 
Hefja hvern einasta dag á samsöng starfsmanna
 
Óskar Albertsson tók á móti blaðamanni og kynnti starfsemina. 
 
„Hér mæta menn á bilinu hálf níu til níu á morgnana. Síðan er misjafnt hversu lengi fram eftir deginum fólkið er. Þá eru sumir fyrir hádegi, aðrir eftir hádegi og sumir allan daginn. Enn aðrir eru svo hér part úr viku. Við byrjum á að koma saman í matsalnum og syngjum saman eitthvað þjóðlegt og skemmtilegt.“ Hefur það sýnt sig að þetta hjálpar til að anda út áhyggjum hversdagsins og byggja upp glaðvært og afslappað andrúmsloft.
 
Það er sannarlega notalegt að koma í Ásgarð. Þar skín í gegn væntumþykjan og virðingin fyrir öllum sem þar starfa. 
 
 Óskar sagði að þeir sem eru svo heppnir að fá starfspláss í Ásgarði komi af öllu höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi plássa er takmarkaður og greiða sveitarfélögin hvert fyrir sig með þeim plássum sem þeim er úthlutað. 
 
„Starfsemin hefur verið vaxandi og hér er aðallega verið að vinna úr íslenskum við.“
 
Ásgarður hefur áunnið sér virðingu sem verndaður vinnustaður. Fékk hann m.a. Umhverfisverðlaun Mosfellsbæjar 2014 fyrir að vera umhverfisvænt fyrirtæki sem leggur áherslu á endurnýtingu og notkun umhverfisvænna hráefna. „Við höfum einnig fengið Hvatningarverðlaun Fréttablaðsins,“ segir Óskar. 
 
Byrjuðu í Lækjarbotnum
 
Fyrstu árin var starfsemin í húsi í Lækjarbotnum, ofan við Lögbergsbrekkuna. Það svæði tilheyrir Kópavogi. Óskar segir að það verkstæði hafi brunnið í byrjun desember árið 2000. Þá vorum við nýbúin að ljúka við að vinna alla jólaframleiðsluna og hún fuðraði upp ásamt húsinu. 
 
„Við létum það ekki stoppa okkur og fengum leigt húsnæði um tíma á meðan við vorum að bíða eftir að byggja nýtt hús í Lækjarbotnum. Leyfi fékkst ekki fyrir nýbyggingu samkvæmt okkar ósk og við fórum því að leita að húsnæði. Þá var verið að selja pöbb í Álafosskvosinni, sem við keyptum og breyttum í vinnuaðstöðu. Síðan ákváðum við að kaupa braggana tvo hér fyrir neðan en þar bjó þá fjölskylda. Við gerðum braggana upp, einangruðum og skiptum um glugga og gólf og hafa þeir reynst okkur mjög vel.“ 
Í Listasmiðjunni, sem er áföst matsalnum, er fjölbreytnin í fyrirrúmi. Þar er unnið með ólík hráefni, hvort sem það er úr jurta-, steina- eða dýraríkinu. 
 
Óskar sagði að þarna fengi sköpunargleðin að ráða ríkjum. Þetta væri svo sem engin akkorðsvinna, fremur væri miðað við hvað hver og einn hefði þrek til að gera. Svo væru dagarnir oft brotnir upp með því að fara eitthvað, eins og í fjöruferðir eða annað. 
 
Þýskur myndhöggvari meðal starfsmanna
 
Á trésmíðaverkstæðinu (Bragg­anum) eru smíðuð leikföng, skúlptúrar og húsbúnaður, og einnig stærri hlutir eins og bekkir og borð, svo eitthvað sé nefnt.  Þar var m.a. við störf þýski myndhöggvarinn Gerhard Köning. Á hans herðum er öll stærri smíði eins og á garðhúsgögnum og eingöngu úr íslensku timbri. Engar skrúfur eða naglar eru notaðir við smíðina, heldur eingöngu trénaglar og vatnshelt lím. Hann hefur verið á Íslandi síðan 2010 og hefur m.a. haft veg og vanda að endurbyggingu á safni Samúels Jónssonar, listamannsins með barnshjartað, í Selárdal í Arnarfirði.  
 
Gerhard segir undravert hversu fjölbreyttan við hann hafi fengið hér á landi til að smíða úr. Það er auðvitað birkið, en síðan fura, greni, ösp og jafnvel beyki. Mosfellsbær sé mjög öflugur við að útvega þeim hráefni úr görðum bæjarins. 
 
„Um 80% af okkar smíðavið kemur úr Mosfellsbæ.“
 
Þá segist Gerhard einnig hafa fengið gullregn og beyki úr garði í Reykjavík. Þótt það beykitré hafi verið orðið mjög myndarlegt eftir áratuga vöxt í skjóli milli húsa í Reykjavík, þá er þetta viðartegund sem vex ekki mikið á norðlægum slóðum.
 
Starfsmaður númer þrjú
 
Á verkstæðinu í Bröggunum var líka Sigurður Ragnar Kristjánsson. Hann  byrjaði í Ásgarði þegar starfsemin hófst 1993. Hann segist aðeins hafa ætlað að vera í eitt ár, en árin eru nú orðin 22. Aðeins tveir aðrir starfsmenn hafa verið allan þann tíma, en það er Óskar Albertsson, sem var fyrsti starfsmaðurinn sem ráðinn var, og Steindór Jónsson var númer tvö.
 
Sigurður er aðallega á bandsöginni og segist lítið koma að því að fínpússa hlutina. Hann segist vera sveitastrákur og upprunninn á jörðinni Landakoti á Álftanesinu sem afi hans og langafi byggðu. Þar bjó hann í 23 ár. Á stærsta hluta þeirrar jarðar er nú búið að byggja íbúðarhúsahverfi. Sem krakki var Sigurður oft í Reykholtsdalnum.
 
Magdalena frá Póllandi er mjög hrifin af starfseminni 
 
Magdalena er sjálfboðaliði í Ásgarði, en hún er frá Póllandi. Hún var að vinna að gerð á leiktæki eða eins konar kúluspili, þegar blaðamann bar að garði. 
 
„Ég er sjálfboðaliði frá European Vouluntary Service og verð hér í eitt ár. Áður en ég kom hingað gerði ég mér mjög miklar væntingar um hvernig þetta væri. Þetta er bara enn betra en ég reiknaði með. Það er magnað að vera hluti af þessu samfélagi hérna og mikill heiður fyrir mig að fá að starfa með þessu fólki. Sjálf kem ég frá miðbiki Póllands, eða borginni Lodz sem margir þekkja,“ sagði Magdalena.
 
Það er sannarlega hægt að taka undir með Magdalenu að starfsemin sem fram fer í Ásgarði sé mögnuð. Það var virkilega notalegt að heimsækja fólkið sem þar vinnur og finna þann góða anda sem þar svífur yfir vötnum. Bændablaðið hvetur alla sem möguleika hafa á að kíkja á jólamarkaðinn í Ásgarði. 

19 myndir:

Skylt efni: Ásgarður | jólamarkaður

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...