Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Hrísgrjónasteik sem auðvitað má gera úr fersku hráefni en hentar bara svo einstaklega vel sem afgangahjálp.
Hrísgrjónasteik sem auðvitað má gera úr fersku hráefni en hentar bara svo einstaklega vel sem afgangahjálp.
Mynd / Hari
Líf og starf 12. febrúar 2025

Unglingaafgangahrísgrjónasteikarhræra

Höfundur: Hafliði Jónasson

Hvað á að gera við alla litlu afgangana? Þessa sem duga varla upp í nös á ketti en við sem þjóðfélag viljum ekki henda fyrr en í fyrsta lagi á fimmta degi. Svarið er hrísgrjónahræra innspíruð frá austfjörðum fjær.

Til að steikja hrísgrjón í pönnu þurfa grjónin að hafa þroskast í kæliskáp í að minnsta kosti nokkra klukkutíma, helst yfir nótt. Nýsoðin hrísgrjón taka ekki steikingu. Auk þess sem internetið segir að grjón verði beinlínis hollari eftir að hafa kólnað.

Brokkólí, blómkál, sellerí, gulrætur og hvítkál smellpassar allt í bland við lauk og hvítlauk. Vorlaukur er svo alveg sérstaklega fansí ef hann er til.

Hvað próteinið varðar er nánast allur afgangur gjaldgengur. Nautakjöt, kjúklingur, smá svínakjöt eða rækjur – mögulega fiskur ef unglingarnir eru ekki sérlega matvandir. Það þarf heldur ekki að vera mikið eftir því eggjahræru verður bætt út í. Þannig verður rétturinn alger próteinbomba.

Sósa og panna

Sósan sem bindur réttinn saman er norræn útgáfa af asísk-ættaðri
sósu. Flestir eiga sojasjósu aftarlega í skúffu eða skáp. Nú eða einhverja af hinum asísku brúnu umami-sósunum. T.d. ostrusósu, hoisin eða teryaki. Hægt að nota í sitt hvoru lagi eða prófa að blanda saman. Hin enska worcestershire-sósa, jafnvel HP steikarsósa eru líka brúklegar. Sérstaklega til að blanda við hinar asísku. Trixið er svo að brúka móðursósu allra móðursósa til að binda saman jukkið, tómatsósuna. Já, og smá bús. Léttvínssletta eða sætvín eins og púrtari eða sérrítár setur svo lokahnykkinn á sósuna.

Hræran að þessu sinni byggðist á því að kvöldið áður var píta með þurrsteiktu hakki í matinn. Afgangurinn af kjötinu fyllti ekkiínösákettienfórþóí Tupperweredunk í kæliskápinn. Tveir pokar af grjónum voru soðnir í hádeginu daginn eftir og settir í kæli. Um kvöldið fannst gulrót, nokkrar ræmur af hvítkáli, hálfur laukur, tvö hvítlauksrif og einn haus af brokkólíi í skúffunni. Grænmetið var skorið niður í hæfilega stóra bita og svo steikt í wok-pönnu.

Það er hægt að nota hvaða pönnu sem er eða bara stóran þykkan pott þótt wok-panna sé sennilega besta tólið til verksins. Gott að eiga norrænu útgáfuna, þessa með teflonhúð og loki. Mjög hentug til að poppa í – en það er önnur saga.

Steikjum lauk!

Byrja á að steikja laukinn við ekki of mikinn hita í bragðlítilli matarolíu. Þegar laukurinn er byrjaður að mýkjast má hækka smá og bæta öllu öðru grænmeti hússins út í nema hvítlauknum. Viljum ekki að hann brenni. Þegar örlítill litur er kominn á jukkið fer próteinið í pottinn. Þá fer sirka 2/3 hluti grjónanna út í, allt í lagi að skvetta smá olíu með þeim ef þurfa þykir. Steikja þangað til örlítill hnetukeimur stígur upp af grjónunum. Þá fer hvítlaukurinn út í og nýnorræna asíska sósan skömmu síðar. Atvinnufólk að austan hellir henni í pönnukantinn til að karmelísera hana örlítð þegar hún blandast saman við restina. Steikja í stutta stund og þannig að allt blandist vel saman við. Sósurnar eru flestar mjög saltar þannig að það þarf lítið salt. Sennilega bara ekki neitt.

Hella herlegheitunum í stóra skál og þurrka helstu leifar úr pönnunni og setja smá olíu eða smjör í hana. Jafnvel örlítið af hvoru tveggja. Hræra saman egg í skál og steikja ásamt restinni af grjónunum. Hræra þar til eggin hafa tekið sig og grjónin hitnað í gegn. Blanda þessari blöndu saman við blönduna í skálinni. Bera fram og taka við hrósi frá unglingastóðinu.

Pítuafgangahrísgrjónasteikarhræra

250 g hrísgrjón (2 pokar)
200 grömm nautahakk
2 egg
1 brokkolítré
2/3 laukur
1 gulrót
2 hvítkálsblöð
2 hvítlauksgeirar

Sósa

1⁄2 dl tómatsósa
2 msk. soyasósa
1 tsk. Worchester-sósa
1 skot púrtvín
1 skvetta eldpiparsósa

Þýskar heimsbókmenntir
Líf og starf 3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Hætt er við að ýmsar fréttnæmar útgáfur verði undir í jólabókaflóðinu nú sem fyr...

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi
Líf og starf 3. desember 2025

Fjórtán ára að syngja með Karlakórnum Heimi

Yngsti meðlimur karlakórsins Heimis í Skagafirði er Fjölnir Þeyr Marinósson sem ...

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum
Líf og starf 3. desember 2025

Nýsköpunarhæfni gagnast öllum

Hugmyndasmiðir er verkefni sem miðar að því að kenna börnum að verða frumkvöðlar...

Jólakötturinn í Freyvangi
Líf og starf 3. desember 2025

Jólakötturinn í Freyvangi

Það ættu allir að eiga sinn stað í tilverunni, sama hversu skrítnar skrúfur þeir...

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar
Líf og starf 3. desember 2025

Dagur, Björn og Lenka best á Skákþingi Garðabæjar

Skákþingi Garðabæjar lauk á dögunum en mótshaldarinn, Taflfélag Garðabæjar, á um...

Mögnuð vörn í beinni
Líf og starf 1. desember 2025

Mögnuð vörn í beinni

Gaman hefur verið að fylgjast með viðtökum íslenskra briddsunnenda gagnvart nýju...

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga
Líf og starf 28. nóvember 2025

Sefar sorgir annarra en glímir við eigin skugga

Út er komin skáldsagan Sálnasafnarinn eftir Þór Tulinius.

Blóðþyrst kona vill barnakjöt
Líf og starf 27. nóvember 2025

Blóðþyrst kona vill barnakjöt

Grýlu er fyrst getið á miðöldum en sú Grýla sem við þekkjum stingur upp sínum lú...