Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Kristín S. Bjarnadóttir í Sigluvík, hún er hjúkrunarfræðingur og starfar við fagið en stundar að auki þó nokkra útgáfustarfsemi undir nafninu Blúndur og blóm.
Kristín S. Bjarnadóttir í Sigluvík, hún er hjúkrunarfræðingur og starfar við fagið en stundar að auki þó nokkra útgáfustarfsemi undir nafninu Blúndur og blóm.
Líf og starf 14. janúar 2019

Alsæl og þakklát inn að hjartarótum yfir viðtökunum

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Ég er alsæl og þakklát inn að hjartarótum. Það er alls ekki sjálfgefið þótt maður fái hugmynd í kollinn um að búa til sýningu með 19 þátttakendum inni á heimili sínu að viðbrögðin verði svona fram úr björtustu vonum,“ segir Kristín S. Bjarnadóttir í Sigluvík  á Svalbarðsströnd, sem efndi til Útgáfugleði á heimili sínu nýverið og bauð öðru handverks- og listafólki að vera með. Á bilinu 8–900 manns lögðu leið sína í Sigluvík og skoðuðu það sem til sýnis var.
 
Kristín hefur mörg undanfarin ár gefið út fimm mismunandi gerðir af dagatölum með eigin ljósmyndum og texta, auk korta, m.a. jólakort, samúðarkort og tækifæriskort, en útgáfan er undir nafninu Blúndur og blóm. Hún hefur jafnan blásið til útgáfuhátíðar þegar ný dagatöl og kort líta dagsins ljós og undanfarin ár fengið Huldu Ólafsdóttur í Hjartalagi til liðs við sig. Nú spýttu þær stöllur heldur betur í lófana og voru alls 19 sýnendur hér og hvar um íbúðarhúsið í Sigluvík. 
 
Kristín er hjúkrunarfræðingur með sérhæfingu í líknarhjúkrun og starfar við sitt fag hjá Heimahlynningu á Akureyri. Eiginmaður hennar er Birgir Hauksson, kjötiðnaðarmaður hjá Kjarnafæði. Þau hjónin hafa undanfarinn áratug séð um stofnútsæðisræktun á gullauga kartöflum, en þau tóku við af tengdaforeldrum hennar og eru með ræktunina í Fífilgerði í Eyjafjarðarsveit. „Við erum bæði alin upp í sveit og á þeim tíma sem kartöflurækt var mikil, fór fram á mörgum bæjum við Eyjafjörð,“ segir Kristín sem er frá Svalbarði á Svalbarðsströnd en Birgir er frá Fífilgerði.
 
Sigluvík er á Svalbarðsströnd, um 10 mínútur tekur að aka þangað frá Akureyri.
 
Fimm mismunandi dagatöl
 
„Ég hef alla tíð haft óbilandi áhuga á að fegra umhverfi mitt, föndra og finna gömlum lúnum hlutum nýtt hlutverk. Út frá því áhugamáli kviknaði áhugi á að stilla upp og taka myndir af ýmsu gömlu, bæði úti og inni, og eiginlega varð það kveikjan að því að ég fór að gefa dagatölin út,“ segir Kristín. Fimm mismunandi gerðir dagatala eru í boði, notalegar stemningmyndir prýða þau öll, auk þess sem Kristín semur texta til innblásturs fyrir hver mánaðamót. Bæði er um að ræða borð- og veggdagatöl, þau eru í tveimur stærðum auk Skipulagsdagatals fjölskyldunnar, en það hefur þann eiginleika að hver og einn innan fjölskyldunnar á sinn dálk til að fylla inn í fyrirfram og þannig hafa allir á heimilinu sömu yfirsýn við væntanlega viðburði. Þá gefur Kristín út Íslenska barnadagatalið, sem er ríkulega myndskreytt með ljósmyndum af íslenskum dýrum og fleiru áhugaverðu, m.a. myndamerkingum, leiðbeiningar og brosandi límmiðar til að merkja inn gleði- og tilhlökkunardaga. „Þannig verður fókusinn sjálfkrafa á það jákvæða í tilverunni,“ segir Kristín.  Dagatölin er hægt að fá í gjafapakkningu og hafa þau verið vinsæl til gjafa. 
Miðlum birtum og bjartsýni
 
Kristín nýtir ljósmyndir af dagatölunum einnig í útgáfu tækifæriskorta og sendir frá sér 12 ný kort á hverju ári. Tilganginn segir hún vera að miðla birtu og bjartsýni. Jólakort með kveðju og samúðarkort með hlýjum orðum eru einnig í boði. „Þetta hefur eftir því sem árin líða undið svolítið upp á sig og orðið umfangsmeira,“ segir hún. Þar kemur samstarfið við Huldu við sögu, en hún er grafískur hönnuður og hefur m.a. aðstoðað við uppsetingu á verkum Kristínar. „Við höfum hjálpast að um árin og byggt í kringum okkur ágætt tengslanet, en með því að stækka Útgáfugleðina svo um munar langar okkur að útvíkka það. Samkomur af þessu tagi veita alltaf mikinn innblástur, þær efla mann og styrkja,“ segja þær Kristín og Hulda en einkar vel tókst til með útgáfugleði ársins 2018 þannig að aldrei er að vita hvað verður næst. 

10 myndir:

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...