Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Á Reyðarfirði voru tjaldstæðin innan við bæinn meira og minna full í allt sumar.
Á Reyðarfirði voru tjaldstæðin innan við bæinn meira og minna full í allt sumar.
Mynd / HKr.
Fréttir 13. september 2018

Aldrei fleiri gistinætur á tjaldsvæðum Austurlands

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það er mikil gróska í ferða­þjónustunni á Austurlandi, uppbygging víða í fjórðungnum, mikil fjölbreytni og margir spennandi og ólíkir hlutir í gangi,“ segir María Hjálmarsdóttir sem stýrir verkefninu Áfangastaðurinn Austurland. 
 
María Hjálmarsdóttir.
Verkefnið var sett af stað að frumkvæði Ferðamálasamtaka Austurlands, en Austurbrú stýrir því. Markmið þess er að styrkja aðdráttarafl og samkeppnishæfni fjórðungsins, gera áætlun til lengri tíma þar sem áhersla er á sjálfbæran og arðbæran vöxt ferðaþjónustunnar, sem og á svæðisskipulag, en um er að ræða samfélagsátak sem skapar ramma fyrir þróun áfangastaðarins Austurlands. 
 
Verkefnið hófst árið 2014 og hefur mikið áunnist, að sögn Maríu.
 
„Við notum sérstaka aðferð til að sjá út styrkleika og veikleika svæðisins, tækifæri þess og ógnanir og þannig var leitast við að svara því hvernig best færi á að þróa Austurland áfram og gera að öflugri áfangastað. Við höfum fjallað um persónuleika svæðisins og hvaða minningar við viljum skapa hjá okkar gestum,“ segir hún.
 
Full tjaldstæði í Hallormsstað. Mynd / Páll Ásgeir Guðmundsson
 
 
Metfjöldi á tjaldsvæðum
 
María segir sumarið hafa gengið ágætlega í ferðaþjónustunni fyrir austan, það hafi raunar farið fremur hægt af stað, „en byrjaði svo með hraði í júlí og haustið virðist ætla að koma vel út,“ segir hún.  Gistináttafjöldi á tjaldsvæðum á Austurlandi hefur aldrei verið jafn mikill. 
 
„Lausatraffík bjargaði líklegast fyrri part sumars þar sem veðrið var með eindæmum gott. Fjölmargir Íslendingar voru á ferðinni þá í bland við þá erlendu. Gistináttafjöldi á tjaldsvæðunum í Hallormsstaðaskógi er sá mesti sem við höfum skráð frá upphafi,“ bætir hún við en mesti fjöldi þar á undan var árið 2002. Fjöldinn nú í ár er á bilinu 3 til 4 þúsund fleiri nætur en var fyrra metárið fyrir 16 árum.  Hlutfall erlendra gesta hefur aukist töluvert á liðnum árum að sögn Maríu og því hefur tímabilið lengst fram á haustið. Enn er þó veturinn erfiður, „og þar er verk að vinna með vetrarferðamennsku á svæðinu.“ 
 
Mikil fjölbreytni fyrir austan
 
Austurland er stórt og fjölbreytt landsvæði og hefur nokkra sérstöðu. Kaupstaðir niður á fjörðum eru margir og hver með sínu móti, en hæglega er hægt að aka á milli þeirra og upplifa hvað hver þeirra og einn hefur upp á að bjóða. Þá má nefna Héraðið með sínum gróskumiklu skógum og hálendi Íslands er innan seilingar, svo að segja í bakgarðinum með sínum víðlendum og jöklum. „Ferðalangar geta upplifað ólíkt landslag, ólíka stemningu allt eftir því hvar þeir eru staddir í fjórðungnum hverju sinni. Okkar sérstaða felst að mörgu leyti í þessari fjölbreytni, því hversu ólík svæði eru innan landsvæðisins, gróskumiklir skógar, jöklar, tilkomumiklir fossar, víðátta, heillandi sjávarþorp allt eftir því á hvar innan svæðisins ferðalangar eru staddir,“ segir María.
 
Spennandi verkefni í gangi
 
Það er mikill hugur í Austfirðingum og víða hefur á liðnum misserum verið tekið myndarlega til hendinni og eins eru spennandi verkefni til eflingar ferðaþjónustunni  í farvatninu. Þar má nefna sem dæmi uppbyggingu ylstrandar við Lagarfljót, Vök-Bað sem er stórt og mikið verkefni og lyftir ferðaþjónustu fjórðungsins verulega en stefnt er að því að ylströndin verði tekin í notkun á næsta ári, 2019. Framkvæmdir hafa einnig staðið yfir á Óbyggðasetrinu sem hlaut nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2016, en þar er verið að útvíkka starfsemina og bæta í, m.a. með heitri laug og stjörnuskoðunarhúsi, fjallahjól eru nú einnig í boði auk vinsælla hestaferða líkt og áður. Þá er víða verið að taka til hendinni á Egilsstöðum og nágrenni og við hafa bæst matsölustaðir af ýmsu tagi og gistimöguleikar eru nú fleiri en nokkru sinni fyrr.
 
Tónlist, menning og matur
 
Á Austurlandi er sífellt verið að bæta í líkt og gildir um aðra landsfjórðunga, meira er til að mynda um tónleikahald af ýmsu tagi og matarmenningu hefur verið gert hátt undir höfði. María nefnir m.a. í því sambandi tónlistarveisluna Havarí í Berufirði sem efnt var til annað árið í röð nú í sumar. Fjölmargir erlendir sem innlendir gestir sóttu þá tónleika. „Hér um slóðir hefur auk tónleika verið staðið að alls konar viðburðum, kvikmyndasýningum, fundum og mannfögnuðum,“ segir hún en þekktustu og fjölsóttustu viðburðir eru Eistnaflug í Neskaupstað, Bræðslan á Borgarfirði eystra og Lunga á Seyðisfirði.
 
Á liðnu sumri var efnt til viðburðar í Neskaupstað sem bar heitið „Mat attack“ en þangað kom kokkur frá Bandaríkjunum, búsettur á Svalbarða, og tengdi saman matvælaframleiðendur á Austurlandi og útbjó ýmsa rétti sem heimamönnum bauðst að smakka á. 
 
„Ég get líka nefnt nýja viðbót, Diner á Egilsstöðum, þar sem er að finna alvöru glymskratta, mjólkurhristing og úrval bæði bandarískra og íslenskra rétta að velja úr á matseðli. Ís er þar líka að finna í miklu úrvali. Dinerinn er orðin ein helsta viðkomustöð bandarískra ferðamanna hér á landi,“ segir María. 
 
Skilar sér að vanda til verka
 
„Hvarvetna þar sem verið er að byggja upp eða bæta við hafa menn upplifun gestanna sem útgangspunkt. Það má segja að það sé þemað hjá okkur fyrir austan, auk þess að vanda vel til verka og leggja áherslu á gæðin,“ segir María, en hún nefnir í því sambandi nokkrar nýlegar byggingar á viðkvæmum svæðum þar sem mikið var í lagt til að gera byggingar sem best úr garði og að þær falli sem best að umhverfi sínu. Þar er sem dæmi nýlegt aðstöðuhús við Stórurð á Vatnsskarði og sama áhersla á vönduð vinnubrögð er við gerð húss við Hafnarhólma á Borgarfirði eystra sem lokið verður við á næsta ári. Efnt var til samkeppni um húsin og segir María það heilladrjúgt. „Það hefur mikill metnaður verið í gangi að bæta innviði og gera allt á sem vandaðast hátt, það skilar sér til lengri tíma litið og upplifun gesta verður sterkari,“ segir hún. 

10 myndir:

Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum
Fréttir 5. mars 2024

Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum

Enn er opið fyrir umsóknir um framlög vegna vatnsveitna á lögbýlum sbr. regluger...

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...