Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Baróns-Skjóni til umfjöllunar.
Baróns-Skjóni til umfjöllunar.
Líf&Starf 15. desember 2020

Myndir og textar haldast í hendur

Höfundur: smh

Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring hafa endurnýjað kynnin í bókagerð nýrrar „dýrabókar“ sem heitir Hestar, en bókin Fuglar, sem þau gerðu saman árið 2017, fékk góðar viðtökur. Hestar ætti að höfða til alls hestaáhugafólks – en ekki bara hestamanna – því bókin er full af áhugaverðum og skemmtilegum þjóðlegum fróðleik hestatengdum, í máli og myndum.

Það er Rán sem teiknar myndirnar en Hjörleifur er höfundur textans. Rán starfar sem teiknari og hugmyndasmiður. Hún myndlýsir bækur og blöð, krotar á veggi og frímerki og snarteiknar allt frá brúðkaupum til ráðstefna. Rán segir að hún eigi sjálf nokkurn bakgrunn í hestamennsku. „Ég byrjaði nú bara á reiðnámskeiðum í Víðidal. Tíu til ellefu ára gömul tók ég við starfi kúsks í reiðskólanum og hestaleigunni Þyrli og vann þar myrkranna á milli í nokkur ár. Gott ef ég á ekki bara alla mína vinnusemi því tímabili að þakka. 

Síðan var ég í mörg ár meðfram skóla að ríða út og þjálfa með Ástu Láru og Kjartani sem voru með sína ræktun á Langholtsparti, Markús var þar auðvitað í öndvegi og ómetanlegt að fá að kynnast honum og hans afkvæmum. Ég var tvö sumur í Þýskalandi hjá Styrmi Árnasyni í tamningum og þjálfun og svo einhverjum árum seinna hjá Ingimari og Margréti á Flugumýri í Skagafirði. Það var ævintýralega gaman og lærdómsríkt. Á síðustu árum hefur þetta verið voða gloppótt hjá mér, ég hef mest verið að ríða út sem hobbímanneskja og þá aðallega á NýjaSjálandi þaðan sem minn betri helmingur er. Ég ætla samt að taka gamla feita Leik minn á hús eftir jól.“

Myndir og texti haldast þétt í hendur

Um samstarf þeirra Hjörleifs segir hún, að það sé „gott og fumlaust“ – en þetta er þriðja bókin sem þau vinna saman. Árið 2018 kom út Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins. „Ferlið okkar er þannig að Hjörleifur byrjar á að rannsaka og safna saman efni og semja texta. Þegar þessi vinna er komin nokkuð vel á veg tek ég við handritinu og raða því upp á opnur og blaðsíður, móta kafla og þemu, bæti við eða breyti því sem mér finnst eiga að vera frásögn í mynd og teikna það sem grípur mig og fangar helst. Þegar mestu skissu og hugmyndavinnunni er lokið þarf að hreinteikna og síðan fínpússa teikningar og texta svo allt flæði vel saman. Þetta gerum við Hjörleifur í samstarfi við ritstjóra. Myndir og texti haldast þétt í hendur í bókinni og í raun ómögulegt að aðgreina þessa hluta. Samstarfið okkar fer þó alveg furðu orðalaust fram, við sitjum hvort í sínum landshlutanum og skiljum bara hvort annað án þess að þurfa að eyða í það mörgum símtölum eða fundum.“

Erfitt að teikna hross

Rán segir að efniviðurinn sé auðvitað algjör gullkista, því af svo miklu sé að taka. „Það er þó þekkt hvað er erfitt að teikna hross og ég rak mig heldur betur á þann vegg, það eru svo margir vöðvar, bein og óvænt liðamót að það má eyða heilli ævi bara í að stúdera það. Halldór Pétursson er mín helsta fyrirmynd í þessum efnum, hann teiknar hesta með gríðarlega sterka persónuleika og það var það sem ég reyndi að gera í þessari bók – að gefa hestunum karakter í stað þess að einblína á líffærafræðilega nákvæmni.“

Bókin á rætur í verkefni fyrir Landssamband hestamanna

Hjörleifur Hjartarson er kennari að mennt en starfar jöfnum höndum við ritstörf, tónlist og sviðslistir. Hann stundar sauðfjárbúskap með fimmtán ær en engan hest sem stendur. „Samstarf okkar hófst þannig að konan mín, Íris Ólöf, sem þá var safnstjóri á byggðasafninu Hvoli á Dalvík, fékk Rán með sér í vinnu við að búa til sýningu um sjófugla og ég var fenginn í textamálin. Það þróaðist síðan upp í fuglabókina. Það lá beint við að klára þessa 7580 fugla sem við getum kallað íslenska. 

Hestabókin á raunar líka rætur í öðru verkefni sem ég vann fyrir Landssamband hestamanna. Það var söng og leikdagskrá um íslenska hestinn sem við settum upp í Hörpu á svokölluðum hestadögum árið 2014. Yfirskriftin var „Hestaat í Hörpu“, mjög metnaðarfullt og glæsilegt dæmi þar sem Hilmir Snær fór á kostum að leika Fjölni Þorgeirsson á kafi í Reykjavíkurtjörn og hljómsveitin Brother grass flutti alþekkt og minna þekkt hestalög í geggjuðum blúgrassútsetningum. Við áttum von á fullri Hörpu og síðan glóandi símum frá landsmótsnefnd og svo alþjóðlegt meik á heimsmeistaramótinu í Herning í kjölfarið. En það gerðist nú reyndar ekki. Það komu sárafáir í Hörpu, aðallega boðsgestir minnir mig og svo var bara hringt í Helga Bjöss – aftur. En þetta efni átti ég þegar við Rán ákváðum að gera næst bók um hesta. Ekki spillti að Rán er innvígð hestakona þannig að þetta var skrifað í skýin,“ segir Hjörleifur um forsögu bókarinnar.

Hann telur öruggt að þau muni vinna saman aftur að svipuðum verkefnum, en hvað það verður sé leyndó. 

Ekki hestamaður en lengi umgengist hesta

„Ég myndi aldrei telja mig hestamann. Ég er bara sveitamaður og hef umgengist hesta frá því ég tuggði smjörið eins og sagt er í Svarfaðardal. Það voru alltaf hestar á Tjörn þar sem ég ólst upp og við fórum mikið á hestbak en það voru held ég bara tveir hnakkar en við vorum sjö systkini. Það var því mikið riðið berbakt. Reiðbuxur sá ég aldrei heima, hvað þá hjálm. Ég fer enn í lengri hestaferðir, helst eina viku á hverju sumri og svo auðvitað göngur á haustin. Þess utan fer ég afar sjaldan á bak,“ segir Hjörleifur þegar hann er spurður af reynslu hans af viðfangsefninu.

Hann segir að bókin sé ekki hugsuð fyrir neinn sérstakan lesendahóp, hún sé fyrir alla; unga sem aldna, hestamenn og þá sem aldrei hafa komið á bak. „Sjálfur er ég veikur fyrir þjóðlegum fróðleik og þetta er einhvers konar svoleiðis bræðingur, neftóbaksfræði fyrir byrjendur. Sumt af efninu er býsna harðneskjulegt fyrir ungar sálir en þannig er nú bara þessi saga. Það vill loða við hestabækur að höfða fyrst og fremst til hestamanna en þetta er tilraun til að brjótast út úr því hestahólfi.

Mynd eftir hest í bókinni

„Já vissulega,“ svarar hann þegar hann er spurður um hvort mikil heimildavinna liggi að baki. „Það hefur gríðarlega mikið verið skrifað um hesta á Íslandi. Vandinn var að takmarka efnisvalið og síðan að tálga textana. Það eru þarna nokkur ljóð en hesturinn í ljóðum og bókmenntum er annars að mestu utan við efni bókarinnar. Sömu sögu er að segja um marga sögulega hesta, fræga gæðinga og kynbótatröll. Okkar hestar eru alþýðlegri – sniðugir karakterar. Við lögðum upp með að texti og myndir rynnu saman í eina frásögn. Ljósmyndabækur með myndum af íslenskum hestum í íslenskri náttúru hafa slegið í gegn samfara alþjóðlegum vinsældum íslenska hestsins. Þetta er líka svoleiðis bók – heill kafli með ægifögrum myndum eftir Rán og engum texta. 

Svo kveikja kannski myndir texta. Þarna er til dæmis kafli um hestana hans Stefáns í Möðrudal bara af því að myndirnar hans áttu erindi í bókina. Þær eru að vísu endurskapaðar af Rán. En talandi um myndir eftir aðra en Rán, þá er ástæða til að vekja athygli á að í bókinni er að finna mynd eftir hestinn SkuggaSvein úr Hafnarfirði. Líklega er þetta eina hestabókin á markaðnum með mynd eftir hest.“ 

Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring.

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...