Áframhaldandi gosvirkni
Talið að sprungan þar sem eldgosið hófst um miðnætti í Holuhrauni norður af Dyngjujökli sé ríflega 1 km að lengd. Gosið hefur verið rólegt í alla nótt, engin aska sést á radarmælingum og lítil hætta er talin á flóði.
ISAVIA hefur minnkað hættusvæði fyrir flug og lækkað það niður í 5000 feta hæð frá jörðu. Svæðið hefur einnig verið skilgreint sem haftasvæði sem þýðir að flug annarra en vísindaflug með flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, er bannað. Allir áætlunarflugvellir landsins eru opnir.
Lokanir norðan Vatnajökuls eru enn í gildi.