Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ærin Sarabía í Húsavík á Ströndum bar sex sprækum lömbum
Líf&Starf 7. júní 2016

Ærin Sarabía í Húsavík á Ströndum bar sex sprækum lömbum

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Bændurnir Hafdís Sturlaugs­dóttir og Matthías Sævar Lýðsson í Húsavík í Steingrímsfirði á Ströndum upplifðu einstakan atburð þann 5. maí síðastliðinn þegar ærin þeirra, Sarabía, bar sex lömbum og öllum lifandi. Afar sjaldgæft er að slíkt gerist hér á landi.
 
„Þetta gekk vel,“ sagði Hafdís í samtali við Bændablaðið en um var að ræða þrjú hrútlömb og þrjár gimbrar. „Þau voru öll spræk þegar þau komu í heiminn.“
 
Hún telur að þetta kunni að einhverju leyti að skýrast af því að þau eru með fé í sínum stofni sem hafa svokallað Þokugen sem veldur ofurfrjósemi. Sarabía ber númerið 13-308. Foreldrar hennar eru Dolli (09-892) sem var á sæðingarstöð og kom frá Ragnari Bragasyni, bónda á Heydalsá á Ströndum, og móðirin er Klukka (11-134) heimaalin í Húsavík.
 
Ber nafn teiknimyndastjörnu
 
Nafnið Sarabía á ánni sem eignaðist sexlembingana þykir sérstakt. Það var barnabarn þeirra Hafdísar og Matthíasar sem gaf henni nafnið. Hann heitir Ingvar Þór Pétursson (5 ára) og nefndi hann kindina eftir teiknimyndapersónu í Konungi ljónanna. Hafdís segir að Sarabía sé afar gæf og komi rakleitt til þeirra til að láta klappa sér ef þau stoppa við garðann þar sem hún er.
 
Mikil frjósemi hjá fénu í Húsavík
 
„Það er góð frjósemi í stofninum og töluvert af þrílembum og fjórlembum í gegnum tíðina. Við höfum áður fengið fimm lömb, en þá var eitt lambið dautt, en við höfum aldrei áður fengið sex lömb í einu og öll lifandi og spræk. Við erum búin að venja fjögur lömb undan móðurinni undir aðrar ær svo hún er bara með tvö núna.“
 
Þau hjón eru með um 450 fjár og var búist við að burði á bænum lyki um nýliðna helgi. Megnið er tvílembt, en einar fjórar fjórlembdar. Hafdís segir að það hafi verið beitt sónar á féð til að kanna hvað ærnar voru með mörg lömb. Þá hafi sést með góðu móti fjögur lömb hjá sexlembunni, en talningamaður þorði ekki að segja til um hvort það væru fleiri. 
 
Burðurinn gekk vel
 
„Við reyndum bara að gera vel við fleirlemburnar okkar og það lukkaðist vel þó ekki hafi öll lömbin verið   mjög stór,“ segir Hafdís. Við slíka lambamergð í einni kind mætti ætla að burður gengi illa. Slíkt var þó ekki raunin. 
 
„Við stóðum yfir henni meðan hún bar, en hún skilaði lömbunum öllum skammlaust án hjálpar. Eitt eða tvö komu þó á afturfótunum, en öll hin á eðlilegan hátt.“
 
Mikið kal í túnum
 
Þegar burði lýkur bíða önnur viðamikil störf þeirra hjóna á Húsavíkurbúinu. Hafdís segir að tún þar um slóðir séu víða illa kalin. 
 
„Kalið er mikið og hefur ekki verið meira síðan á kalárunum í kringum 1970. Hjá okkur eru að minnsta kosti 9 hektarar mjög illa farnir. Ekki er víst að allt verði endurræktað. Núna er búið að vinna upp 6 hektara sem voru rifnir upp í fyrra. Gert er ráð fyrir að sá þar rýgresi. Beðið er eftir úttekt til að sjá hve mikið í viðbót verði unnið upp.
 
Framleiðsla beint frá býli nýtur mikilla vinsælda
 
Það er meira en sauðfjárræktin sjálf sem stunduð er í Húsavík, því þar er einnig kjötvinnsla sem gott orð fer af. Þar fullvinna þau sitt eigið kjöt og selja.
 
„Við vinnum um 25% af kjötframleiðslunni á bænum hér heima og seljum afurðirnar hér á svæðinu. Við slátrum öllu okkar fé á Blönduósi og hefur verið afar gott að eiga stjórnendur og starfsmenn þar. Þeir eru afskaplega liðlegir og láta skrokkana hanga eftir okkar óskum.
 
Við sjáum svo veitingahúsinu Café Riis á Hólmavík, sem er mjög flott veitingahús, fyrir öllu lambakjöti. Er því haldið á lofti þar hvaðan kjötið kemur. Réttirnir eru merktir beint frá býli og undir slagorðunum Veisla að vestan. Þá erum við að vinna að því að þau geti fengið nýja upprunavottunarmerkið frá Landssamtökum sauðfjárbænda þar sem veitingakonan er með svo marga rétti frá okkur.“
 
Segir Hafdís að mikið sé spurt um framleiðsluna, einkum af útlendingum, og hvort kjötið sé af svæðinu. Auk þess að sjá frú Báru  Karlsdóttur á Café Riis fyrir kindakjöti, þá selja þau einnig kjöt til Stellu Guðmundsdóttur hjá ferðaþjónustufyrirtækinu í Heydal við Ísafjarðardjúp og líka til veitingahússins á Laugarhóli. 
 
„Þetta hefur gengið vonum framar. Svo höfum við verið að kynna okkar vörur í Hörpunni í Reykjavík og höfum selt víðar.“
 
Hafa ekki undan að framleiða „Lostalengjur“
 
Aðallinn okkar í framleiðslunni er þó „Lostalengjur“. Það er aðalbláberjamarínerað ærkjöt eða ærvöðvar sem eru lítils háttar reyktir og síðan þurrkaðir. Þetta er eins konar þurrskinka. Þetta erum við búin að vera með í ein átta ár og vorum í þróunarverkefni með þetta með MATÍS. Við höfum svo þróað þetta frekar og betrumbætt framleiðsluna. Núna erum við komin á gott ról með þessa framleiðslu og varan selst út úr höndunum á okkur jafn óðum og við framleiðum. Við höfum bara ekki nægan tíma afgangs til að geta framleitt nógu mikið.“
 
Ná auknum virðisauka út úr eigin framleiðslu
 
− Hvernig er svona heimavinnsla að koma út, er þetta að borga sig?
„Ég held að við séum alveg að fá fyrir okkar vinnu. Við fáum virðisaukann sem skapast með heimaframleiðslunni. Líka það að geta boðið upp á afurðir úr héraði, það finnst mér skipta miklu máli.“
Eiginmaðurinn Matthías Sævar Lýðsson er frá bænum Húsavík þar sem foreldrar hans bjuggu áður og ættmenni hans hafa verið þar í fimm ættliði. Tóku Matthías og Hafdís alfarið við búskapnum um 1990. Fyrir utan að sinna bústörfum er Hafdís sérfræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða og sinnir þar gróðurrannsóknum og fleiru frá starfstöð sinni á Hólmavík.
 

Sexlembingar afsprengi ofurfrjósemi vegna þokugens í sauðfé

Dr. Ólafur R. Dýrmundsson, sjálfstætt starfandi ráðunautur, segir að sexlembingarnir í Húsavík séu ekki einstakt fyrirbæri en slíkur burður sé mjög sjaldgæfur.
 
„Venjulega er um að ræða ær með Þokugenið sem leiðir til þess að fleiri egg losna og frjóvgast en í öðru fé. Mætti kalla ofurfrjósemi,“ segir Ólafur.
 
„Fyrsta tilvikið sem mér er kunnugt um var ærin Stóra-Kolla frá Stórulág í Hornafirði en ærin sem genið er kennt við hét Þoka frá Smyrlabjörgum í Borgarhafnarhreppi hinum forna í Austur- Skaftafellsssýslu. Þeir dr. Jón Viðar Jónmundsson og dr. Stefán Aðalsteinsson hafa einkum rannsakað og skrifað um Þokufé og hvernig Þokugenið var uppgötvað. 
 
Árið 2008 sýndu dr. Stephen C. Bishop og samstarfmenn hans fram á að um stökkbreytingu væri að ræða, en í Edinborg í Skotlandi og Aberystwyth í Wales voru ræktaðir blendingar með sæði úr tveim íslenskum hrútum, Skúm 81-844 og Þristi 83-836, sem sent var til Edinborgar haustið 1985.“
Frá þeim útflutningi var m.a. greint í myndskreyttri grein í Frey, 13.–14. tbl. 1990 eftir dr. Ólaf R. Dýrmundsson, en hann skoðaði blendingslömbin, bæði í Edinborg og Aberystwyth, um mánaðamótin ágúst/september 1986. Niðurstöður dr. Stephen og samstarfsmanna voru byggðar á Edinborgargögnunum þar sem unnið var með Cheviot-fé.
 
Stóra-Kolla, sem var uppi um og upp úr 1980, var venjulega þrí- eða fjórlembd. Hún fóstraði sjálf tvö af lömbunum en hin fjögur voru vanin undir aðrar ær. Öll lifðu og voru falleg um hausið. Mynd af henni með lömbin sex um haustið er m.a. á bls. 111 í minningarriti um dr. Halldór Pálsson frá 1989 í grein eftir þá dr. Jón Viðar og dr. Stefán (Reproduction, Growth and Nutrition in Sheep). Ritinu ritstýrðu dr. Ólafur R. Dýrmundsson og dr. Sigurgeir Þorgeirsson.

 

10 myndir:

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...