Eigendur Akurs organic. Benedikt Líndal Jóhannsson, Ólína Ingibjörg Jóhannesdóttir, Brynja Reynisdóttir og Jóhannes Ingi Árnason.
Eigendur Akurs organic. Benedikt Líndal Jóhannsson, Ólína Ingibjörg Jóhannesdóttir, Brynja Reynisdóttir og Jóhannes Ingi Árnason.
Mynd / Akur organic
Líf og starf 25. nóvember 2022

Uppskera 65 tonn af lífrænum gulrótum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Margir unnendur lífrænt vottaðra gulróta kannast við Akursels­gulrætur, frá Akurseli í Öxarfirði.

Í byrjun þessa árs keypti Akur organic, sem er nýtt garðyrkjufyrirtæki í lífrænt vottaðri ræktun, allan rekstur Akursels og hefur á undanförnum vikum verið að uppskera og selja sína fyrstu uppskeru undir sínum merkjum – alls um 65 tonn af gulrótum og fjögur tonn af rófum.

Eigendur Akurs organic eru tvenn hjón; Brynja Reynisdóttir og Jóhannes Ingi Árnason á Hallgilsstöðum 2 í Þistilfirði og Ólína Ingibjörg Jóhannesdóttir og Benedikt Líndal Jóhannsson á Brúarlandi 2 í Langanesbyggð.

Gulræturnar eru aðallega teknar upp með upptökuvél, en vegna mikillar bleytu þurfti í haust að handtína hluta af uppskerunni.
Sólardagar í haust björguðu uppskerunni

Að sögn Ólínu var sumarið á Norðausturlandinu mjög kalt og útlit fyrir uppskerubrest í lok ágúst en svo komu sólardagar í september sem björguðu uppskerunni alveg.

Hún segir að sjálfsögðu engin eiturefni notuð við ræktunina og allt illgresi sé fjarlægt með höndum tvisvar á hverju sumri og því ljóst að að baki því verki liggi mörg handtökin. Þá þurfi að taka dúkana af beðunum og setja svo aftur yfir. Einnig þurfi að passa akrana fyrir ágangi gæsa, þær hafi einu sinni komist í gulrótaakurinn og náðu að valda þó nokkru tjóni.

Lífrænn áburður frá Ísfélagi Vestmannaeyja

Ísfélag Vestmannaeyja framleiðir allan lífrænan áburð fyrir Akur organic, í formi loðnumjöls síðasta vor, og því kolefnissporið í lágmarki enda ekki nema tæplega 20 kílómetra flutningsleið frá framleiðanda á Þórshöfn og út á akrana.

Ólína segir að þrír akrar séu í notkun hjá þeim í dag, einn fyrir lífræna rótargrænmetið og svo tveir aðrir sem eru að hvíla, en þar verði lífrænu hveiti sáð.

Akur organic, sem er nýtt garðyrkjufyrirtæki í lífrænt vottaðri ræktun, skar upp um 65 tonn af gulrótum og fjögur tonn af rófum í haust.
Bæði hjón eru sauðfjárbændur

Að sögn Ólínu reka þau Brynja og Jóhannes Ingi sauðfjárbú á Hallgilsstöðum.
„Brynja var áður starfandi ritari hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í rúm 20 ár, fyrst á Raufarhöfn sem ritari og umsjónarmaður apóteks og svo á Þórshöfn sem ritari en einbeitir sér nú að rekstri Akurs Organic ehf.

Benedikt er reynslumikill í rekstri fyrirtækja, hefur rekið og starfað á Ökumælum ehf. í Reykjavík frá árinu 1999 og gerir enn ásamt því að reka hestaflutningafyrirtæki um margra ára skeið. „Við hjónin rekum skólabíla, sumarhús í útleigu ásamt sauðfjárbúi, en erum smátt og smátt að fækka fénu,“ segir Ólína en hún er menntuð á sviði viðskipta og segir að það komi sér vel í rekstrinum og markaðssetningunni.

Dyrhólagulrætur breyttust í Akurselsgulrætur

Akur organic keypti sem fyrr segir allan rekstur Akursels ehf. í upphafi ársins 2022 af þeim hjónum Sigurbjörgu Jónsdóttur og Stefáni Gunnarssyni.

En Akursel ehf. er rótgróið fyrirtæki sem hóf starfsemi árið 1980 sem Dyrhólagulrætur. Árið 1995 breyttist nafnið í Akurselsgulrætur, þegar félagið fékk lífræna vottun. Að sögn Ólínu starfaði Jóhannes Ingi, hjá Dyrhólagulrótum fyrir fjölmörgum árum og þekkti því aðeins til starfseminnar.

Hún segir að hjónin Sigurbjörg og Stefán séu með reynslumestu ræktendum landsins í lífrænni ræktun. Sigurbjörg hafi verið þeim til halds og trausts á fyrsta rekstrarárinu og leiðbeint þeim eftir þörfum.

Sveitasælan sem hristi markaðinn
Líf og starf 2. desember 2022

Sveitasælan sem hristi markaðinn

Svíaríki er talið með stöðugri löndum í heiminum í dag. Ekki bara í efnahagslegu...

Heimasmíðuð leikföng, gjafa- og skrautmunir
Líf og starf 2. desember 2022

Heimasmíðuð leikföng, gjafa- og skrautmunir

Hvað er betra eða notalegra en að byrja jólaundirbúninginn á því að heimsækja jó...

Vinna með bilið milli manns og lands
Líf og starf 30. nóvember 2022

Vinna með bilið milli manns og lands

Ný námsbraut sem ber yfir­skriftina Land verður í boði í LungA skólanum á Seyðis...

Rafbók um landbúnað
Líf og starf 30. nóvember 2022

Rafbók um landbúnað

Á dögunum var gefin út rafbókin Landbúnaður liðinna tíma – búnaðarþættir úr Þing...

Lengi býr að fyrstu gerð
Líf og starf 29. nóvember 2022

Lengi býr að fyrstu gerð

Í síðustu tölublöðum Bændablaðsins hefur saga handverksbrugghúsa á Íslandi verið...

Heiðraðar á haustfundi
Líf og starf 29. nóvember 2022

Heiðraðar á haustfundi

Fjórar félagskonur í Kvenfélagi Þistilfjarðar voru á haustfundi félagsins gerðar...

Glaðlega leikur skugginn í sólskininu
Líf og starf 29. nóvember 2022

Glaðlega leikur skugginn í sólskininu

Steinn Kárason garðyrkju- og umhverfishagfræðingur hefur sent frá sér skáldsögun...

Matreiðslunemar fylgdu nauti alla leið
Líf og starf 28. nóvember 2022

Matreiðslunemar fylgdu nauti alla leið

Íslenskt gæðanaut, verkefni á vegum Bændasamtaka Íslands, bauð nýverið tilvonand...