Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Afkvæmarannsóknir  í sauðfjárrækt 2016
Mynd / smh
Á faglegum nótum 27. janúar 2017

Afkvæmarannsóknir í sauðfjárrækt 2016

Höfundur: Eyþór Einarsson, ábyrgðamaður í sauðfjárrækt hjá RML
Gerðar voru upp afkvæmarannsóknir á 82 búum  sem uppfylla skilyrði fagráðs í sauðfjárrækt sem styrkhæfar afkvæmarannsóknir. Alls eru 844 hrútar prófaðir og þar af 518 veturgamlir.  Markmiðið með þessari vinnu er, eins og flestir bændur þekkja, að stuðla almennt að nákvæmara úrvali fyrir skrokkgæðum, að stuðla að því að veturgamlir hrútar séu metnir út frá afkvæmadómi og að auka notkun á lambhrútum.  
 
Þá eru ómmælingarnar besta leiðin í dag til að bæta raunveruleg skrokkgæði með mælingu á einum dýrmætasta vöðva skrokksins og styrkurinn fyrst og fremst til að koma á móts við vinnu sem það felur í sér.  Þátttakan í ár er næstum helmingi meiri en í fyrra og skýrist það að hluta af breyttum skilyrðum um lágmarksfjölda veturgamalla hrúta, en þau voru lækkuð úr 5 hrútum í 4 og síðan aukinni eftirfylgni ráðunauta gagnvart því að rannsóknirnar séu unnar.  Mest þátttaka í afkvæmarannsóknum var í Strandasýslu, Dalasýslu og Skagafirði þar sem 9 til 10 bú ná að uppfylla skilyrðin.   
 
Yfirburðahrútar eru mjög verðmætir
 
Í meðfylgjandi töflu eru listaðir upp þeir hrútar sem ná 120 stigum eða hærra í heildareinkunn. Heildareinkunnin er meðaltal einkunna fyrir þá þrjá þætti, en þær byggja á fallþunga, líflambamati og kjötmatsniðurstöðum. Einkunnir byggja á frávikum hrútanna frá meðaltali afkvæmarannsóknar á viðkomandi búi og því er hæpið að bera heildareinkunn þeirra saman milli búa.  Hrútar sem sýna mikla yfirburði eru að sjálfsögðu mjög verðmætir fyrir viðkomandi bú og oft eru þetta hrútar sem jafnframt gætu átt erindi sem sæðingastöðvahrútar. Gjarnan er þá reynt að prófa hrútana frekar í sérstökum afkvæmarannsóknum fyrir úrvalshrúta á viðkomandi svæði. Mjög jafnar niðurstöður geta þýtt að enginn hrútur sé afgerandi góður eða enginn afgerandi slæmur. Því má t.d. ætla að ólíklegra sé að hrútar sýni mikið útslag í rannsókn þar sem úrvalshrútum hefur verið safnað saman.
 
Saumur á flesta hrúta í afkvæmarannsóknum
 
Sá hrútur sem á langflesta (38) hrúta í afkvæmarannsóknum er Saumur 12-915 frá Ytri-Skógum.  Þá er allstór hópur undan Hvata 13-926, Sprota 12-936, Bósa 08-901, Bekra 12-911, Kölska 10-920 og Tjaldi 11-922. Sé hinsvegar skoðaðir feður hrúta sem ná 110 eða hærra í heildareinkunn eru þeir Saumur 12-915 og Hvati 13-926 atkvæðamestir.  
 
Sá hrútur sem mest útslag gerði í haust heitir Dúddi 14-699 til heimils að Hlíð í Hörðudal. Hrútur þessi var fenginn frá Ósi við Akranes, en er í móðurætt frá Oddstöðum í Lundarreykjardal og í föðurætt rekur hann sig til Kvists 07-866 frá Klifmýri. Dúddi sýnir geysilega yfirburð á búinu hvað varðar holdfyllingu og þroska lamba sem skilar honum þessari háu einkunn.  Í þessum samanburði eru 12 hrútar og ríflegur fjöldi lamba að baki hverjum þeirra, sem styrkir þennan dóm. Á Ketilseyri í Dýrafirði voru 9 hrútar í samanburði. Þar er einnig tveggja vetra hrútur sem stendur á toppnum, Frosti 14-052. Hann var líka afgerandi hæstur á Ketilseyri haustið 2015 og sannar því aftur yfirburði sýna sem felast í geysilega góðri holdfyllingu, þykkum bakvöðva og hóflegri fitu. Frosti er sonur Guðna 09-902 frá Mýrum 2 og í móðurætt má rekja ættir í Tengil 05-830 frá Brekku og Bifur 06-994 frá Hesti.  Þriðji efsti hrúturinn á listanum er frá Hróðnýjarstöðum í Laxárdal, Ylur 14-522. Ylur er út af Svala 10-862 frá Melum í föðurætt og Spak 03-976 frá Broddanesi í móðurætt. Á síðasta ári skipaði Ylur annað sætið í afkvæmarannsókn búsins en þá stóð faðir hans Illur 12-532 efstur.  
 
Nánari umfjöllun um niðurstöður afkvæmarannsókna verður aðgengileg inni á www.rml.is þar sem undirritaður, ásamt Árna B. Bragasyni, gera niðurstöðum frá hverju búi skil.
 
 
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...