Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Kolbrún við trönurnar sínar þar sem hún getur gleymt sér í marga klukkutíma við að mála fallegar myndir af dýrum. Henni finnst skemmtilegast að mála fallega hrúta.
Kolbrún við trönurnar sínar þar sem hún getur gleymt sér í marga klukkutíma við að mála fallegar myndir af dýrum. Henni finnst skemmtilegast að mála fallega hrúta.
Mynd / Einkasafn
Líf og starf 9. júní 2020

„Fátt betra en að leggjast í grasið með kúnum og hundunum“

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Ég er fædd og uppalin í Reykjavík. Móðir mín er Jóhanna Guðmundsdóttir frá Króki í Grafningi og faðir minn er Friðrik Hermannsson frá Látrum í Aðalvík. Eiginmaður minn er Erling Ó. Sigurðsson, betur þekktur sem Elli Sig., hestamaður og skeiðknapi,“ segir Kolbrún Friðriksdóttir listmálari þegar hún var beðin um að kynna sig fyrir lesendum Bændablaðsins.
 
„Ég á fjóra uppkomna syni, Aron, Þórð, Friðrik og Gunnar Guðmundssyni og barnabörnin eru fimm. Ég lærði tækniteiknun í Horsens í Dannmörku 1984 þar sem við bjuggum í fimm ár. Ég starfaði lengst af í Læknastöðinni í Glæsibæ eftir að við fluttum heim til Íslands.“ 
 
Kolbrún er í sambúð með hinum fræga Ella Sig., hestamanni og skeiðknapa með meiru, sem flestir ef ekki allir hestamenn landsins kannast við.
 
Í sambúð með Ella Sig. hestamanni
 
Kolbrún og Elli Sig., hestamaður og skeiðknapi, eins og hann er oftast kallaður, búa saman. 
 
„Já, sameiginlegur áhugi okkar Ella á dýrum og velferð þeirra hefur verið stór þáttur í okkar sambandi en við smullum saman eins og flís við rass þegar við kynntumst. 
 
Við eigum lögheimili í útjaðri Reykjavíkur, erum í göngufæri frá hesthúsunum í Víðidal og stutt í óspjallaða náttúru þar sem hægt er að njóta útivistar, gönguferða og ekki síst hestamennsku. 
 
Á sumrin dveljum við mikið í sumarhúsi okkar í Krókslandi í Grafningi og þar erum við með hesta landnámshænur, skrautdúfur, hund og kött og að sjálfsögðu dásamlega náttúru. Það má segja að þetta sé lítil útgáfa af búgarði hjá okkur, við höfum gróðursett mikið af trjám, ræktum grænmeti, kartöflur og kál, svo er Elli núna að reyna við ávaxtatré af ýmsum toga, vínber og fleiri ber,“ segir Kolbrún og bætir við að Elli sé með græna fingur en að hún sjái til þess að hann verði ekki svangur.  
 
Þau fara mikið í reiðtúra um svæðið og njóta fegurðar Grafningsins. Þá skellir Elli sér oftar en ekki á skeiðleikana á Selfossi þegar þeir eru haldnir enda stutt að fara. Oftast kemur hann heim með medalíu en þær eru orðnar þó nokkrar á hans langa keppnisferli. 
 
29 börn, takk fyrir
 
Stórfjölskylda pabba Kolbrúnar á saman sumarhús að Látrum í Aðalvík þar sem hann er fæddur og uppalinn. Langamma og langafi hennar bjuggu þar og eignuðust 17 börn og við tóku amma og afi Kolbrúnar, sem eignuðust þar 12 börn, eða samtals 29 börn frá þessum tveimur hjónum. Bærinn hét Ystibær og stendur hús fjölskyldunnar á bæjarstæðinu í minningu þeirra. 
 
„Við fjölskyldan förum vestur þegar við eigum þess kost eða sem oftast. Ferðalagið er mun lengra en í Grafninginn og eftir akstur til Ísafjarðar tekur við klukkustundar bátsferð. 
 
Í Aðalvíkinni er auðvelt að tæma hugann og hlaða batteríin, þar er ekki rafmagn og ekki símasamband og náttúran er einstök. Tófan trítlar í kringum okkur og fuglar setjast nánast á öxlina á okkur, allavega á Ella, sem laðar að sér öll dýr. Allir eru vinir í skóginum enda er Aðalvíkin friðland og við teljum það forréttindi að fá að dvelja þar og njóta. 
 
Búseta á Hornströndum lagðist af um miðja 20. öld en minningin um harðduglegt fólk lifir.“ segir Kolbrún þegar hún rifjar upp með aðdáunaraugum lífið í Aðalvíkinni.
Myndlist, handverk og hönnun
 
Kolbrún segist alla tíð hafa haft áhuga á myndlist, handverki og hönnun. Hún lærði tækniteiknun í Danmörku og útskrifaðist frá B.T.H. Byggeteknisk Hojskole í Horsens árið 1985. Áhugi hennar á listmálun vaknaði fyrir alvöru 2011 þegar hún sótti sitt fyrsta námskeið í olíumálun hjá mágkonu sinni, Þuríði Sigurðardóttur.
 
„Þar kynntist ég olíulitum og heillandi heimi myndlistarinnar og má segja að ég hafi verið meira og minna við trönurnar síðan. Ég fann fljótt mína fjöl, réðist í að túlka íslensk dýr í málverkunum mínum enda hafa dýr af öllum stærðum og gerðum verið mér hugleikin allt frá því ég man eftir mér. Síðastliðið ár hef ég verið í samstarfi með nokkrum listamönnum sem stofnuðu sýningar- og sölugallerí sem heitir Galleríið og er á Skólavörðustíg 20. Þar er ég með myndirnar mínar til sýnis og sölu,“ segir Kolbrún.
 
Einlægur áhugi á dýrum
 
Kolbrún segist hafa einlægan áhuga á dýrum og hefur frá því að hún var barn sótt í félagsskap þeirra. Hún var send í sveit eins og margir af hennar kynslóð og ef hún hvarf þar þá vissu allir hvar hana var að finna. 
„Já, ég veit fátt betra en að leggjast í grasið með kúnum og hundunum. Það eru þessar myndir fortíðarinnar sem ég sæki í að mála og þá vellíðan sem ég upplifði.“ 
 
Kolbrún segist elska það að mála myndir af hrútum enda eru þeir í miklu uppáhaldi hjá henni. Þeir sem vilja skoða verkin hennar betur er bent á að fara inn á heimasíðuna www.kolla.design, Galleríið, Skólavörðustíg 20 og Olíumálverk Kollu á Facebook.
 
Hrútar í miklu uppáhaldi
 
Þegar Kolbrún er spurð að því hvaða dýr henni finnist skemmtilegast að mála segir hún að sauðfé sé í sér­stöku uppáhaldi hjá henni, sérstaklega hrútar. Saga sauðkindarinnar sé samofin þjóðinni frá landnámi, hún hafi fætt okkur og klætt í gegnum aldirnar og að hún beri mikla virðingu fyrir henni.  
 
Gleymir sér við að mála
 
„Ég tengist myndefninu sterkt, hugsa ekkert annað, gleymi mér og tíminn flýgur. Ætli það geti ekki kallast núvitund það sem ég upplifi þegar ég er að mála,“ segir Kolbrún aðspurð hvað hún hugsi þegar hún mundar pensilinn og málar myndir.
 
Fyrsta einkasýningin var hjá Fáki
 
Fyrsta einkasýning Kolbrúnar var 2018 á Stórsýningu Hestamanna­félagsins Fáks í reiðhöll félagsins í Víðidal og þar afhjúpaði hún sig í fyrsta skipti sem listmálara.
 
„Fáir vissu af þessu brölti mínu og ég kveið opnun sýningarinnar, sem reyndist ástæðulaust því hún fékk glimrandi móttökur og líður mér seint úr minni. Þar af leiðandi tel ég þá sýningu þá stærstu,“ segir Kolbrún og hlær.
 
Hlakkar til sumarsins
 
Kolbrún segir að hún og Elli Sig. hlakki mjög mikið til sumarsins. 
 
„Já, sumarið  leggst vel í okkur og við eigum eflaust eftir að njóta sumarhússins okkar í Grafningi, sem er sælureitur okkar, dýranna okkar og fjölskyldunnar. Ekki er ólíklegt að við förum vestur að Látrum. Hinn 5. júní mun ég opna málverkasýningu með Björgu Friðmarsdóttur en sýningin verður í Bókasafni Kópavogs. Svo óska ég þess að lokum að íslenska þjóðin komist  sem best frá COVID-19 og að viðgetum öll notið sumarsins.“ 
Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...

Flugvélarflak í Eyvindarholti
Líf og starf 10. apríl 2024

Flugvélarflak í Eyvindarholti

Við Eyvindarholt undir Eyjafjöllum hefur gömlu flugvélarflaki verið komið fyrir....