2,4 milljarða króna halli á vöruskiptunum við útlönd á fyrri helmingi ársins
Í júnímánuði voru fluttar út vörur fyrir 40,7 milljarða króna og inn fyrir 48,3 milljarða króna fob (51,8 milljarða króna cif). Vöruskiptin í júní, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 7,7 milljarða króna. Í júní 2013 voru vöruskiptin hagstæð um 1,1 milljarð króna á gengi hvors árs samkvæmt því sem segir á vef Hagstofu Íslands.
Fyrstu sex mánuði ársins 2014 voru fluttar út vörur fyrir 265,4 milljarða króna en inn fyrir 267,8 milljarða króna fob (288,1 milljarð króna cif). Vöruskiptin við útlönd voru því óhagstæð um 2,4 milljarða króna, reiknað á fob verðmæti, en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 25,1 milljarð á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 27,5 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.
Útflutningur
Fyrstu sex mánuði ársins 2014 var verðmæti vöruútflutnings 31,3 milljörðum eða 10,6% lægra á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 52% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 10,7% lægra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna áls. Sjávarafurðir voru 42,5% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 13,3% lægra en á sama tíma árið áður.
Innflutningur
Fyrstu sex mánuði ársins 2014 var verðmæti vöruinnflutnings 3,8 milljörðum eða 1,4% lægra á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður, aðallega vegna hrá- og rekstrarvöru, eldsneytis, fjárfestingavöru og flugvéla. Á móti kom aukinn innflutningur á fólksbílum og skipum.