Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Breytingar sem standa til á tollalögum eru einfaldlega ósanngjörn einhliða eftirgjöf á kostnað íslensks landbúnaðar segir formaður Bændasamtakanna.
Breytingar sem standa til á tollalögum eru einfaldlega ósanngjörn einhliða eftirgjöf á kostnað íslensks landbúnaðar segir formaður Bændasamtakanna.
Fréttir 8. júní 2018

„Ostafrumvarpið er klæðskerasniðið að hagsmunum heildsala,“ segir formaður BÍ

Höfundur: Tjörvi Bjarnason

Sindri Sigurgeirsson.Bændablaðið hefur heimildir fyrir því að Alþingi muni afgreiða frumvarp um breytingar á tollalögum sem munu hraða verulega innflutningi á svokölluðum sérostum umfram það sem kveðið er á um í samningum við Evrópusambandið. Fregnir af því að frumvarpið fái brautargengi áður en alþingismenn fara í sumarleyfi leggjast illa í bændur að sögn Sindra Sigurgeirssonar, formanns BÍ.

Atvinnuveganefnd fundaði í dag og niðurstaða málsins samkvæmt upplýsingum Bændablaðsins er að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingatillögu að viðbótartollkvóti á sérostum á þessu ári verði 105 tonn, í stað 210 tonna í fyrri tillögu, og að tollkvótinn árið eftir gildistöku samningsins verði 105 tonn í stað 230 tonna. Þá leggur nefndin til að landbúnaðarráðherra hafi svigrúm til að setja nánari ákvæði um útfærslu í reglugerð og að framkvæmd verði úttekt um áhrif aukins innflutningskvóta á sérostum.

„Við teljum að frumvarpið muni skaða hagsmuni íslensks landbúnaðar og grafa undan innlendri matvælaframleiðslu,“ segir Sindri. Hann segir að frumvarpið sé klæðskerasniðið að hagsmunum heildsala sem hugsi sér gott til glóðarinnar að flytja inn til landsins erlenda osta. „Það er ekki svo einfalt að eingöngu sé um sérosta að ræða eins og franska mygluosta. Þarna eru líka hollenskir Gouda- og Edam-ostar sem eru sambærilegir við mest seldu brauðosta hér á landi. Afleiðingarnar verða einfaldlega þær að ódýrir erlendir ostar, sem heildsalar munu flytja inn í stórum stíl, munu hafa veruleg áhrif á íslenska mjólkurframleiðslu. Samdráttur í innlendri framleiðslu er óumflýjanlegur,“ segir Sindri sem gefur ekki mikið fyrir að atvinnuveganefnd leggi til úttekt á áhrifum aukins innflutnings eftir að ráðist verður í tollabreytingarnar. „Þetta mál er allt með ólíkindum og augljóst að þingmenn og ráðherrar eru með þessum gjörningi að semja af sér. Það er dapurlegt að verða vitni að því að ríkisstjórn sem hefur það á stefnuskrá sinni að efla íslenska matvælaframleiðslu fari fram með þessum hætti. Þetta er einfaldlega ósanngjörn einhliða eftirgjöf á kostnað íslensks landbúnaðar.“ segir Sindri.

Nauðsynlegt að aukinn innflutningur sé í umsömdum skrefum

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaðarins hafa einnig bent á að með tollasamningnum sé ekki eingöngu opnað á tollfrjálsan innflutning einstaka óvenjulegra erlenda osta sem ekki eru í beinni samkeppni við íslenska ostaframleiðslu. Þau segja að samningurinn opni á tollfrjálsan innflutning osta af sömu tegund og algengustu verðlagsbundnu íslensku ostarnir. SAM telja að innflutningur á tollfrjálsum osti í beinni samkeppni við verðlagsbundna vöru skapi aðstæður sem bregðast verði við og þess vegna sé nauðsynlegt sé að auka innflutning í umsömdum skrefum í samræmi við tollasamning Íslands og ESB.

Getur kippt fótum undan mjólkursamlögum í Búðardal og á Egilsstöðum

Eins og fram kom í umsögn Bændasamtakanna um frumvarpið telja þau að efni þess muni koma í bakið á bændum og að grafið sé undan þeim takmörkuðu og réttmætu leiðréttingum sem fólust að öðru leyti í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar sem gerður var árið 2016. BÍ benda líka á í sinni umsögn um framvarpið að afleiðingar þess geti orðið dýrkeyptar fyrir mjólkurbúin í Búðardal og á Egilsstöðum. „Þar eru þau mjólkurbú sem helst vinna sérosta - sem lenda þarna í nakinni samkeppni. Bændasamtök íslands hljóta því að spyrja, í ljósi gildis og mikilvægis mjólkurvinnslu í Búðardal, hvaða björgunaráætlun er fyrir byggð í Dalabyggð - fari svo að þessi breyting kippi fótum undan eða veiki verulega rekstur á stærsta vinnustað í Búðardal.“

Einhliða árás á afkomu bænda

Bændasamtökin benda á í sinni umsögn að aðferðin sem kveðið er á um í frumvarpinu sé einhliða og færir Íslandi ekki samhliða sambærilegar heimildir. Það eitt sé einhliða árás á íslenska mjólkurframleiðslu. Þar segir: „í nefndaráliti þáverandi meirihluta atvinnuveganefndar við 3. umræðu málsins (þskj. 1647, 680 mál, 145. löggjafarþing) kemur vissulega fram að nefndin hafi sammælst við ráðherra að hraða innleiðingu á ostum skv. ákvæðum 1. gr. en þar segir jafnframt: „Samhliða er því beint til ráðherra að aðgangsheimildum á innri markað Evrópusambandsins fyrir mjólkurafurðir verði einnig hraðað eins og mögulegt er enda byggjast slík ákvæði á gagnkvæmum aðgangsheimildum.“ Bændasamtök íslands máttu því ætla að ráðuneyti landbúnaðarmála hefði frá samþykkt málsins í september 2016 leitast við að sækja sambærilegar ívilnanir fyrir íslenska mjólkurframleiðslu frá þeim tíma. En engin tilraun virðist hafa verið gerð til þess. Heldur er hér um að ræða einhliða árás á afkomu bænda, á sama tíma og verulega hefur hallað á samkeppnisstöðu landbúnaðarins vegna hás gengis krónunnar. Þarna virðist fyrst og fremst ráða hagsmunagæsla fyrir heildsala - sem til dæmis birtist í því að samtök þeirra tilkynntu fyrst allra um að frumvarp þetta væri í vændum. Það segir meira en mörg orð,“ segir í umsögn BÍ um nýtt tollafrumvarp.

Innlit í kjúklingabú
Fréttir 2. júní 2023

Innlit í kjúklingabú

Kjúklingabændurnir Eydís Rós Eyglóardóttir og Ingvar Guðni Ingimundarson á Vatns...

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda
Fréttir 2. júní 2023

Vaxandi áhugi bænda og smáframleiðenda

Sauðfjárbóndinn Jónas Þórólfsson og kjötiðnaðarmeistarinn Rúnar Ingi Guðjónsson ...

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum
Fréttir 1. júní 2023

Fuglavarnir til bjargar laxaseiðum

Nýstárleg tilraun var gerð við ósa Haffjarðarár síðasta sumar, þegar fuglavarnar...

Fjölgun nema í kjötiðn
Fréttir 1. júní 2023

Fjölgun nema í kjötiðn

Rúnar Ingi Guðjónsson segist finna fyrir mjög miklum áhuga hjá ungu fólki að lær...

Ferðamenn sækja í skóga
Fréttir 1. júní 2023

Ferðamenn sækja í skóga

Stjórn Félags skógarbænda á Suðurlandi harmar framkomnar órökstuddar fullyrðinga...

Ártangi til sölu
Fréttir 31. maí 2023

Ártangi til sölu

Hjónin Gunnar Þorgeirsson og Sigurdís Edda Jóhannesdóttir hafa sett garðyrkjustö...

Skýr afstaða í könnun
Fréttir 31. maí 2023

Skýr afstaða í könnun

Meirihluti þjóðarinnar er sammála því að íslenska ríkið eigi að leggja aukið fjá...

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun
Fréttir 31. maí 2023

Glaðbeittur starfsmaður í þjálfun

Ágúst Sigurðsson á Kirkjubæ á Rangárvöllum hefur nýlega tekið við starfi fagstjó...