Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Farmallinn var í reglulegri notkun fram á 10. áratuginn. Hennar síðustu verk voru m.a. að snúa heyi og taka upp kartöflur. Nú hefur sonur Þorgils tekið við vörslu dráttarvélarinnar og er hún geymd í vélageymslu á Sökku.
Farmallinn var í reglulegri notkun fram á 10. áratuginn. Hennar síðustu verk voru m.a. að snúa heyi og taka upp kartöflur. Nú hefur sonur Þorgils tekið við vörslu dráttarvélarinnar og er hún geymd í vélageymslu á Sökku.
Líf og starf 6. janúar 2023

„Þetta voru þáttaskil í heyskap“

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Eftir seinni heimsstyrjöld byrjaði að koma skriður á vélvæðingu í íslenskum landbúnaði. Þorgils Gunnlaugsson man vel eftir því þegar nýr Farmall A kom á Sökku í Svarfaðardal árið 1946, þegar hann var fjórtán ára. Sú vél breytti miklu þegar kom að heyskap, en fram að því höfðu verið notaðar hestasláttuvélar og handafl.

Þorgils Gunnlaugsson, sem verður 91 árs í janúar, man vel eftir komu fyrsta traktorsins á Sökku í Svarfaðardal árið 1946, þá 14 ára gamall. Mynd/Aðsend

Búnaðardeild Sambands íslenskra samvinnufélaga sá um innflutning á Farmall dráttarvélum á þessum árum. Þær voru framleiddar í Ameríku, en í grein í Tímanum í febrúar 1946 kemur fram að örðuglega hafi gengið að afgreiða allar pantanir frá íslenskum bændum vegna verkfalla í verksmiðjunum. Þá var þegar búið að leggja inn 6-700 pantanir af Farmall hjá S.Í.S, en ekki var gert ráð fyrir að tækist að afgreiða nema 300 það árið. Á sama stað er þess getið að norska verksmiðjan sem framleiddi hina svokölluðu „Eylandsljái“ hafi lofað að afgreiða þá nógu snemma til þess að þeir kæmust til bænda fyrir slátt.

Kom ný í kassanum

Þorgils segir að Gunnlaugi föður hans hafi gengið nokkuð vel að fá dráttarvélina. Útibú Kaupfélags Eyfirðinga á Dalvík afgreiddi hana í viðarkassa og var kaupverðið rúmlega 6.000 krónur – sem samsvarar 608.000 krónum á gengi dagsins í dag samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands. Til að setja þessa tölu í eitthvert samhengi var mánaðarkaup nokkurra sveinsstétta árið 1946 í kringum 1.800 krónur og kaupverð á nýrri Chevrolet fólksbifreið 14.500 krónur á gengi þess tíma.

Sakka var einn af þremur fyrstu bæjunum í Svarfaðardal sem fengu traktor árið 1946. Þorgils segir að hinir tveir hafi verið Skáldalækur og Ytra- Hvarf. Þetta ár var ekki einungis vélvæðing í formi dráttarvéla, heldur kom líka fötumjaltakerfi og súgþurrkunarbúnaður á Sökku á svipuðum tíma. Allra fyrstu dráttarvélarnar í dalnum voru þó tvær sem Búnaðarfélag Svarfdæla hafði keypt til að nýta í jarðabótavinnu. Sú fyrri, sem yfirleitt var kölluð Surtur gamli, var af gerðinni Fordson og kom árið 1929. Hin var af gerðinni International-Harvester og var nýlega komin áður en bændur byrjuðu að fá vélar í einkaeigu.

S.Í.S. sá um innflutning Farmall dráttarvéla á þessum árum. Eftirspurn meðal íslenskra bænda var mun meiri en Sambandið gat annað. Auglýsing úr Tímanum 1949. Mynd / Timarit.is

Afköst vógu upp á móti óþægindum

Aðspurður segir Þorgils að mjög slítandi hafi verið að vinna á vélinni. Sætið, sem var vel mótað að sitjandanum, var á fjöðrum sem dugðu illa ef keyrt var ofan í holur, þar sem botninn á sætinu barðist niður í hart stálið fyrir neðan. „Þetta var ekki bjóðandi nokkrum mannsskrokk.“ Afköst vélarinnar vógu hins vegar upp á móti óþægindunum. Áður en Farmallinn kom voru hestar nýttir til að draga sláttuvélar og rakstravélar og flytja heyfenginn heim á bæ. „Þetta voru þáttaskil í heyskap,“ segir Þorgils, enda styttist tíminn við heyannir um 2/3 með komu dráttarvélarinnar, því á sama tíma voru keyptar snúnings- og múgavélar sem tengdar voru aftur í vélina.

Greiðusláttuvél fylgdi vélinni og var hún tengd að aftan. Þorgils segir að sérstök skúffa hafi verið tengd við sláttuvélina, sem hann notaði mikið í engjaslætti. Þá féll heyið beint ofan í skúffuna og var skilið eftir þar sem yfirborðið var þurrara. „Ég notaði þessa vél við slátt alveg fram til 1959 – þá fékk ég Fordson Major.“

Dráttarvélin var með bensínmótor og útbúin aflúrtaki að aftan og reimskífu. Hún var ekki með neinu vökvakerfi, heldur pústlyftu. Afgasið var leitt í sérstakan þrýstikút á stærð við 20 lítra mjólkurbrúsa, sem gat þá lyft kjálka sem á var fest tönn framan á vélinni. Sá ókostur fylgdi notkun pústlyftunnar að mjög dró úr afli þegar lokan var sett fyrir pústið – því voru þeir Farmallar sem komu síðar útbúnir vökvakerfi.

Aðspurður segir Þorgils að lyftigetan hafi verið nálægt 200 kílóum. Þar sem tönnin var ekki mjög breið var brugðið á það ráð að festa á hana planka til þess að hægt væri að ýta görðuðu heyi saman í beðjur. Handafli var svo beitt til að moka heyinu upp á vagna.

Ekki voru einungis aukin afköst með tilkomu mótordrifinnar sláttuvélar, heldur var smíðaður heyvagn á fjórum hjólum sem auðveldaði heyflutninga. Aðspurður segir Þorgils að þessar vélar hafi búið yfir mikilli dráttarhæfni, þó þær væru ekki með nema 17 hestafla bensínmótor. Heimkeyrslan að Sökku er nokkuð brött, en vélin réði ágætlega við að draga vagn sem Þorgils giskar á að hafi verið upp undir tvö tonn.

Í Búfræðingnum árið 1947 var sýnd mynd af greiðusláttuvél sambærilegri þeirri sem fylgdi með Farmallnum á Sökku. Mynd / Timarit.is

Plankar til að losa úr engjum

Þorgils segist aldrei hafa lent í alvarlegum skakkaföllum. Stundum kom fyrir að vélin festist þegar verið var að slá á blautum engjum. Þá var brugðið á það ráð að festa planka við annað afturhjólið sem náði að þrýsta vélinni upp úr mýrinni. Þorgils segir hins vegar að þessi aðferð hafi verið varasöm ef ekki var kunnað til verka.

Einhverju sinni lenti Þorgils í því að mótorinn þyngdist og var alltaf að drepa á sér. Þá kom í ljós að gleymst hafði að fylla á kælivökvann – en það virtist ekki gera stimplunum mein. „Hún var jafn góð á eftir – það var svo gott í þessu.“

Farmallinn var í reglulegri notkun fram til 1990. Undir lokin var hún aðallega notuð til að snúa heyi með litlum heytætlum. Gunnsteinn Þorgilsson, sem hefur tekið við vörslu vélarinnar, segir að einnig hafi hún verið notuð um þetta leyti til að taka upp kartöflur með gamaldags hestaplógi. Þegar vélinni var lagt var hún gangfær og er hún varðveitt í vélaskemmu á Sökku.

Skylt efni: Farmall | saga vélar

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....

„Hann gat ekki beðið“
Líf og starf 10. apríl 2024

„Hann gat ekki beðið“

Bændablaðið er mörgum ansi hjartfólgið enda nýtur blaðið mikils trausts meðal le...

Sefgoði
Líf og starf 10. apríl 2024

Sefgoði

Sefgoði er flækingur af goðaætt og fannst nýverið við Þorlákshöfn. Það er einung...