Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Skýrsluhöfundar, Haraldur Benediktsson og Páll Jóhann Pálsson, með skýrsluna sem afhent hefur verið iðnaðarráðherra.
Skýrsluhöfundar, Haraldur Benediktsson og Páll Jóhann Pálsson, með skýrsluna sem afhent hefur verið iðnaðarráðherra.
Mynd / HKr.
Fréttir 16. mars 2015

Aðgangur að háhraðaneti skilgreindur sem grunnþjónusta

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Starfshópur innanríkisráðherra kynnti á dögunum tillögur til úrbóta í fjarskiptamálum.
 
Ísland ljóstengt – landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða“ er yfirskrift skýrslunnar. Þar er um að ræða útfærslu á markmiðum um byggðamál í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 22. maí 2013. 
 
Í skýrslu starfshópsins eru jafnframt settar fram tillögur til ráðherra um leiðir til átaks sem ná mun til allra landsvæða um eflingu fjarskipta.
 
Hópnum var falið að skoða mögulega útfærslu á alþjónustu­kvöðum í fjarskiptum er varða aðgang almennings og fyrirtækja að gagnaflutningssamböndum og að tillögum til útbreiðslu á breiðbandi,  svo þær stuðli sem best að settum markmiðum fjarskiptaáætlunar og ríkisstjórnarinnar. Skýrsla starfshópsins var formlega afhent innanríkisráðherra 11. mars. Hugmyndin er að efni skýrslunnar verði undirstaða nýrrar fjarskiptaáætlunar 2015–2026.
 
Tillögur starfshópsins grundvallast af umfangsmikilli gagnaöflun og greiningarvinnu sem hófst um mitt síðasta ár. Megintillögur starfshópsins eru eftirfarandi:
  • Aðgangur að háhraða fjarskiptatengingu verði grunnþjónusta sem standi öllum landsmönnum til boða, óháð búsetu.
  • Alþjónustumarkmið, eða markmið í anda alþjónustu, verði sett sem 100 Mb/s (breiðband) frá árinu 2020, ásamt tilheyrandi gæðaviðmiðum.
  • Skilgreint verði átaksverkefni á landsvísu til sex ára (2015–2020) um uppbyggingu á ljósleiðaraaðgangsnetum á markaðsbrestsvæðum.
 
Markmið fyrsta hluta átaks­verkefnisins 2015–2020 er að tryggja öllum landsmönnum breiðband (100 Mb/s). 
 
Í ljósi þess að réttur til háhraða­nettengingar samkvæmt alþjónustu er ekki fortakslaus með tilliti til kostnaðar er ekki víst að hægt sé að tryggja breiðband til allra lögheimila með heilsársbúsetu sem í dag búa við markaðsbrest, það er á svæðum þar sem fjarskiptafyrirtækin munu ekki að óbreyttu, leggja ný þráðbundin aðgangsnet á markaðslegum forsendum. Öllum verður engu að síður tryggt nothæft netsamband og verði það m.a. hlutverk Fjarskiptasjóðs.  
 
Nær til 80% af láglendi í byggð
 
Átaksverkefnið nær til um 80% af láglendi í byggð. Tillögurnar byggja á að grófhannað var ljósleiðarakerfi fyrir þá staði sem ekki hafa aðgang að ljósneti eða ljósleiðarakerfum í dag. 
 
Heildarkostnaður 5–6 milljarðar
 
Samkvæmt kostnaðarmati sem verk­fræði­fyrirtæki vann fyrir fjarskipta­sjóð er heildarstofnkostnaður við þá uppbyggingu breiðbands 5,1–6,7 milljarðar króna á núverandi markaðsbrestsvæðum.
 
Starfshópurinn greindi þrjár meginleiðir, til að takast við þetta verk og  leggur til að farin verði svonefnd samstarfsleið. Leiðin byggir á samvinnu við heimamenn á hverjum stað þannig að sveitarfélög og ríkið ákveða í sameiningu forsendur forgangsröðunar framkvæmda með hliðsjón af þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun 2014–2017 og innviðamarkmiðum fjarskiptaáætlunar.
 
Forsvarsmenn áhugasamra sveitarfélaga taki þátt í undirbúningi verkefna sem liggja innan þeirra marka, auk þess að bera ábyrgð á ýmsum þáttum undirbúnings sem stuðla að hagkvæmni og sátt um framkvæmdir gagnvart íbúum og landeigendum.
 
250 þúsund krónur á heimili
 
Í forsendum starfshópsins er gert ráð fyrir að innheimta tengigjöld – 250.000 af hverju tengdu heimili og að framtíðartekjur af hverri tengingu komi til lækkunar á kostnaði.  Hverju sveitarfélagi er eðlilega heimilt að greiða stofnframlagið að hluta eða að fullu.  Beint framlag ríkisins er áætlað 3–4 milljarðar króna í sjálfstæðri framkvæmd.  Hraði framkvæmda ræðst af fjárveitingum.  
 
Samlegð með öðrum veitum
 
Verið er að meta samlegð með öðrum veituframkvæmdum á landsvísu sem mun stuðla að lækkun kostnaðar.  En verulegir kostir eru til lækkunar kostnaðar með því að samnýta aðra veituframkvæmdir.
 
Bylting í byggðamálum
 
Haraldur Benediktsson, alþingis­maður og formaður starfs­hópsins, segir að það sé vissulega metnaðarfullt að leggja fram þá tillögu að breiðbandstenging verði hluti af grunnþjónustu allra landsmanna 2020.
 
„Í raun færir það landsmönnum mikil sóknarfæri.  Ef af landsátakinu verður, er hér á ferðinni ein mesta bylting í byggðamálum sem Alþingi getur stuðlað að. Ég þekki það ekki síst af starfinu á vettvangi Bændasamtakanna að óbreytt ástand er óviðunandi fyrir flestar sveitir landsins. Fátt mun breyta meira um nýja sóknarmöguleika allra byggða. Ég vek ekki síst athygli á því að verkið nær til allra landshluta – það eru til dæmis um 65 tengistaðir í Reykjavík þarna undir.  Við getum talað um nýja tíma í svo mörgum málum – atvinnumálum, byggðamálum, opinberri þjónustu, framboði á námi og búsetuskilyrði.  
 
Það er grundvallaratriði fyrir fyrirtæki að fá gott netsamband til að tryggja samkeppnishæfni sína.  Fyrir heimilin og héruð sem stórbæta búsetuskilyrði. Fyrir fjarskiptamarkaðinn sem þarna fær tækifæri til að gjörbreyta þjónustuframboði sínu og fyrir neytendur sem geta þá valið fjarskiptaþjónustu af bestu gæðum sem þeim hentar. Landsátakið á sér líka fleiri hliðar eins og bætt rekstraröryggi fjarskipta, og annara innviða eins raforkukerfis,  og ekki síst möguleika á að byggja enn frekar undir útbreiðslu á farnetinu – sem ekki síst bætir öryggi veg­farenda. Skapar nýja möguleika í ferðaþjónustu svo dæmi sé nefnt.  Í raun held ég að enginn geti í raun spáð fyrir um allar þær breytingar sem slíkt átak og ákvörðun getur haft í för með sér – verði tillögur okkar að veruleika.“
 
Hringtenging ljósleiðara á Vestfjörðum sérstakt verkefni
 
Ítrekuð vandræði í fjarskiptum á Vestfjörðum á undanförnum árum hafa mjög verið gagnrýnd. Þar hefur ljósleiðaratenging t.d. oft dottið út  í tíðum rafmagnstruflunum. Sá ljósleiðari hefur því endastöð á norðanverðum Vestfjörðum. Til að koma í veg fyrir að allt svæðið verði mögulega sambandslaust í einu vegna rafmagnstruflana í framtíðinni, er fyrirhugað að ráðast í hringtengingu ljósleiðarans um Ísafjarðardjúp. Það verður fjármagnað sem sérstakt verkefni. Haraldur segir að þær hringtengingar sem síðan þurfi að ráðast í víðar um land verði hins vegar hluti af landsátakinu.
 
Bjartsýnn á góðar undirtektir
 
− Ertu bjartsýnn á að þessum nýju tillögum starfshópsins verði vel tekið og hrint í framkvæmd?
„Já, við erum bjartsýn á að þeim verði vel tekið og að viðbrögð við tillögum okkar muni leiða það í ljós.  Það mun örugglega ekki öllum líka þær, en þær breyta talsvert miklu fyrir mjög marga. 
Fyrsta spurning er oftast; hvað með þá sem þegar hafa fjárfest?  Við gerum ekki tillögu um að koma til móts við þá aðila, enda tóku þeir ákvörðun á öðrum forsendum.  Umræðan verður síðan að leiða í ljós hvernig það fer – en ég minni á að þau svæði sem þegar hafa fjárfest eiga í sínum fjarskiptakerfum mikil verðmæti. 
Meginmálið er þó að við horfum til tækifæranna. Ég tel að óbreyttu ástandi  að  hætta sé  á að hér myndist einhvers konar fjarskiptaeyjar, sem verði um leið sóun á fjármunum og ekki síst að veikari svæðin sitji hreinlega eftir.  Ég hlakka til umræðunnar og ekki síst að fá tækifæri til að fylgja tillögum okkar eftir í þeirri umræðu.  Við byggjum þær á mjög ítarlegum greiningum sem fjarskiptasjóður lét gera og ekki síst á greiningum Póst- og fjarskiptastofnunar á regluverki fjarskiptamarkaðarins. Það er ekki einfalt en í því liggja líka tækifæri,“ segir Haraldur Benediktsson. 

Skylt efni: fjarskipti | háhraðanet

Passíusálmar sr. Hallgríms
Fréttir 29. mars 2024

Passíusálmar sr. Hallgríms

Passíusálmarnir verða fluttir í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...