Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Að loknum kosningum
Skoðun 3. nóvember 2016

Að loknum kosningum

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Við höfum kosið okkur nýtt þing með 32 nýjum fulltrúum sem ekki áttu sæti í lok síðasta kjörtímabils, þótt sumir þeirra hafi reyndar verið áður. Ég óska öllum þingmönnum til hamingju með kjörið eða endurkjörið og farsældar í störfum. 
 
Niðurstöður kosninganna voru ekki afgerandi á þann hátt að svo virðist sem kjósendum hafi hvorki hugnast að núverandi ríkisstjórn héldi áfram né að bandalag stjórnarandstöðuflokkanna tæki við. Þeir virtust vilja breytingar en þó ekki byltingu. Hið nýkjörna þing fæst nú við að mynda ríkisstjórn, en til þess þarf samvinnu og málamiðlanir sem kunna að reynast erfiðar. Vonandi gengur það samt fljótt og vel því að mörg verkefni bíða og til þess að hrinda þeim í framkvæmd þarf sameiginlega niðurstöðu.
 
Landbúnaðarmálin ekki áberandi í kosningabaráttunni
 
Landbúnaðarmálin voru ekki áberandi í kosningabaráttunni að þessu sinni. Það var kannski eðlilegt. Baráttan var stutt og snörp og skammt er síðan að lagabreytingar vegna búvörusamninga voru til afgreiðslu á Alþingi. Sú umræða var erfið og talsvert var deilt um samningana. Tilnefningum í samráðshóp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna endurskoðunar samninganna 2019 hefur verið skilað þó að hópurinn hafi ekki tekið til starfa.
 
Gagnrýni á samningana og efni þeirra kom úr ýmsum áttum. Orðræða andstæðinganna var ekki síst á þann veg að allir væru óánægðir með þá, þar með talið bændur. Það var hins vegar af afar ólíkum ástæðum sem ekki komu fram í umræðunni. Mest áberandi voru sjónarmið sem komu úr gagnstæðum áttum og eru ekki samrýmanleg. Það voru annars vegar sjónarmið þeirra sem töldu breytingarnar of miklar og hins vegar þeirra sem töldu þær of litlar.  
 
Það veganesti sem fulltrúar bænda höfðu í samningagerðinni lagði upp með ákveðnar breytingar. Samningarnir voru að stofni til frá 2002–2007 (fyrir utan búnaðarlagasamninginn frá 2013) en höfðu verið framlengdir tvisvar með óverulegum breytingum. Áður var samið um hvern þeirra fyrir sig, en nú alla í einu. Samið hafði verið með ólíkum hætti eftir búgreinum.
 
Beitt er kvótakerfi í mjólkurframleiðslu og opinberri verðlagningu sem ekki er beitt í kjötframleiðslu eða garðyrkju. Síðan er beinn stuðningur við sauðfjárrækt, en önnur kjötframleiðsla byggir á tollvernd eða er einfaldlega ekki studd. Garðyrkjan byggist bæði á beinum stuðningi og tollvernd, eftir tegundum.
Í nautgriparæktarsamningnum voru hugmyndir um að minnka þessa stýringu. Horft var til þess að leggja af kvótakerfi í mjólkurframleiðslu, til að létta kostnaði við kvótakaup af greininni og lækka þröskuldinn fyrir nýliða. Þegar þær hugmyndir voru kynntar í nóvember 2015 mættu þær gagnrýni bænda. Það hafði áhrif á lokaniðurstöðuna þar sem samið var um að kvótakerfið héldi áfram a.m.k. fram að endurskoðun 2019 og yrði þá aðeins aflagt ef það yrði samþykkt í atkvæðagreiðslu kúabænda. Þennan samning studdu 75% kúabænda í atkvæðagreiðslu.  
 
Gagnrýni á of miklar breytingar í sauðfjársamningi
 
Með sama hætti var ætlunin að leggja af greiðslumarkskerfið í sauðfjárrækt. Það kerfi er ekki kvótakerfi en veitir rétt til ákveðins stuðnings þar sem eina skilyrðið er að eiga tiltekinn fjölda af kindum. Þetta greiðslumark gengur líka kaupum og sölum og hugmyndin var þar sömuleiðis að létta af kostnaði og lækka þröskuldinn fyrir nýliða. Þessar hugmyndir eru hluti af endanlegum samningi. Hins vegar mættu þær gagnrýni bænda eftir að samningsgerðinni lauk og sú gagnrýni náði líka inn í þingsali. Stuðningur sauðfjárbænda við samninginn var ekki eins mikill og kúabænda en samt 60%.  
 
Gagnrýnin frá þessum væng var því á þá leið að breytingar væru of miklar. Það væri óvarlegt  að hrófla við kerfi sem reynst hefði vel auk þess sem að framangreindar breytingar komu óhjákvæmilega ekki vel við þá sem höfðu fjárfest í greiðslumarki.
 
Gagnrýni á of litlar breytingar
 
Gagnrýnin frá hinum vængnum var með allt öðrum hætti, eða á þá leið að breytingar væru fjarri því nægilegar. Vissulega kom þar fram að fæstir vildu hætta alveg stuðningi við landbúnað, en draga þyrfti úr honum, án þess að ljóst væri hvað mikið eða á hvern hátt.  Þá var gagnrýnt að samningurinn væri til of langs tíma, þrátt fyrir að kveðið væri á um tvær endurskoðanir, 2019 og 2023. Enn fremur var mikið kallað eftir því að dregið yrði úr tollvernd, eða hún jafnvel alveg felld niður, án þess að fram kæmi hvort að auka ætti eitthvað beinan stuðning á móti.
 
Nú er það þannig að um tollverndina var ekki samið í búvörusamningum, að því frátöldu að samið var um að uppfæra tolla á sex tollnúmerum mjólkur til núverandi gengis en þau miðuðust áður við gengi frá 1995. Um annað var ekki samið. Það stóð vissulega til í upphafi en tollasamningur stjórnvalda og ESB sem gerður var í upphafi samningaviðræðnanna gerði það ómögulegt.
 
Þessi gagnrýni byggðist því á þeim sjónarmiðum að breyta þyrfti miklu meiru og hraðar en gert var og að nauðsynlegt væri að opna landbúnaðinn meira fyrir lögmálum markaðshyggjunnar. Slíkt þarf ekkert að vera slæmt í sjálfu sér – ef það væri ekki einhliða aðgerð af Íslands hálfu. Opinber stuðningur og afskipti af landbúnaði eru regla en ekki undantekning á heimsvísu. Ef að við ætlum landbúnaðinum hér að keppa við innflutning á grunni óheftrar markaðshyggju þá verður það aldrei sanngjörn samkeppni því það er enginn annar að ganga þá götu.  
 
Ný ríkisstjórn − nýjar áherslur
 
Þetta eru engin ný sannindi. En hvers vegna að rifja þau upp? Jú, því bráðum fáum við nýja ríkisstjórn með nýjum áherslum. Að óbreyttu mun hún geta komið sínum áherslum að við endurskoðun búvörusamninganna 2019. Það er því mikilvægt að ríkisstjórnin láti koma fram þegar í upphafi hver hennar sýn er á íslenskan landbúnað, innlenda matvælaframleiðslu og hinar dreifðu byggðir. Sú stefna þarf að vera skýr. Á því þarf landbúnaðurinn að halda.
Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...