Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Selá í Selárdal.
Selá í Selárdal.
Fréttir 25. júní 2018

Ætti að vera í lögum að banna erlendum aðilum fjöldakaup á jörðum á Íslandi

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Jóhannes Sigfússon, bóndi á Gunnarsstöðum í Þistilfirði, lýsir miklum áhyggjum sínum yfir uppkaupum auðmanna á bújörðum og yfirtöku veiðifélaga. Hann telur að það eigi að takmarka jarðakaup útlendinga með lögum.

„Það ætti auðvitað að vera í lögum að erlendum aðilum verði bannað að eiga hér meira en eina eða tvær eignir. Erlendis eru svona uppkaup jarða bönnuð. Á fundinum spurði ég menn líka hvort þeir hefðu ekki áhyggjur af því hvaða áhrif þetta hefði á veiðifélögin. 

Varðandi hlutafélög þá gilda þær reglur að þegar menn eru komnir með 40% hlutafjár þá myndast innlausnarskylda gagnvart öðrum eigendum sem fá þá allir sama verð og viðkomandi keypti á. Í veiðifélögum gilda engar slíkar reglur. Ef menn eru komnir með meirihluta í veiðifélagi, þá ráða þeir bara öllu og geta í raun farið með þessi réttindi eins og þeim sýnist. Þar með er því búið að verðfella þá sem vilja eiga sína hluti áfram.  Eins og dæmin sanna þá eru þessir meirihlutaeigendur bara að leigja sjálfum sér árnar. Það er ekkert sniðugt ef menn ætla þannig að fara að taka margar laxveiðiár út af opnum markaði með veiðileyfi,“ segir Jóhannes.

Tugir jarða í hendur auðmanna

Það er svo sem ekkert nýtt að auðmenn kaupi jarðir á Íslandi, en tíðindi að á allra síðustu árum séu þeir að sölsa undir sig heilu landshlutana, án þess að löggjafinn virðist hafa neitt um það að segja til að tryggja framtíðarrétt Íslendinga sjálfra. Þannig hefur Jóhannes Kristinsson, sem kenndur var við Fons og Iceland Express, verið umsvifamikill í landakaupum í Vopnafirði. Samtals munu Jóhannes og Ratcliffe þegar árið 2016 hafa átt meirihluta í félögum sem eiga að hluta eða í heild í 23 af um 70 jörðum í Vopnafirði. Síðan hefur James Ratcliffe stöðugt verið að færa sig upp á skaftið í jarðakaupum.

Eignir upp á þúsundir milljarða

James Ratcliffe er ekkert smápeð í fjármálaheiminum. Hann er sagður ríkasti maður Bretlands eftir að nettóeignir hans jukust úr 15 í 21,05 milljarða punda á síðasta ári, eða sem svarar til rúmlega 3 þúsund milljarða íslenskra króna. 

Þessi 65 ára gamli Breti er númer 78 á lista Forbes yfir ríkustu menn heims en hann komst fyrst í milljarðaklúbbinn árið 2007. Það hefur farið fyrir brjóstið á mörgum að breska drottningin hafi slegið hann til riddara. Er hann m.a. gagnrýndur fyrir deilur við námuverkamenn í Skotlandi  meðan hann sólaði sig á 18 milljarða króna lystisnekkju sinni í Miðjarðarhafi. Þá segir Daily Record að hann hafi áhuga á risaframkvæmdum í Skotlandi til að vinna olíu úr berglögum, án nokkurs tillits til umhverfisáhrifa.
Ratcliffe er stjórnarformaður og stærsti eigandinn í efna­fyrirtækjakeðjunni Ineos Group, sem framleiðir allt frá olíu og plasti til lausna við framleiðslu á insúlíni og sýklalyfjum.

Hann hefur líka verið að gera sig gildandi í olíuvinnslu úr sandsteinslögum og á m.a. gasflutningaskipafélagið Dragon Ships. Það á m.a. 186 metra langt gasflutningaskip sem var það fyrsta til að flytja gas úr slíkum sandsteinslögum í Bandaríkjunum til Evrópu.

Bakgrunnurinn að þessari auðsöfnun var að sögn Forbes þegar Ratcliffe veðsetti húsið sitt 1992 til að kaupa efnaframleiðsluhluta breska olíufélagsins BP. Sex árum seinna keypti hann verksmiðju sem var grunnurinn að  fyrirtækinu Ineos.

Ævintýramaðurinn Ratcliffe

Ratcliffe er ævintýramaður og hefur komið bæði á Suður- og Norðurpólinn og tók þátt í mánaðarlangri mótorhjólaferð um Suður-Afríku árið 2015. Fyrirtæki hans, Ineos, hefur líka komið víða við sögu, á m.a. svissneska knattspyrnufélagið Lausanne, breska tískumerkið Belstaff og hefur á stefnuskrá sinni að framleiða arftaka Landrover Defender jeppans.

Ratcliffe hefur verið að kaupa jarðir víðar en í Vopnafirði og við Jökulsá á Fjöllum. Þannig hefur hann m.a. verið að ásælast jarðir í Þistilfirði. Það er augljóst að hann á næga fjármuni til að kaupa hér upp stóra hluta landsins ef hann hefði hug á og ef það stæði til boða. Eins og Jóhannes bendir á er ekkert í íslenskum lögum sem getur komið í veg fyrir slíkt.

Skylt efni: landauppkaup

Innlit í kjúklingabú
Fréttir 2. júní 2023

Innlit í kjúklingabú

Kjúklingabændurnir Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson á Vatns...

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda
Fréttir 2. júní 2023

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda

Sauðfjárbóndinn Jónas Þórólfsson og kjötiðnaðarmeistarinn Rúnar Ingi Guðjónsson ...

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...

Ferðamenn sækja í skóga
Fréttir 1. júní 2023

Ferðamenn sækja í skóga

Stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi harmar framkomnar órökstuddar fullyrðinga...

Ártangi til sölu
Fréttir 31. maí 2023

Ártangi til sölu

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hafa sett garðyrkjustö...

Skýr afstaða í könnun
Fréttir 31. maí 2023

Skýr afstaða í könnun

Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjá...

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun
Fréttir 31. maí 2023

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun

Ágúst Sigurðsson á Kirkjubæ á Rangárvöllum hefur nýlega tekið við starfi fagstjó...