Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Afturgöngur ógna líffræðilegum fjölbreytileika
Mynd / smh
Skoðun 1. desember 2017

Afturgöngur ógna líffræðilegum fjölbreytileika

Höfundur: Svavar Halldórsson
Íslendingar líta á Sigríði Tómasdóttur frá Brattholti sem eina helstu hetju og frumkvöðul í náttúruvernd. Barátta hennar fyrir verndun Gullfoss á fyrri hluta 20. aldar skilaði sér í friðlýsingu fossins árið 1979.
 
Barátta hennar við skammsýni og græðgi þeirra sem vildu fórna náttúruperlunni í nafni framfara og ódýrrar raforku hefur gert nafn hennar ódauðlegt. Mörgum þótti hugmyndin góð. Ef ekki hefði verið fyrir staðfestu heimamanna undir forystu Sigríðar væri Gullfoss líklega glataður. 
 
Alþjóðleg náttúruvernd
 
Árið 1972 var efnt til heimsráðstefnu um umhverfismál í Stokkhólmi og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna varð til. Í kjölfarið fylgdu alls kyns samningar um náttúru og sjálfbærni, verndun hafsins, náttúru á landi og lofthjúpsins. Meðal annars Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni, sem utanríkisráðherra Íslands undirritaði í Ríó de Janeiro árið 1992 og Alþingi staðfesti tveimur árum síðar. Hluti þeirrar íslensku náttúru sem fellur undir ramma þessa samnings eru húsdýrakynin sem bárust hingað með landnámsmönnum fyrir meira en þúsund árum. Íslenski hesturinn, geitin, kýrin, sauðféð og forystuféð eru allt kyn sem hafa lifað hér í einangrun frá landnámi. 
 
Íslensku kynin einstæð og viðkvæm
 
Það er alþjóðlega viðurkennt að íslensku húsdýrakynin eru einstök og að framlag þeirra til erfðafræðilegs fjölbreytileika í veröldinni er ómetanlegt. Okkur ber siðferðileg skylda til að vernda þau og að auki höfum við gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar þar um. Samkvæmt regluverki Samningsins um líffræðilega fjölbreytni er best ef hægt er að vernda húsdýrakyn með skynsamlegri nýtingu eins og hér er gert.
Íslensku stofnanir eru litlir og einangrunin veldur því að þeir hafa ekki komist í tæri við ýmsa sjúkdóma sem eru landlægir víða annars staðar. Þeir er því afar viðkvæmir gagnvart hvers konar sýkingum. Nýlegt dæmi er hrossapestin sem olli hér miklum búsifjum árið 2010 en talið er líklegt að hún hafi borist með notuðum reiðtygjum. 
 
1.000 stofnar horfið á einni öld
 
Allar tilraunir til innflutnings á sauðfé til kynbóta hafa valdið skaða vegna sjúkdóma sem bárust með innfluttu dýrunum. Skaðinn var stundum stórkostlegur og litlu hefur mátt muna að íslenska sauðfjárkynið þurrkaðist út. Hættan er raunveruleg, en samkvæmt FAO, Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, hafa um eitt þúsund búfjárkyn dáið út í heiminum á síðustu hundrað árum. Alþjóðadýraheilbrigðistofnunin (OIE) hefur í tæpa öld rannsakað og haldið utan um tölfræði um 119 dýrasjúkdóma í heiminum. Alls hafa 18 þeirra, eða 15%, fundist á Íslandi. En 101 þeirra, eða 85%, hefur aldrei orðið vart hér. Til samanburðar hafa a.m.k. 90, eða 76%, þeirra fundist á Spáni. Í Þýskalandi hefur a.m.k. 71, eða 60% þessara sjúkdóma fundist.
 
Hrátt kjöt er stór áhættuþáttur
 
Spánn og Þýskaland eru meðal þeirra ríkja þar sem mest er notað af breiðvirkum sýklalyfjum í landbúnaði í Evrópu og því miklar líkur á stökkbreyttum fjölónæmum bakteríum sem geta valdið óviðráðanlegum sjúkdómum. Nú þegar er flutt inn frosið kjöt hingað frá þessum löndum en frysting minnkar verulega líkurnar á því að sjúkdómar berist með innflutningnum. Samkvæmt tölfræði OIE brutust þeir sjúkdómar sem fylgst er með alls 6.879 sinnum út í heiminum árið 2016 (e. outbreaks). Tilfelli í Evrópu voru 5.595. Á Íslandi greindist eitt tilfelli í fyrra (riðuveiki í sauðfé). Ljóst er að dýrasjúkdómar breiðast út með ýmsum hætti, t.d. með flutningi á lifandi dýrum eða tækjum og áhöldum sem notuð eru við dýraeldi eða í matvælaiðnaði. Einn af áhættuþáttunum er flutningur á hráu kjöti. 
 
Eyríki sérstaklega viðkvæm
 
Mörg lönd, sérstaklega eyríki, beita ströngu regluverki til að vernda sína dýrastofna. Frægasta dæmið er líklega á Galapagos-eyjum en einnig má nefna Japan og Nýja-Sjáland sem er með mjög strangar hömlur á innflutningi matvæla og annarra dýraafurða – sérstaklega á hráu kjöti. Þar er fyrst og fremst verið að hugsa um möguleg áhrif á húsdýrastofna. Stjórnvöld og almenningur í þessum löndum gera sér grein fyrir því að berist nýir sjúkdómar til eyjanna getur það mögulega þýtt útdauða dýrategunda. Samfélagsleg og efnahagsleg áhrif gætu orðið mikil auk neikvæðra áhrifa á náttúru og líffræðilegan fjölbreytileika. 
 
Óafturkræf náttúruspjöll
 
Fæstir eru líklega á því núna að það sé góð hugmynd að virkja Gullfoss. Hugmyndafræðin gengur þó aftur. Sterk öfl eru þó enn á ný tilbúin að tefla einstakri íslenskri náttúru og erfðafræðilegri sérstöðu í tvísýnu. Þau klæða málflutning sinn í svipaðan búning viðskiptafrelsis og framfara eins og gert var í fossmálinu á síðustu öld. Innflutningur á hráu kjöti eykur verulega líkur á því að áður óþekktir dýrasjúkdómar berist hingað til lands. Engu máli skiptir þótt hægt sé að reikna sig niður á að líkurnar séu ekki miklar. Mótstaða innlendu búfjárkynjanna er ekki til staðar. Skaðinn gæti orðið mikill og hugsanlegt í versta falli að þau hreinlega þurrkist út. Fari svo verður ekki aftur snúið. Skynsamlegra væri að horfa heldur til landa eins og Nýja-Sjálands til að tryggja að við getum skilað einstæðri náttúru og erfðaauðlind Íslands til komandi kynslóða. 
 
Svavar Halldórsson framkvæmdastjóri Markaðsráðs kindakjöts og Icelandic lamb.
Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...