Afkomuvöktun og ráðgjöf í búrekstri útvíkkuð
Atvinnuvegaráðuneytið og RML gera breiðari samning um afkomuvöktun og ráðgjöf í búrekstri fyrir árin 2025–2026.
Atvinnuvegaráðuneytið hefur gert samning við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins um afkomuvöktun og ráðgjöf í búrekstri fyrir árin 2025-2026. Markmið samningsins er skv. frétt ráðuneytisins að þróa rekstrargreiningar og viðhalda þeim, og bæta hagtölusöfnun. Jafnframt á að efla rekstrar- og loftslagsráðgjöf til bænda og tryggja afkomuvöktun sem nýtist stjórnvöldum og atvinnugreininni til ákvarðanatöku og stefnumótunar.
Verkefnið mun byggt á fyrri samstarfsverkefnum ráðuneytisins og RML, sem beindust að söfnun og greiningu rekstrargagna frá sauðfjárbúum, auk eflingar rekstrarráðgjafar og þróunar leiða til bættrar afkomu. Samkvæmt samningnum verður verkefnið útvíkkað og nær þannig til fleiri búgreina. Það samræmist stefnu stjórnvalda eins og hún birtist í aðgerðaáætlunum landbúnaðarstefnu og loftslagsmála. Þekking og reynsla sem aflað hefur verið í gegnum verkefnið nýtist jafnframt í tengdum verkefnum, þar á meðal Loftslagsvænum landbúnaði.
Með samningnum er lögð áhersla á að veita bændum heildstæða ráðgjöf sem sameinar búrekstrar- og loftslagsþætti. Slík samþætt nálgun stuðlar að betri nýtingu aðfanga og getur þannig leitt til bættrar afkomu í búrekstri.
