Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður mælti fyrir nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar og lagði til að 1. grein frumvarpsins yrði felld á brott.
Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður mælti fyrir nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar og lagði til að 1. grein frumvarpsins yrði felld á brott.
Mynd / Vefur Alþingis.
Fréttir 13. júní 2018

Alþingi hættir við breytingar á tollkvótum fyrir sérosta

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Laust eftir miðnætti í gærkvöldi greiddu alþingismenn atkvæði um frumvarp um breytingar á tollalögum. Frumvarpið fól meðal annars í sér að flýta tollfrjálsum innflutningi á svokölluðum sérostum. Í meðförum atvinnuveganefndar, eftir aðra umræðu í þinginu, var 1. grein frumvarpsins felld á brott en þar var kveðið á um auknar heimildir til tollfrjáls innflutnings á sérostum. Þingheimur samþykkti þá breytingatillögu með 42 atkvæðum gegn 13. Tveir þingmenn greiddu ekki atkvæði og sex voru fjarstaddir. Það er því ljóst að ekkert verður af fyrirhuguðum breytingum á tollalögum í þá veru að flýtt verði innflutningi á sérostum hingað til lands.

Nýjar upplýsingar beindu málinu á aðra braut

Í nefndaráliti með breytingatillögunni kemur fram að nýjar upplýsingar hafi komið fram í málinu sem breyttu afstöðu nefndarmanna. Í álitinu segir m.a. „Við umfjöllun um frumvarp þetta hefur komið fram að ekki hefur verið farið fram á neinar formlegar viðræður við Evrópusambandið um aðgangsheimildir fyrir mjólkurafurðir að innri markaði þess. Ljóst er að fyrrgreint nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar átti að eiga við um vörur sem ekki væru framleiddar hér á landi og væru því ekki í beinni samkeppni við innlenda framleiðslu. Meiri hlutinn telur þó hafa komið í ljós við umfjöllun um frumvarp þetta að ef það nær fram að ganga mun það hafa mikil áhrif á framleiðslu hér á landi.“

Hagsmunaaðilar, s.s. Bændasamtökin, Landssamband kúabænda og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, bentu allir á í umsögnum sínum við upphaflega frumvarpið að yrði það samþykkt óbreytt hefði það alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íslenska mjólkurframleiðslu. Jafnframt var bent á að það væri ekki svo einfalt að eingöngu væri um sérosta að ræða eins og franska mygluosta. Þarna væru líka hollenskir Gouda- og Edam-ostar sem væru sambærilegir við mest seldu brauðosta hér á landi. Umræddar vörur væru því vissulega í samkeppni við hliðstæðar vörur sem framleiddar væru hérlendis.

Innlend framleiðsla fær aðlögunartíma

Í samningi Íslands við ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur sem undirritaður var haustið 2015 var gengið út frá því að viðbótarmagn á innflutningi á ostum dreifðist á fjögur ár. Í frumvarpinu var lagt til að viðbótarmagn verði unnt að flytja inn á einu ári. Í fyrri breytingartillögu meirihluta nefndarinnar við frumvarpið var lagt til að tímabilið yrði tvö ár. Niðurstaða nefndarinnar eftir umræður var að hætta við óskir um viðbótarmagn á tollkvóta þar sem ljóst væri að innlend framleiðsla þyrfti aukinn aðlögunartíma. Þá benti nefndin á að leita þyrfti eftir auknum heimildum til aðgangs að innri markaði Evrópusambandsins ef ætti að flýta innflutningi hingað til lands. Samningur milli Íslands og Evrópusambandsins væri tvíhliða þannig að á móti innflutningi áttu að koma aðgangsheimildir að markaði Evrópusambandsins. Sú vinna virðist ekki hafa verið unnin í ráðuneyti landbúnaðarmála né í utanríkisráðuneytinu.

Viðbótarmagn sérosta mun dreifast á fjögur ár

Niðurstaða nefndarinnar var því að fella fyrstu grein frumvarpsins á brott og því verði ekki um hraðari innleiðingu á tollkvótum fyrir osta að ræða. Farið verður eftir því sem kveðið er á um í samningi Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur, en þar er gert er ráð fyrir að viðbótarmagn dreifist á fjögur ár frá gildistöku samningsins.

Að auki beindi meirihluti atvinnuveganefndar því til ráðherra að fyrir 1. nóvember 2018 verði unnin úttekt um áhrif innflutningskvóta á ostum, sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum, á íslenskan markað og kynna atvinnuveganefnd. Við gerð úttektarinnar skal leita eftir sjónarmiðum þeirra sem eiga hagsmuna að gæta. Jafnfram ítrekaði meirihlutinn að ríkisstjórnin skuli hraða eins og kostur er samningum við Evrópusambandið um aðgangsheimildir fyrir mjólkurafurðir að innri markaði þess.

Það sem stendur eftir af upphaflegu stjórnarfrumvarpi um breytingar á tollalögum er að heimilaður verður tollfrjáls innflutningur á móðurmjólk fyrir hvítvoðunga. Um þá breytingu var kveðið á í 2. grein frumvarpsins.

Feril málsins, þingskjöl, umsagnir, upptökur og niðurstöðu atkvæðagreiðslna má skoða á vef Alþingis með því að smella hér.

Meiri uppskera af gulrótum og kartöflum en minna af rauðkáli
Fréttir 2. desember 2022

Meiri uppskera af gulrótum og kartöflum en minna af rauðkáli

Samkvæmt nýjum uppskerutölum frá garðyrkjubændum í útiræktun grænmetis, varð tal...

Örvar nýr fjármálastjóri Bændasamtaka Íslands
Fréttir 2. desember 2022

Örvar nýr fjármálastjóri Bændasamtaka Íslands

Stefnir í takmarkanir á veiðum grágæsa
Fréttir 2. desember 2022

Stefnir í takmarkanir á veiðum grágæsa

Þar sem fjöldi skráðra grágæsa á talningastöðum á Bretlandseyjum er 30% færri en...

Minkur til Danmerkur
Fréttir 1. desember 2022

Minkur til Danmerkur

Hópur danskra minkabænda, sem kallast Dansk mink, vinnur nú að því að endurvekja...

Frummenn vildu vel steiktan fisk
Fréttir 30. nóvember 2022

Frummenn vildu vel steiktan fisk

Rannsóknir á beinaleifum vatnakarfa sem fundust þar sem í dag er Ísrael benda ti...

Fyrsti rafmagnssteypubíllinn á leiðinni til landsins
Fréttir 30. nóvember 2022

Fyrsti rafmagnssteypubíllinn á leiðinni til landsins

Steypustöðin gekk nýlega frá samningi við steypudælu og -bílaframleiðandann Putz...

Ný sálmabók tekin í notkun
Fréttir 29. nóvember 2022

Ný sálmabók tekin í notkun

Þann 13. nóvember sl. var ný útgáfa sálmabókarinnar tekin í notkun í kirkjum lan...

Fljúgandi bolabítur
Fréttir 28. nóvember 2022

Fljúgandi bolabítur

Skömmu eftir miðja nítjándu öld lýsti Alfred Russel Wallace, sem var samtímamaðu...