Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Einar Freyr Elínarson, formaður Samtaka ungra bænda (SUB) segir að horfurnar fyrir unga bændur á Íslandi séu betri en þær hafa oft verið og muni skjótt batna enn frekar að hans mati.
Einar Freyr Elínarson, formaður Samtaka ungra bænda (SUB) segir að horfurnar fyrir unga bændur á Íslandi séu betri en þær hafa oft verið og muni skjótt batna enn frekar að hans mati.
Mynd / HKr.
Líf&Starf 28. nóvember 2016

Mikil aðsókn í að starfa við búskap

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Fyrir nokkrum misserum kom fram í Bændablaðinu að ímynd landbúnaðar væri breytt í augum yngra fólks í heiminum og að kynslóðaskipti í landbúnaði væru greininni jafn mikilvæg eins og í öllum öðrum greinum til að viðhalda jafnvægi í matvælaframleiðslu heimsins. Þannig gerist það oftar að unga fólkið, sérstaklega í þróunarlöndunum, er ekki eins áhugasamt um að starfa við landbúnað eins og foreldrar þeirra. 
 
Hér á landi er líflegt starf hjá Samtökum ungra bænda (SUB) sem telja rúmlega 300 félagsmenn og er formaður þess, Einar Freyr Elínarson, bjartsýnn á framtíðina fyrir unga bændur. 
 
Úti í hinum stóra heimi er margt ungt fólk sem lítur á landbúnað sem líkamlega krefjandi vinnu og gefur því lítið svigrúm til að þróa frama sinn innan greinarinnar. Á sama tíma lifum við hraða tíma um allan heim þar sem þéttbýlismyndun heldur áfram að aukast á hverju ári og skilur eftir færri unga bændur á landsbyggðinni. Alheimssamtök bænda (WFO) hafa áhyggjur af þróuninni og segja nauðsynlegt að laða að fleira ungt fólk í greinina. Þetta er orðin alþjóðleg áskorun. Sem dæmi er aldur á bændum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar um 55 ár en mjög fá ungmenni á þessum slóðum taka þátt í bústörfunum með foreldrum sínum, þau leita í borgirnar til að fá annars konar vinnu. 
 
„Félagsstarfið í Samtökum ungra bænda er misvirkt en ákveðin svæðisfélög hafa verið dugleg að halda fræðslufundi eða skemmtiferðir. Eins og í öðru getur reynst erfitt að halda uppi virku félagsstarfi í dreifbýlinu. Landshlutafélög SUB hafa sótt nýja meðlimi í félagið, oft í kringum viðburði sem haldnir eru á vegum félaganna og hver sem er getur skráð sig á heimasíðu samtakanna,“ útskýrir Einar Freyr. 
 
Gott samstarf við erlend samtök
 
Samtök ungra bænda eru aðili að Alþjóðasamtökum bænda (WFO) í gegnum Bændasamtök Íslands. Einnig er gott samband og samstarf við norræn systursamtök.
 
„Það stóð til að samtökin sendu fulltrúa á fund ungra bænda á vegum Alþjóðasamtakanna í október en sá fundur frestaðist og við áttum ekki kost á að senda fulltrúa á breyttri dagsetningu.
 
SUB hafa átt í góðum samskiptum við norræna kollega. Forystumenn norrænna ungbænda eru með hóp á samskiptamiðlinum Facebook þar sem við spjöllum gjarnan saman og deilum fréttum af starfi samtaka hvers lands. Formanni og varaformanni SUB, ásamt fulltrúum frá Finnlandi, var boðið á aðalfund kollega okkar í Noregi árið 2014 og þeir sóttu Ísland heim árið 2015,“ segir Einar Freyr og bætir við:
 
„Erlenda samstarfið er okkur mjög mikilvægt og finnum við að það auðgar kunnáttu okkar og gefur okkur oft á tíðum góðan samanburð um hvað er að gerast annars staðar.“
 
Virðing fyrir starfinu
 
Það er mat Alheimssamtaka bænda að bændur og stjórnmálamenn verði að auglýsa landbúnað sem vitsmunalega örvandi atvinnugrein sem getur gefið efnahagslega sjálfbæran frama með nægum tækifærum innan greinarinnar. Einnig þarf að drífa unga bændur með inn í félagsstörf bænda til að innleiða þá enn frekar í greinina. Er það von samtakanna að með fjarskipta- og tölvutækni nútímans sé hægt að breyta þessari þróun hraðar en verið hefur til að gefa ungu fólki nýjan skilning á því hvað það þýðir að framleiða matvæli.
 
„Þróun nýliðunar á Íslandi hefur verið svipuð og í mörgum þeim löndum sem við berum okkur saman við, enda hefur þróun búskapar almennt verið færri og stærri bú. Ef miðað er við aðsókn í nám í búfræði og búvísindum seinustu ár mætti ætla að aðsókn í að starfa við búskap sé nokkuð mikil. Það er hins vegar sorglega lítið hlutfall þeirra sem útskrifast úr námi sem gefst kostur á að taka við búi eða að starfa við búskap. Það sem veldur er það sama og alls staðar annars staðar – það er dýrt að fjárfesta í búi. Það hefur án efa áhrif að afkoma bænda er víða ekki nógu góð. Lánastofnanir eru því sjálfsagt tregari til þess að lána til starfsemi í landbúnaði og ekki hjálpar sá hugsunarháttur sem allt of margir hafa tileinkað sér og flaggað af jafn miklu stolti og þjóðfána Íslands, að það græði enginn á því að verða bóndi og að það sé bara allt í lagi. Ef við erum ekki hreykin af okkur og berum ekki virðingu fyrir starfinu sem við innum af hendi hvernig er þá hægt að ætlast til þess að aðrir geri það?“ spyr Einar Freyr og segir jafnframt:
 
„Það verkefni sem nú liggur fyrir félaginu er að tryggja að nýjar úthlutunarreglur nýliðunarstuðnings verði þannig mótaðar að þær nýtist sem best og tryggi að ungt fólk sem hefur áhuga á því að brydda upp á nýjungum eigi líka kost á því að sækja um stuðning, ekki bara þeir sem starfa innan hefðbundinna búgreina. Horfurnar fyrir unga bændur á Íslandi eru betri en þær hafa oft verið og munu skjótt batna, eða svo vona ég. Líkur eru á því að uppsveifla í ferðaþjónustu muni halda áfram um nokkurt skeið og vonandi nær fjöldi ferðamanna síðan jafnvægi og við upplifum ekki harkalega niðursveiflu. Ef svo fer halda búsetuskilyrði áfram að batna á landsbyggðinni, eins og þau hafa svo sannarlega gert á þeim svæðum þar sem ferðaþjónustan er hvað öflugust. Þetta hefur í för með sér stóraukin tækifæri fyrir ungt fólk sem hefur hug á því að framleiða matvæli. Það væri afskaplega illa spilað ef okkur tekst ekki að hagnýta fyrir landbúnaðinn þessa uppsveiflu í ferðaþjónustu.“
 

Skylt efni: SUB | Samtök ungra bænda

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!
Líf&Starf 19. apríl 2022

Fimm hurða farsi leikfélags Hólmavíkur!

Nú hefur leikfélag Hólmavíkur sett upp farsann Bót og betrun eftir Michael Coone...

Ef væri ég gullfiskur!
Líf&Starf 28. mars 2022

Ef væri ég gullfiskur!

Spéfarsinn „Ef væri ég gullfiskur“ eftir Árna Ibsen, í flutningi leikfélags Umf....

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði
Líf&Starf 16. mars 2022

Ekki um ykkur! Verk Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi leikritið „Ekki um ykkur” eftir Gun...

Verndarar láðs & lagar
Líf&Starf 14. mars 2022

Verndarar láðs & lagar

Þegar verndarar láðs og lagar ber á góma er gaman að rekast á þá þar sem maður á...

Flestir gullsmiðir voru bændur
Líf&Starf 28. febrúar 2022

Flestir gullsmiðir voru bændur

Árið 2011 hlaut Dóra Guðbjört Jónsdóttir gullsmiður þakkarviðurkenningu FKA – Fé...

Hann á það skilið? Á hann það skilið?
Líf&Starf 2. febrúar 2022

Hann á það skilið? Á hann það skilið?

Í kaflanum „Misseristalið og tildrög þess“ eftir Þorkel Þorkelsson, í 1. tbl. Sk...