Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Konurnar sem mættu á hundraðasta aðalfund Kvenfélags Villingaholtshrepps sunnudaginn 12. mars í félagsheimilinu Félagslundi.
Konurnar sem mættu á hundraðasta aðalfund Kvenfélags Villingaholtshrepps sunnudaginn 12. mars í félagsheimilinu Félagslundi.
Mynd / Magnús Hlynur Hreiðarsson
Líf&Starf 7. júní 2017

„Fátækar sveitir sem hafa ekki kvenfélög“

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Þann 27. október 1917 boðaði frú Stefanía Stefánsdóttir í Þingdal konur í Villingaholtshreppi í Flóa á fund til að stofna kvenfélag í sveitinni. Alls 16 konur mættu á stofnfundinn og var Guðrún Einarsdóttir á Urriðafossi kosinn fyrsti formaður félagsins. Tilgangur félagsins var „að hjálpa bágstöddum sjúklingum og fátækum sængurkonum“.  
 
Meðal annars stóðu konurnar fyrir stofnun Sjúkrahúss Suðurlands og styrktu skólann og kirkjuna, með ýmsum fjáröflunarleiðum, s.s. bögglasölu, hlutaveltum og sölu á kaffiveitingum m.a. í Dælarétt. Æ síðan hefur kvenfélagið selt veitingar og styrkt sjúkrahúsið, leikskóla og skóla í sveitinni, brunavarnir og félög fatlaðra. 
 
Hjálpum þar sem þörf er á
 
„Það hefur ekki mikið breyst á þessum 100 árum, það er enn þá  verið með veitingasölu til fjáröflunar og tilgangur félagsins er enn í dag að hjálpa þar sem þörf er á,“ segir Sólveig Þórðardóttir á Skúfslæk í Flóa, núverandi formaður Kvenfélags Villingaholtshrepps.  
Hún segir að félagið hafi þróast vel á þessari öld. 
 
„Já, alltaf er nú heldur að fjölga konunum í félaginu, fjáröflunarleiðir eru svipaðar og voru, sala á kaffiveitingum, þ.e. erfidrykkjur, kosningakaffi og fundarkaffi. Einnig höfum við  gefið út tvær uppskriftabækur sem hafa selst mjög vel. 
 
Við höfum verið í auknu samstarfi við hin kvenfélögin í Flóahreppi, þ.e. kvf. Gaul­verja­bæjarhrepps og kvf. Hraun­gerðishrepps, með að halda basar bæði haustin 2014 og 2016, og svo sjáum við sameiginlega um morgunverð á Fjöri í Flóa, seljum kaffi og erum með flóamarkað eða hlutaveltu. Við höfum leitast við að gera eitthvað fyrir konurnar, haldið námskeið og farið í skemmtiferðir, bæði sumar- og aðventuferðir,“ segir Sólveig.
 
30 konur í félaginu
 
Í dag eru 30 konur í félaginu, þar af 20 virkar. Konurnar hittast á tveggja vikna fresti  allan veturinn, spjalla og gera handavinnu. „Okkar markmið er og hefur verið að hlúa að þeim sem á þurfa að halda og því er okkur svo nauðsynlegt að selja veitingar til að geta gefið gjafir á þær stofnanir sem á þurfa að halda,“ segir formaður félagsins um leið og hún er spurð hvernig gangi að ná inn yngri konum í félagið.
 
„Það hefur gengið misjafnlega, á tímabili komu inn margar ungar konur, sem hurfu á braut aftur vegna anna, náms, barneigna og vinnu, en við vonum að þær komi til okkar aftur. En margar ungar konur hafa líka komið inn á síðustu árum og eru mjög vel virkar.  Bara á síðastliðnu ári hafa þrjár konur komið inn og er það mikið ánægjuefni. Nýliðun er algjörlega nauðsynleg, með nýjum konum  koma nýjar hugmyndir og stundum þurfa hefðir að víkja, en við höfum nú oft grínast með að það sé nú ekki hefð fyrir því þegar rætt er um einhverjar breytingar.“
 
Aberdeen í Skotlandi
 
Hápunktur afmælisársins verður helgar­ferð í haust til Aberdeen í Skotlandi þar sem kvenfélags­konurnar ætla að skemmta sér saman, skoða sig um og njóta lífsins. Þá voru konurnar myndaðar í bak og fyrir á aðalfundi félagsins 12. mars af atvinnuljósmyndara til að setja í sögubækurnar.
 
Sjö formenn félagsins á þessum 100 árum, ásamt núverandi formanni, voru myndaðar á afmælisfundinum. Á myndinni eru í efri röð frá vinstri: Kristín Stefánsdóttir, Hurðarbaki, Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti, Valgerður Gestsdóttir, Mjósyndi, Eydís Lilja Eiríksdóttir, Kolsholti 2. Neðri röð frá vinstri: Halla Aðalsteinsdóttir, Selfossi, áður Kolsholti 1, Sólveig Þórðardóttir, Skúfslæk 2 og Ásta Ólafsdóttir, Selfossi, áður Skúfslæk. 
 
Aukið samstarf kvenfélaga
 
Sólveig var að lokum spurð að því hvernig hún sæi framtíð félagsins fyrir sér. 
 
„Ég sé fyrir mér aukið samstarf á milli kvenfélaganna. Það sem hefur breyst er að meirihluti félagskvenna er útivinnandi sem gerir það að verkum að erfitt er að sinna veitingasölu á virkum dögum en við höfum verið að hjálpa aðeins til hjá hvert öðru, félögin hér í Flóanum. Ég hef svolítið velt því fyrir mér hvernig væri ef engin kvenfélög væru til, engin kona væri tilbúin að sinna sjálfboðaliðastarfi?  Það væru fátækar sveitir sem ekki hefðu svona samtök hjá sér.  Vinnustundirnar skipta hundruðum á ári hjá hverju félagi og gjafirnar út í samfélagið eru stundum í milljóna­tali, bara hjá venjulegu meðalstóru kvenfélagi, og það skiptir máli,“ segir Sólveig.
 
Hún segist vera stolt af því að vera kvenfélagskona því það gefi svo mikið þegar hægt er að styrkja þá sem á þurfa að halda.
 
„Ég er mjög þakklát þeim sem gefa sér tíma til að vinna með okkur og þá ekki síður þeim sem kaupa af okkur veitingar. Ég hlakka til að starfa næstu árin með mínu kvenfélagi, það er svo mikið af flottum og duglegum konum í félaginu og gaman að vinna með þeim,“ segir formaðurinn. Með henni í stjórn eru Elfa Kristinsdóttir, Rimum 6, ritari og Fanney Ólafsdóttir, Hurðarbaki, gjaldkeri. 
 
Ályktun aðalfundar kvenfélagsins:
Lýsir miklum áhyggjum af stöðu aldraðra og sjúkra
 
100. aðalfundur Kvenfélags Villingaholtshrepps haldinn í Þjórsárveri 12. mars 2017, lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu aldraðra og sjúkra á Suðurlandi.  
 
Það er algjörlega óásættanlegt að dvalarheimilunum á Kumbara­vogi og Blesastöðum, með samtals um 50 legurýmum, hafi verið lokað og ekkert komið í staðinn. Það er illt til þess að vita að fólk sé flutt um langan veg frá heimili og ættingjum, til dvalar um lengri eða skemmri tíma. Fundurinn hvetur stjórnvöld til að grípa til aðgerða strax og leggja umtalsvert fjármagn í þennan málaflokk, svo hægt sé að veita öldruðum Sunnlendingum áhyggjulaust ævikvöld. 
Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum
Fréttir 5. mars 2024

Styrkir til vatnsveitna á lögbýlum

Enn er opið fyrir umsóknir um framlög vegna vatnsveitna á lögbýlum sbr. regluger...

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...