Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Menningarhúsið Berg.
Menningarhúsið Berg.
Mynd / Aðsend
Menning 25. janúar 2023

Söfn Dalvíkurbyggðar

Höfundur: Björk Hólm, forstöðumaður safna og Menningarhússins Bergs

Í Dalvíkurbyggð eru rekin þrjú söfn og við það bætist síðan Menningarhúsið Berg sem flokkast ekki sem safn en er ákveðin regnhlíf yfir flest allt menningarstarf í sveitarfélaginu.

Söfnin eru ólík innbyrðis, eðli þeirra, markmið og tilgangur. Þau eru bókasafn, héraðsskjalasafn og byggðasafn og eru staðsett í Menningarhúsinu Bergi, Ráðhúsi Dalvíkur og Hvoli.

Það er óhætt að segja að miklar hræringar séu í safnamálum í Dalvíkurbyggð, segja má að öll söfnin standi á tímamótum þótt ólík séu. Nýverið var tekið upp nýtt bókasafnskerfi á landsvísu og hefur starfsemi Bókasafns Dalvíkurbyggðar litast af því síðan í sumar. Ný kerfi bjóða auðvitað upp á tækifæri til að endurskoða það sem áður hefur verið gert og jafnvel leggja nýjar línur fyrir framtíðina. Við tókum einnig nýverið í gagnið sjálfsafgreiðsluvél á safninu sem mun bæta þjónustu við lánþega og auka sveigjanleika starfsmanna. Þess á milli reynir safnið að vera sýnilegt á samfélagsmiðlum og dreifa gleði til nærsamfélagsins, t.d. með föstum liðum eins og „fössarafésbókinni“.

Á héraðsskjalasafninu höfum við, ásamt öðrum héraðsskjalavörðum á landinu, tekið þátt í undirbúningi er varðar viðtöku og meðhöndlun opinberra skjala á rafrænu formi. Hér ræðir um stórt og yfirgripsmikið verkefni sem mun að öllum líkindum hafa miklar breytingar í för með sér fyrir Héraðsskjalasafn Svarfdæla. Við höldum þó viðteknum venjum enn um sinn og skráum afhendingar á pappírsformi og þá kannski sér í lagi ljósmyndir. Vikulega hittist ljósmyndahópurinn okkar „frægi“ og fer yfir óþekktar ljósmyndir til að bera kennsl á fólkið á myndunum. Hópurinn samanstendur af miklum hollvinum safnsins sem muna tímana tvenna og eru þau ómetanleg auðlind fyrir safnið.

Í lok árs 2021 var ákveðið að flytja Byggðasafnið í Hvoli yfir í annað og heppilegra húsnæði. Þegar á hólminn var komið reyndist húsnæðið sem varð fyrir valinu þó ekki svo heppilegt og var því fallið frá þeirri ákvörðun í lok árs 2022. Framtíðarhúsnæði safnsins er því óráðið en ákveðið hefur verið að leggjast í gagngera ígrundun, hugmyndavinnu og stefnuvinnu snemma á þessu ári. Sveitarfélagið á sér sterka og merkilega sögu sem mikilvægt er að miðla til nærsamfélagsins, gesta og ferðafólks á sem aðgengilegastan hátt. Þetta verður stórt en gríðarlega spennandi tækifæri fyrir Dalvíkurbyggð í heild sinni. Þangað til heldur Byggðasafnið áfram sínu hefðbundna starfi. Á sumrin er opið alla daga en á veturna er opið eftir samkomulagi. Á þeim tíma er áhersla á skráningu og móttöku leik- og skólahópa.

Gaman er að segja frá tveimur verkefnum sem eru á döfinni hjá okkur. Fyrst má nefna samstarf safnanna þriggja við 10. bekk í Dalvíkurskóla. Nemendurnir sækja öll söfnin en í stað þess að fá hefðbundna leiðsögn um safnið fá þeir smjörþefinn af því hvernig er að starfa á safni. Starfsmenn safnanna fara með nemendurna í kjölinn á því hvernig faglegt starf á söfnunum er uppbyggt og freista þess að kveikja neista hjá upprennandi safna-, þjóð-, eða bókasafnsfræðingum (svo fátt eitt sé nefnt). Nemendur fá að kynnast völdum verkefnum sem oft eru hulin gests auganu, s.s. skráningu, pökkun, skipulagi, ljósmyndun, greiningu og fleira. Þetta verkefni er enn í þróun en hefur fært okkur nýja sýn á það hvernig hægt er að kynna starfsemi safnanna fyrir ungmennum.

Í mars er síðan árleg mynd- listarsýning barnanna sem er gríðarlega skemmtilegt samstarfsverkefni safnanna, Menningarhússins Bergs og leikskólans Krílakots. Börn elstu deildar Krílakots koma í nokkur skipti í safnaheimsókn á Hvol og í janúar velur hvert barn sinn uppáhaldsgrip á safninu. Gripurinn er síðan ljósmyndaður og barnið notar hann sem innblástur í málverk sem það skapar sjálft. Þegar öll verkin eru tilbúin eru þau sett upp í veglega sýningu í listasal Menningarhússins Bergs þar sem öllum gefst kostur á því að skoða verkin. Þá gefst foreldrum og velunnurum kostur á að kaupa verk á 2.000 krónur stykkið og rennur allur ágóðinn til foreldrafélagsins sem sér um að verðlauna börnin með einhverri uppákomu.

Það er því óhætt að segja að það sé af nógu að taka hér í Dalvíkurbyggð og safnamálin á fullu skriði hvort sem litið er að innra eða ytra starfinu. Við mælum með innliti á söfn Dalvíkurbyggðar eða Menningarhúsið Berg næst þegar þið eigið leið um Tröllaskagann.

Kona í fremstu röð
Líf og starf 8. desember 2023

Kona í fremstu röð

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu útgáfu af rafmagnsbílnum Hyundai Kona í Style...

Hátíðarbragur með jólastjörnum
Líf og starf 7. desember 2023

Hátíðarbragur með jólastjörnum

Jólastjarna er eitt vinsælasta jólablómið á Íslandi. Þessa dagana eru jólastjörn...

Svipmyndir frá afmælisráðstefnu
Líf og starf 6. desember 2023

Svipmyndir frá afmælisráðstefnu

Fjölmennt og góðmennt var á afmælisráðstefnu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins ...

Guðni á Þverlæk heiðraður
Líf og starf 5. desember 2023

Guðni á Þverlæk heiðraður

Guðni Guðmundsson, bóndi á bænum Þverlæk í Holtum í Rangárþingi ytra, var á dögu...

Pink Iceland og Skriðuklaustur verðlaunuð
Líf og starf 4. desember 2023

Pink Iceland og Skriðuklaustur verðlaunuð

Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar voru nýlega veitt á 25 ára afmælisráðstefnu...

Jólamarkaðir í desember
Líf og starf 30. nóvember 2023

Jólamarkaðir í desember

Hinn árlegi Jólamarkaður Miðjunnar verður haldinn í Framsýnarsalnum 1. desember ...

Gráhegri
Líf og starf 29. nóvember 2023

Gráhegri

Gráhegri er stór, háfættur og hálslangur vaðfugl. Hann er nokkuð útbreiddur um E...

Margur er smala krókurinn
Líf og starf 28. nóvember 2023

Margur er smala krókurinn

Austurlandsdeild Smalahundafélags Íslands (SFÍ) hélt fjárhundakeppni sína, Spaða...