Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Það er meginatriði í orkustefnu ESB, að á sviði raforkuvinnslu skuli ríkja frjáls samkeppni. Fjórfrelsið skal ráða ríkjum í orkuvinnslu og orkuviðskiptum.
Það er meginatriði í orkustefnu ESB, að á sviði raforkuvinnslu skuli ríkja frjáls samkeppni. Fjórfrelsið skal ráða ríkjum í orkuvinnslu og orkuviðskiptum.
Skoðun 1. ágúst 2019

Afleiðingar hérlendis af orkustefnu ESB

Höfundur: Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur

Bjarni Jónsson.

Bændablaðið hefur ítarlegast allra prentmiðla hérlendra gert grein fyrir orkulöggjöf Evrópusambandsins (ESB), einkum tveimur síðustu lagabálkunum, OP#3 og OP#4. Orkupakkar ESB eru aðferð Sambandsins við að innleiða orkustefnu sína í aðildarlöndunum í áföngum (gúrkuaðferðin). Með stjórnarskrárígildinu, Lissabonsáttmálanum, 4. gr., frá 2009, fékk ESB heimild til að setja aðildarlöndunum sameiginlega orkustefnu. Hugmyndin var sú, að þannig yrðu ESB-ríkin betur í stakk búin að fást við orkukreppur, losun gróðurhúsalofttegunda af völdum raforkuvinnslu, sem nemur um helmingi heildarlosunar ESB-landanna, og eldsneytisþurrð, er fram í sækir.

Fyrsti orkupakkinn í kjölfar þessarar stefnumörkunar var OP#3.  Hann inniheldur bæði OP#1 og OP#2 með breytingum og miklum viðbótum. Meginnýjungin er sú, að stofnað var til sameiginlegrar orkustofnunar ESB, ACER, sem framfylgja skal orkustefnu ESB í hverju landi, og skal hvert aðildarland setja á laggirnar embætti Landsreglara (National Energy Authority), sem fer með æðsta vald í orkumálefnum hvers lands, en vera samt algerlega óháð rétt kjörnum yfirvöldum og stofnunum í landinu og vera undir stjórn ACER með ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sem millilið fyrir EFTA-löndin. 

Annað aðalhlutverk ACER er að efla millilandatengingar fyrir raforku og jarðgas, fjölga línum, sæstrengjum og gaslögnum, svo að flutningsgetan á milli landa nemi 30 % af heildarorkunotkun svæðisins, sem er þreföldun á núverandi flutningsgetu. Þetta er til að bæta nýtingu fjárfestinga í orkuvinnslunni, draga úr hættu á staðbundnum orkuskorti, greiða fyrir orkuskiptum og jafna orkuverðið innan ESB. Hið síðasta hefur borið verulegan árangur, hækkað verðið, þar sem það var lægst, og lækkað það, þar sem það var hæst.  Segja t.d. Svíar farir sínar ekki sléttar í því sambandi, en þar hefur raforkuverð hækkað yfir 50%, frá því að Landsreglari Svíþjóðar tók til starfa, og orkuráðherra landsins hefur ekki fengið rönd við reist.     

Raforkuvinnslan og  íslenzki markaðurinn:

Það er meginatriði í orkustefnu ESB, að á sviði raforkuvinnslu skuli ríkja frjáls samkeppni. Fjórfrelsið skal ráða ríkjum í orkuvinnslu og orkuviðskiptum. Það þýðir, að öll raforkuvinnslufyrirtæki innan EES skulu hafa jafnan rétt til að eignast og reka orkuver alls staðar í EES-löndunum. Ríkið má á engan hátt mismuna á þessum markaði, t.d. með því að veita ríkisfyrirtækjum einhvers konar forréttindi eða umbun umfram önnur.  Þess vegna er ríkisrekstur á þessu sviði illa þokkaður af Framkvæmdastjórninni og ESA, eins og bezt sést af langvinnri deilu á milli Framkvæmdastjórnarinnar og ríkisstjórnar Frakka út af vatnsréttindum fyrir hundruði virkjana þar í landi og af þeim deilum, sem nú eru í uppsiglingu á milli ESA og ríkisstjórna Noregs og Íslands. Allar þessar deilur verða sennilega útkljáðar fyrir dómstólum ESB og EFTA.  Þar ríkir Evrópuréttur ofar öðru.

Hver er skýringin á þessum mikla áhuga Framkvæmdastjórnarinnar á að reka ríkið út af vellinum sem eignaraðila vatnsorkuvera, en amast t.d. ekki við eignarhaldi ríkisins á jarðgufuverum eða kjarnorkuverum að svo stöddu? Skýringarinnar er að leita í orkuskiptunum, sem eru mikið áhyggjuefni innan ESB um þessar mundir. Vindmyllur leika stórt hlutverk í orkuskiptaáformum á meginlandi Evrópu, framleiða nú 13% raforkunnar í ESB og eiga að framleiða 28 % árið 2030 samkvæmt markmiði um hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda þar á bæ.  Á meginlandinu geta vindmyllur aðeins framleitt á fullum afköstum um 30% af tímanum, og ef lægir á álagstíma, þarf að ræsa gaskynt orkuver til að anna eftirspurninni. Hugmyndafræði ESB til að bæta úr þessu á umhverfisvænan hátt er að nýta í staðinn vatnsorkuver í þessu skyni, en til þess þarf að 2-3 falda aflgetu þeirra, þ.e. að stækka gamlar virkjanir án þess að stækka miðlunarlónin að ráði, útbúa nýja vatnsvegi að viðbótar hverflum, tengja við þá nýja rafala og setja upp alveg nýtt rafkerfi fyrir þetta nýja afl.  Þetta krefst gríðarlegra fjárfestinga, og einkamarkaðurinn á að koma með það inn í geirann.  Einkaframtakið á að verða brimbrjótur ESB í orkuskiptunum og ný og stækkuð vatnsorkuver að brúa bilið á milli framboðs og eftirspurnar á afli á daginn, ef vind vantar, en að næturlagi er ætlunin, að þessi stækkuðu vatnsorkuver safni vatni í staðinn.   

Samkvæmt orkustefnu ESB á raforkuvinnslan að verða markaðsstýrð.  Það þýðir, að hún ræðst af því, að orkuverðið, sem um semst á hverri klukkustund í orkukauphöll, sé hærra eða jafnt og verðið, sem framleiðandinn bauð.  Framleiðandinn í þessu kerfi hefur aðeins þá stefnu að hámarka tekjur sínar til skamms og meðallangs tíma, t.d. næstu 5 árin.  Hann varðar ekkert um það, hvort vatn verður í miðlunarlónunum hans næstu vikurnar, ef salan er góð í þessari viku, því að vatnsafgangur í lóni eftir vetur er töpuð orkusala.  Þetta markaðsstýrða orkuvinnslukerfi setur afhendingaröryggi raforku í uppnám, og það viðheldur seljendamarkaði, því að hvatinn til að virkja, þ.e. hærra verð, kemur of seint fyrir íslenzkar aðstæður, þar sem aðdragandi virkjunar er u.þ.b. þrefalt lengri en erlendis í flestum tilvikum. 

Vatnsorkuver eru sveigjanleg í rekstri með hárri nýtni og auðstýranleg frá litlu álagi upp í fullt álag, en jarðgufuver eru viðbragðssein,  tregstýranleg, og nýtnin er mjög háð álagi og hæst við hátt álag.  Jarðgufuverin standast ekki vatnsorkuverum snúning á frjálsum markaði, þegar nóg vatn er í miðlunarlónum, en verða að miklu haldi, þegar hilla tekur undir vatnsskort. Markaðsstýrt vinnslukerfi freistar eigendanna til að ofnýta virkjað gufuforðabúr með of miklu uppsettu vélaafli, sem þýðir hraða rýrnun jarðgufuforðans, sem getur tekið áratugi að vinna upp aftur. 

Markaðsstýrt orkuvinnslukerfi að hætti ESB í OP#3-4 hentar þannig íslenzkum neytendum afleitlega.  Það eru fullkomin öfugmæli, að þetta fyrirkomulag feli í sér bætta neytendavernd.  Það mun fela sér stórhækkað raforkuverð og neytendaáþján án sæstrengstengingar við Innri markaðinn, og eftir slíka tengingu mun raforkuverð til íslenzkra neytenda nálgast evrópskt raforkuverð, og farið verður að stugga við fyrirtækjum með langtímasamninga um raforkuviðskipti, því að ESB vill, að öll raforkuviðskipti á heildsölumarkaði fari fram í orkukauphöll. Öll ríkisafskipti af raforkuverði verða bönnuð, og samkeppnisforskot íslenzkra atvinnufyrirtækja mun hverfa eins og dögg fyrir sólu.  Þetta óhefta markaðskerfi Evrópusambandsins er gjörsamlega óbrúklegt á Íslandi. 

Hvað er þá til ráða? Það verður að hafna OP#3, svo að ráðrúm gefist til að semja um undanþágur í Sameiginlegu EES-nefndinni fyrir orkulindastýrt vinnslukerfi raforku, og auk þess viljum við ekki afskipti ESB/ESA af úthlutun afnotaréttar af orkulindum, og þar með að missa innlent forræði orkulindanna og helztu virkjana. Hér þarf að stofna til embættis orkulindastjóra, sem fái lagaheimildir til að stjórna vatnstöku úr öllum helztu miðlunarlónum landsins með svipuðum hætti og Landsvirkjun gerir núna fyrir sín lón til að lágmarka hættu á orkuskorti áður en leysingar hefjast að vori. Orkulindastjóri skal jafnframt hafa að stefnumiði að hámarka orkuvinnslu hverrar virkjunar til langs tíma. Til að draga úr hættu á aflskorti í landinu þarf orkulindastjóri jafnframt að geta með lögvörðum hætti beitt sér til að setja af stað undirbúning að virkjunum með fjárhagslegum hvötum og þvingunarúrræðum, ef nauðsyn krefur að hans mati, til að koma í veg fyrir aflskort á næstu árum.  Að vinna þannig gegn afl- og orkuskorti í landinu er í hag neytenda, því að slíkar ráðstafanir eru til þess fallnar að halda raforkuverði í skefjum á frjálsum markaði og koma í veg fyrir stórfellt þjóðhagslegt tap. Bæta má við, að skaplegt raforkuverð er forsenda þess, að orkuskipti, sem eru ofarlega á stefnuskrá stjórnvalda, gangi snurðulaust. 

Utanlandsstrengur og Evrópumarkaðurinn:

Eftir innleiðingu OP#3 og síðari gerða hérlendis mun ESB hafa töglin og hagldirnar um lagningu aflsæstrengs til Íslands, sé áhugi þar á bæ fyrir slíku á annað borð. Slík tenging, t.d. á milli Íslands og Írlands, ef Bretland fer úr ACER við útgönguna úr ESB, fellur vel að orkustefnu ESB, og einkaaðilar hafa lýst yfir áhuga á að fjárfesta í aflsæstreng hingað. Edmond Truell, fjárfestir, hefur að vísu rekið áróður á Englandi fyrir Íslandsstreng til Norð-Austur-Englands, þar sem hann boðar mikla atvinnuuppbyggingu í tengslum við slíkan streng. 

ESB ætlar að leggja höfuðáherzlu á vindorkuver við orkuskiptin. Það er hins vegar ekki hægt að reiða sig á vindorkuver alltaf á álagstímum, svo að til reiðu þarf að vera aflgjafi með skömmum fyrirvara.  Gasorkuver þjóna þessu hlutverki bezt allra eldsneytisknúinna orkuvera, og kjarnorkuver og jarðgufuver eru svifasein og þurfa helzt að ganga á jöfnu álagi, grunnálagi. Vatnsorkuver eru hins vegar alveg kjörin til þess að fylla í skarð vindmyllanna, þegar lægir á álagstímum, vegna viðbragðsflýtis og sveigjanleika í rekstri, en til að muni nægilega um þau við að fylla í skarð vindmyllanna, þarf að auka aflgetu þeirra verulega.  Þetta á sérstaklega við á Íslandi, þar sem þau þurfa líka að anna grunnálagi. Hér gæti orðið áhugi fyrir allt að þreföldun uppsetts vélarafls. 

Hér er þá komin skýringin á því, hvers vegna framkvæmdastjórn ESB og spegilmyndin EFTA-megin, ESA, leggja höfuðáherzlu núna á einkavæðingu vatnsorkuvera í EES. Það er til þess að fá aukið fjármagn inn í þennan geira og fjárfestingarvilja til að stækka vatnsorkuverin gríðarlega að vélarafli, þótt miðlunargetan verði ekki aukin mikið.  Þar með er reiknað með, að vatnsorkuverin geti hlaupið undir bagga á álagstímum, þegar vindmyllurnar bregðast, og síðan verði vatn sparað á móti, með því að draga úr álagi vatnsorkuveranna, þegar vindur blæs á ný. Markaðurinn á að stjórna hegðun virkjunareigenda.  Þeir munu fá greitt vel fyrir þjónustu sína við toppálagið, svo að fjárfesting þeirra verði arðsöm og það borgi sig fyrir þá að spara vatn til að anna næstu toppum.

Þessi rekstrarháttur hentar illa á Íslandi vegna umhverfisins. Tiltölulega mikið stóriðjuálag hérlendis skapar núna mikinn stöðugleika álags og rennslis allt árið um kring.  Það er mikill kostur, einnig fyrir nýtingu mannvirkjanna. Sveiflukennt álag, eins og hér um ræðir, mun valda usla í lífríkinu, flóðahættu að vetri og hættu fyrir fólk og skepnur, sem stödd eru í á eða nærri árfarvegi.  Seiði og önnur dýr í ám og þverlækjum geta skyndilega lent á þurru landi, og botnstingull getur myndazt og stíflað virkjanainntök, klakar myndað stíflur, sem auka landbrot og geta valdið skaðlegum stórflóðum. 

Ef Alþingi hleypir ACER hér inn á gafl með Landsreglara sinn sem æðsta yfirmann orkumála á Íslandi, en algerlega óháðan innlendum stjórnvöldum og hagsmunaaðilum, þá verður orkumálum hér ekki stjórnað með innlenda hagsmuni að leiðarljósi, ef þeir stangast á við hagsmuni ESB, eins og ACER metur þá.  Þetta verða Alþingismenn og aðrir að gera sér fyllilega ljóst í tæka tíð.  Það er of seint að vera vitur eftir á.

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Mismunur bændum í óhag
5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Þjóðarréttur Íslendinga
4. desember 2024

Þjóðarréttur Íslendinga

Baldur Högni
4. desember 2024

Baldur Högni

Tildra
4. desember 2024

Tildra