Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Aftur að tollum
Leiðari 29. janúar 2015

Aftur að tollum

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Nýkomin er út skýrsla atvinnuvegaráðuneytisins um tollvernd á landbúnaðarvörum, þróun hennar og möguleg sóknarfæri erlendis.  Í skýrslunni er greinargott yfirlit yfir milliríkjasamninga Íslands og hvernig álagningu tolla á innfluttar búvörur er háttað. 
 
  Þar getur munað miklu á milli þess sem heimilt er að leggja á og þess sem raunverulega er gert. Segja má að Ísland sé langt frá því að fullnýta álagningarheimildir í samningum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO). Í skýrslunni kemur líka fram að við flytjum mun meira inn af landbúnaðarvörum en við flytjum út. Árið 2013 nam verðmæti innflutningsins nærri 52 milljörðum  króna, sem er aukning um 10 milljarða frá 2010. Útflutningur búvara á sama tíma var 8 milljarðar, sem er aukning um einn milljarð frá 2010. Af því leiðir að vöruskiptajöfnuður okkar á landbúnaðarvörum var neikvæður um 44 milljarða árið 2013. Fyrir því þarf að afla gjaldeyris annars staðar frá.
 
Viðskiptasamningar Íslands sem fjalla eitthvað um búvöruviðskipti eru fjölmargir.  Þar er meðal annars áðurnefndur samningur við WTO, tvíhliða samningur við ESB og annar tengdur 19. gr. EES-samningsins, samningur vegna aðildar að EFTA,  fríverslunarsamningar við 35 ríki sem EFTA hefur gert og sérstakir tvíhliða samningar Íslands svo sem við Noreg, Færeyjar og Kína.
 
Ekki lokaður markaður
 
Oft er látið að því liggja að innflutningur búvara sé hér að mestu bannaður. Helst að einstöku sinnum sé leyft að flytja inn eitthvert smáræði, en þá undantekningalaust á ofurtollum.  En 52 milljarðar eru ekki smáræði. Markaðurinn er ekki lokaðri en svo að innflutningur á kjöti, sem nýtur tollverndar, hefur vaxið stórlega frá 2010. Markaðshlutdeild innflutts kjöts er orðin á bilinu 10–15% í kjúklinga-, svína- og nautakjöti. Reynt er í skýrslunni að leggja mat á umfang tollverndar, að meðtöldum gjöldum sem innflytjendur greiða fyrir tollkvóta, þegar þeir eru boðnir út. Niðurstaðan er að hún sé á bilinu 18–50% af innkaupsverði vörunnar erlendis að viðbættum flutningskostnaði (CIF verð) og greiðslum fyrir tollkvóta.  Hlutfallið af endanlegu söluverði er lægra þar sem við þetta verð á eftir að bæta heildsölu- og smásöluálagningu og virðisaukaskatti, en þeir þættir leggjast auðvitað líka á innlenda framleiðslu.
 
Stuðningsaðgerðir algengar um allan heim
 
Í skýrslunni er gerð ágæt grein fyrir hug­mynda­fræðinni að baki tollvernd sem ástæða er til að endurtaka hér:
„Í mörgum ríkjum eru lagðir á tollar til að jafna samkeppnisstöðu búvara gagnvart innflutningi. Skilyrði til framleiðslu landbúnaðarvara geta verið mjög mismunandi eftir löndum sem helgast m.a. af legu þeirra og náttúrulegum aðstæðum, sem og ýmsum efnaghagslegum skilyrðum. Til að jafna þennan mun hafa stjórnvöld einkum mætt þessu með tvennum hætti, þ.e. tollvernd og beinum stuðningi við framleiðendur. Slíkar stuðningsaðgerðir stjórnvalda eru sem fyrr segir algengar um heim allan og er landbúnaður án allra afskipta stjórnvalda vandfundinn. Stuðningur við landbúnað er mismikill og er oft meiri í löndum þar sem skilyrði til landbúnaðar eru lakari vegna veðurfars eða landfræðilegra aðstæðna. Auk þess eru ýmsar aðrar ástæður sem geta valdið því að framleiðendur geta illa keppt við erlenda samkeppni sérstaklega þegar kemur að framleiðslukostnaði. Algengt er að stjórnvöld veiti þá stuðning með það að markmiði að vernda fæðuöryggi og störf, en aðrar ástæður geta legið að baki t.d. verndun ákveðinna landsvæða og vara.“
 
Það sem hins vegar er ekki í skýrslunni er mat á þýðingu tollverndarinnar fyrir íslenskan landbúnað. Hún hefur veruleg áhrif á hvaða afurðir bændur eru tilbúnir að framleiða og þar af leiðandi á kjör þeirra í heild. Ekki er gerð tilraun til að áætla hvaða áhrif afnám hennar hefði. Það er miður, því full þörf er á að skoða þessa hagsmuni í heild.  Hvað erum við að tala um mörg störf tengd framleiðslu sem nýtur tollverndar? Hvaða áhrif erum við að tala um á byggðir landsins? Hvað þýðir þetta mikla gjaldeyrisþörf til viðbótar?
 
Og síðast en ekki síst: 
 Getum við til dæmis nýtt hana betur til að byggja upp fjölþættari innlenda framleiðslu?  Hvað getum við gert til að svara aukinni eftirspurn eftir nautakjöti og svínakjöti? Er tollverndin í dag líkleg til að stuðla að því að íslenskir bændur bregðist við aukinni eftirspurn og hafi jafnframt eðlilegt endurgjald fyrir vinnu sína? Hefur það verið skoðað í alvöru?  
 
Ekki gera ekki neitt auglýsir  stærsta innheimtufyrirtæki landsins og það á vel við hér. Auðvitað er eðlilegt að röksemdir fyrir tollverndinni hverju sinni séu ljósar – hvað erum við að vernda og til hvers?  En við getum líka spurt okkur að því hvort ekki sé þörf á að fara vel yfir þennan hluta landbúnaðarstefnunnar, setja þar skýrari stefnu, markmið og meta hvernig þeim verði best náð.  Tollverndin á einfaldlega að vera hluti af skilgreindu starfsumhverfi landbúnaðarins og þar af leiðandi hluti af samningum þar um.   Með því er alls ekki sjálfgefið að halda eigi áfram á þeirri braut að grafa undan tollverndinni og rýra verðgildi hennar – eins og einnig má lesa um í skýrslunni.
 
Að veifa fremur röngu tré en öngu
 
Sumir kjósa að nýta rangtúlkanir til að þjóna einhverjum málstað. Fyrir skömmu fréttu Bændasamtökin af því að Viðskiptaráð Íslands væri að láta gera könnun þar sem m.a. væri spurt um hvort að svarendum þætti rétt að Bændasamtökin fengju rekstrarstyrk á fjárlögum. Og í niðurstöðum könnunarinnar kom fram að meirihluti svarenda var mótfallinn því. Þetta væri eðlileg spurning ef Bændasamtökin fengju slíkan styrk. Það er alrangt eins og oft hefur verið leiðrétt.  Til að freista þess að leiðrétta það enn einu sinni, hafði ég samband við framkvæmdaaðila könnunarinnar og benti á að þarna væri verið að spyrja um hlut sem ætti sér ekki stað. Svarið var að þetta væri að vilja kaupanda könnunnarinnar og eins mætti alveg skilja spurninguna sem svo að hún snerist um hvort Bændasamtökin ættu að fara að fá styrk á fjárlögum þó það væri ekki þannig nú! Þeir sem vinna svona eru svo sannarlega tilbúnir að veifa frekar röngu tré en öngu. 
Auknar fjárveitingar til viðhalds varnarlína í Miðfjarðarhólfi
Fréttir 8. júní 2023

Auknar fjárveitingar til viðhalds varnarlína í Miðfjarðarhólfi

Fjárveitingar til viðhalds á tveimur varnarlínum sauðfjársjúkdóma milli Miðfjarð...

Nýr lausapenni
Fréttir 8. júní 2023

Nýr lausapenni

Umfangsmeira Bændablað kallar á mannafla og er Þórdís Anna Gylfadóttir nýr liðsf...

Dregur úr innlendri framleiðslu nautakjöts
Fréttir 8. júní 2023

Dregur úr innlendri framleiðslu nautakjöts

Samdráttur í nautakjötsframleiðslu nú er afleiðing lægra afurðaverðs árið 2021 a...

Eitt sýni jákvætt á Urriðaá
Fréttir 8. júní 2023

Eitt sýni jákvætt á Urriðaá

Nú er ljóst að eina staðfesta riðuveikitilfellið á Urriðaá í Miðfirði var í kind...

Ályktað um innflutning og upprunamerkingar
Fréttir 8. júní 2023

Ályktað um innflutning og upprunamerkingar

Aðalfundur Kaupfélags Skagfirðinga, sem haldinn var á Sauðárkróki þann 6. júní s...

Eftirmál riðuveiki
Fréttir 8. júní 2023

Eftirmál riðuveiki

Sauðfjárbændurnir á Urriðaá og Bergsstöðum í Miðfirði standa saman í erfiðum sam...

Óvissa um starfsemi BÍL
Fréttir 7. júní 2023

Óvissa um starfsemi BÍL

Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga (BÍL) lýsir yfir vonbrigðum með drátt ...

Vilja flytja út færeysk hross
Fréttir 6. júní 2023

Vilja flytja út færeysk hross

Til þess að bjarga færeyska hrossastofninum frá aldauða hefur komið til skoðunar...