Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Blandaður kór Kjósarsýslu starfaði á árunum 1959–1976 og var fyrst og fremst skipaður kirkjukórsfólki úr Mosfellssveit, af Kjalarnesi og úr Kjós. Þessi mynd var tekin 31. maí 1959, en í bókinni koma fram nöfn kórfélaga og búseta.
Blandaður kór Kjósarsýslu starfaði á árunum 1959–1976 og var fyrst og fremst skipaður kirkjukórsfólki úr Mosfellssveit, af Kjalarnesi og úr Kjós. Þessi mynd var tekin 31. maí 1959, en í bókinni koma fram nöfn kórfélaga og búseta.
Fólk 3. nóvember 2021

Þegar Kjósin ómaði af söng

Söngmenning og kórastarf hefur löngum verið stór hluti af menningu Íslendinga og bæði glatt lund og geð. Í Kjósarhreppi meðal annars, stóð sú menning ríkulega fyrir sínu og glæddi samfélagið bæði og göfgaði á tuttugustu öldinni. Í nýútkominni bók Ágústu Oddsdóttur og Bjarka Bjarnasonar er fjallað um samfélag, söng- og menningarlíf hreppsins á þessum tíma en faðir Ágústu og afi voru báðir ötulir söngmenn og vel virkir í þeirri starfsemi.

Ágústa Oddsdóttir, annar höfunda bókarinnar, ólst upp á bænum Neðra-Hálsi þar sem faðir hennar, Oddur Andrésson, stjórnaði kórastarfi sýslunnar, auk kirkjukórs Reynivallakirkju, um áratugaskeið.

Líkt og dóttir hans ólst Oddur upp við virka þátttöku söngfólks í kringum sig en faðir hans og afi Ágústu, Andrés Ólafsson, lagði ríka áherslu á að glæða áhuga fjölskyldunnar með því að taka þátt í söngstarfi kirkjunnar auk þess að æfa raddaðan samsöng heima við.

Hverfandi þekking

Hugmyndin að bókinni kviknaði í kjölfar þess að þrátt fyrir öflugt starf samfélagsins fyrr á tímum virtist vitneskjan um það fara hverfandi. Ágústa, sem hefur síðan árið 1981 viðað að sér heimildum er varða söngstarf föður síns og afa – auk ritaðra heimilda um félags- og menningarlíf í Kjósinni á árum áður, ákvað að sá fróðleikur mætti ekki falla í gleymskunnar dá. Með nokkurt safn heimilda á höndum sér tók hún til viðbótar viðtöl við eldri Kjósverja um sveitarbrag og sönglíf í Kjósinni á 20. öld. Er það efni grunnur þessarar bókar, en árið 2018 hafði Ágústa svo samband við Bjarka Bjarnason rithöfund sem samþykkti að vinna með henni efni í bók og jafnframt ritstýra verkinu.

Þriggja hluta verk

Bókin, sem skiptist í þrjá hluta, segir í fyrsta hlutanum frá lífi heimamanna í Kjósinni á síðari hluta 19. aldar, en þar má m.a. finna lýsingar á fábreyttu hlutskipti þeirra hvað varðaði búsetu og kjör.

Trúarleg tónlist var að mestu ráðandi og heimilin og kirkjan vettvangur sönglífsins.

Annar hluti lýsir þeim breytingum er ríktu á fyrri hluta 20. aldar ef litið er á menntun, atvinnulíf, húsbyggingar, tækjakost og félagsleg samskipti. Bræðrafélag (málfunda-, skemmti- og lestrarfélag), ungmennafélag og kvenfélag eru stofnuð í Kjósinni á þessum árum og sönglífið í sveitinni blómstrar. Í þriðja hluta bókarinnar er svo fjallað um sögu söngs og tónlistar í Kjósinni sem líka teygði sig út á Kjalarnes og suður í Mosfellssveit. Sagt er frá baklandi söngstarfsins og kórunum sem Oddur stjórnaði.

Þar má finna söngbændatal og örstutt æviágrip yfir þrjátíu kórfélaga í Karlakór Kjósverja á árunum 1935-1960 auk mynda.

Lestur Kjósarinnar sem ómaði af söng er því bæði athyglisverður og fræðandi og ef gripið er níður í hana má gjarnan finna greinargóðar hugmyndir af tilveru fólks – eins og sjá má á blaðsíðu 58, þar sem föðursystir Ágústu, Ágústa Andrésdóttir er tekin tali.

„Faðir minn las húslestur á kvöldin og heimilisfólkið, þar á meðal við systkinin, sungum sálm á undan og eftir lestrinum. Pabbi æfði einnig raddaðan söng með okkur, einkum sálmalög. Ég lærði um skamma hríð á orgel hjá séra Halldóri á Reynivöllum og æfði raddaðan söng með systkinum mínum. Þá sungum við upp úr Íslenska söngvasafninu sem var kallað Fjárlögin í daglegu tali.“

Ljóst er að saga sönglistar í Kjósinni hefur fallið í góðar hendur en yfirgripsmiklar lýsingar og heildarsýn höfundanna Ágústu og Bjarka grípa lesendur föstum tökum. Félagatal kóra er ítarlegt og saga mannlífs í heild afar áhugaverð og lýsandi og ættu sem flestir að hafa gagn og gaman af.

Skylt efni: Kjós | kórar

170 ára búnaðarfélagsskapur í Andakílshreppi
Fólk 21. janúar 2022

170 ára búnaðarfélagsskapur í Andakílshreppi

Um og upp úr miðri nítjándu öld tók að gæta meiri breytinga á atvinnuháttum Ísle...

Kynnti nútímavæðingu útihúsa í sveitum
Fólk 3. janúar 2022

Kynnti nútímavæðingu útihúsa í sveitum

Þann 20. nóvember gaf Sögumiðlun út bók um Þóri Baldvinsson  (1901-1986) arkitek...

Lömbin ekki alltaf til í að standa kyrr og brosa
Fólk 3. janúar 2022

Lömbin ekki alltaf til í að standa kyrr og brosa

Íslensk lömb - Lambadagatal 2022 er komið út í áttunda sinn. Daga- talið er í A4...

Möblur, sjókólaðe og jafnvel þegnskyld kartöfluræktun...
Fólk 20. desember 2021

Möblur, sjókólaðe og jafnvel þegnskyld kartöfluræktun...

Á dögunum lagðist greinarhöfundur í lestur á hinu merka riti Gunnars Þórs Bjarna...

Kleinan lifir góðu lífi í íslensku samfélagi
Fólk 15. desember 2021

Kleinan lifir góðu lífi í íslensku samfélagi

„Ég fékk þessa skrýtnu hugmynd að gefa út bók um kleinur fyrir þremur árum en á ...

Strand Jamestowns úti fyrir Höfnum  á Reykjanesi árið 1881
Fólk 8. desember 2021

Strand Jamestowns úti fyrir Höfnum á Reykjanesi árið 1881

Strand seglskipsins Jamestowns við Hafnir á Reykjanesi árið 1881 og eftirmál þes...

Þakklátur fyrir þau forréttindi sem það eru að fá að veiða í íslenskri náttúru
Fólk 29. nóvember 2021

Þakklátur fyrir þau forréttindi sem það eru að fá að veiða í íslenskri náttúru

„Góð veiðiferð á sér jafnan framhaldslíf í vel sögðum veiðisögum. Sumar þeirra v...

Leikfélag Mosfellssveitar sýnir Stúart litla
Fólk 24. nóvember 2021

Leikfélag Mosfellssveitar sýnir Stúart litla

Nú á dögunum frumsýndi Leikfélag Mosfellssveitar fjölskyldusöngleikinn Stúart li...